Nýjar starfsreglur viðskiptabankanna

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 14:02:20 (4002)

1998-02-18 14:02:20# 122. lþ. 70.3 fundur 350. mál: #A nýjar starfsreglur viðskiptabankanna# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[14:02]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Nokkur umræða hefur orðið á sl. einu til tveimur árum um starfskjör bankastjóra og stjórnenda ríkisbankanna og Seðlabanka. Í framhaldi af fyrirspurnum á Alþingi hefur gagnrýnin beinst að því hve launakjör stjórnenda bankanna virðast hafa hækkað langt umfram almenna launaþróun í landinu auk þess sem gagnrýnd hafa verið mikil lífeyrisréttindi bankastjóranna. Einnig hefur gagnrýnin beinst að því að stjórnendur bankanna sitja í nefndum og stjórnum hjá fyrirtækjum tengdum bönkunum og þiggja fyrir það háar tekjur umfram bankastjóralaunin.

Sömuleiðis hafa tíðar ferðir bankastjóranna og háar dagpeningagreiðslur ásamt því að ferðakostnaður og dagpeningar hafa einnig verið greiddir mökum bankastjóranna orðið tilefni til þess að hávær krafa hefur komið fram um breytingar á þessu ferðahvetjandi fyrirkomulagi og einnig hitt að enginn virðist bera ábyrgð á því fyrirkomulagi sem gilt hefur í þessu efni. Krafa hefur því komið fram um breytingar á öllum starfskjörum stjórnendanna og að opnar og sýnilegar starfsreglur verið settar um ferðir og ferðakostnað stjórnendanna svo að hætt verði að greiða ferðakostnað og dagpeninga maka bankastjóra. Hæstv. viðskrh. hefur í kjölfar þeirra umræðna á sl. ári látið að því liggja að breytingar yrðu á launa- og starfskjörum bankastjóranna. Því beini ég eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. viðskrh.:

Hvaða reglur munu gilda um starfskjör stjórnenda hlutafélagabankanna um næstu áramót, þar með taldar aukagreiðslur fyrir setu í nefndum, stjórnum, ráðum og fyrirtækjum tengdum bönkunum og risnu- og bifreiðahlunnindi?

Hver verða heildarstarfskjör stjórnenda hlutafélagabankanna með nýjum starfsreglum?

Verða settar almennar starfsreglur um risnu- og ferðakostnað fyrir bankana? Ef svo er, hverjar eru þær reglur og hver mun leggja mat á nauðsyn utanlandsferða á vegum bankanna eftir breytinguna?

Mun áfram verða greiddur ferðakostnaður maka, þar með taldir dagpeningar?

Mun ráðherra beita sér fyrir því að nýjar starfsreglur um risnu- og ferðakostnað og starfskjör stjórnenda bankanna verði einnig teknar upp í Seðlabankanum?