Launamunur verkakvenna og verkakarla

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 13:54:42 (3998)

1998-02-18 13:54:42# 122. lþ. 70.2 fundur 469. mál: #A launamunur verkakvenna og verkakarla# fsp. (til munnl.) frá félmrh., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[13:54]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa fyrirspurn sem vissulega er ástæða til að flytja hér í kjölfar þeirra frétta að nú séu ekki einu sinni verkakonur jafnokar karla í launum, en hjá verkafólki hefur verið minnsti munurinn á launum kvenna og karla, samanber bók Hagstofunnar, Konur og karlar '97, þar sem þessi þróun kemur mjög skýrt fram.

Það er ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra óskar samstarfs við verkalýðshreyfinguna en í þessu máli hefur verkalýðsforustan haft skýringar, nefnilega þær að verkakonur hafi orðið fyrir pólitískum aðgerðum sem m.a. felist í útboðum á skúringum og öðru slíku og þess vegna lendi þær í verktakavinnu sem lækki laun þeirra. Mér virðist ljóst, og um það deili ég við verkalýðshreyfinguna, að þarna gætu lögbundin lágmarkslaun tryggt að þetta gerist ekki þrátt fyrir verktakavinnu. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti hugsað sér að taka með einhverjum hætti á þessu máli skúringakvenna og fleiri.