Launamunur verkakvenna og verkakarla

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 13:57:10 (4000)

1998-02-18 13:57:10# 122. lþ. 70.2 fundur 469. mál: #A launamunur verkakvenna og verkakarla# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[13:57]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þau viðbrögð sem hann hefur sýnt við þessari fyrirspurn. Ég tel að ráðherrann bregðist rétt við í þessari stöðu, að kalla til aðila vinnumarkaðarins og skipa nefnd sem fari ofan í þetta mál. Við stöndum frammi fyrir mjög alvarlegri og skuggalegri þróun varðandi kjör verkakvenna en sú þróun hefur verið að eiga sér stað á undanförnum árum. Og auðvitað þarf að fara ofan í þær skýringar sem nefndar eru til. Er það t.d. svo að aðgerðir ríkisvaldsins hafi bitnað sérstaklega á ófaglærðu fólki og verkafólki? Er það svo að við stöndum okkur ekki í starfsmenntun og starfsþjálfun fyrir ófaglært fólk sem hefur bitnað á því með þessum hætti? Og er það svo að hagræðing í atvinnulífi hafi fyrst og fremst bitnað á verkafólki?

Auðvitað hlýtur nefndin að skoða alla þessa þætti og það sem t.d. kemur fram í Vinnunni um að ákveðinn hópur á vinnumarkaði hafi ekki notið sömu launaþróunar og aðrir í samfélaginu og þetta eigi sérstaklega við um hinn stóra hóp verkakvenna og þessarar þróunar megi e.t.v. leita í þeim skýringum sem ég nefndi áðan. Þetta er auðvitað mjög alvarleg staða. Þess vegna tel ég að viðbrögð hæstv. ráðherra séu rétt. Ég fagna þeim og að ráðherrann hafi brugðist við þessari fsp. með því að skipa nefnd. Og ég treysti því að eitthvað komi út úr þeirri vinnu. Í fyrsta lagi það að leiðréttur verði þessi launamunur, og ég heyri á orðum ráðherrans að hann muni beita sér fyrir því, ef það kemur fram sú skýring að hér sé um að ræða brot á jafnréttislögum. Í annan stað að almennt verði staða þessa hóps bætt á vinnumarkaðnum. Þar er ég sérstaklega að tala um starfsmenntun og starfsþjálfun. Þar hefur ríkisstjórnin ekki staðið sig sem skyldi vegna þess að á tímum góðæris hefur fjármagn til starfsmenntunar í atvinnulífinu ekkert verið aukið.

Ég ítreka þakklæti mitt til ráðherra fyrir þessi svör og hvernig hann ætlar að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin.