Húshitunarkostnaður

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 14:13:15 (4006)

1998-02-18 14:13:15# 122. lþ. 70.4 fundur 424. mál: #A húshitunarkostnaður# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[14:13]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Í hinum meitlaða texta stjórnarsáttmálans segir m.a.: ,,Unnið verður að lækkun húshitunarkostnaðar.`` Það er ekki að ástæðulausu að þetta er sett inn í textann vegna þess að eins og menn vita þá hefur það víða verið svo á landsbyggðinni að menn hafa búið við sligandi kostnað af þessum sökum og enginn vafi er á því að þetta hefur haft veruleg áhrif á búsetuþróunina á undanförnum árum. Það kemur t.d. í ljós í ákaflega fróðlegri skýrslu, sem unnin hefur verið fyrir Byggðastofnun um rannsókn á orsökum búferlaflutninga af Félagsvísindastofnun háskólans undir forustu Stefáns Ólafssonar, að m.a. á þeim stöðum þar sem búseturöskunin hefur orðið hvað mest er óánægjan mest með húshitunarkostnaðinn. Í þessu sambandi eru nefndir staðir eins og Ísafjörður, Höfn í Hornafirði, Neskaupstaður, Reyðarfjörður, Eskifjörður og Vestmannaeyjar auk Akureyrar og Akraness.

Við sjáum á þessu að hér er um að ræða mjög stórt mál sem þarf nauðsynlega að takast á við. Það er með öðrum orðum ljóst að ein af forsendum fyrir að hægt sé að snúa við hinni óæskilegu búsetuþróun sem hefur orðið í landinu á undanförnum árum er að okkur takist að lækka húshitunarkostnaðinn þar sem hann hefur verið hæstur og er hæstur núna.

Það verður að segjast eins og er að í þessum efnum hafa menn haft mismikinn vilja en reynt þó og reynslan er sú, ef við skoðum þetta yfir lengra tímabil, að okkur hefur miðað ótrúlega illa. Að vísu hefur þetta þróast misjafnlega á milli staða. Til dæmis er alveg ljóst að Orkubú Vestfjarða hefur staðið sig einna best í þessum efnum. Hjá Orkubúi Vestfjarða var kostnaðurinn 1. desember 1989 2,89 kr. á kwst. en var 15. október 1996 2,30 kr. Til samanburðar tek ég Rafmagnsveitur ríkisins þar sem þróunin hefur verið sú að frá sama tíma, 1. desember 1989, var kostnaðurinn á kwst. 2,89 kr., þ.e. sá sami og hjá Orkubúinu, en var 15. október 1996 2,60 kr. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn sem ég lagði fram á 121. löggjafarþingi og hæstv. iðnrh. svaraði þá og leiðir í ljós að þrátt fyrir að heldur hafi miðað í rétta átt er enn svo að ekki hafa orðið neinar stökkbreytingar, engar grundvallarbreytingar, og enn þá er þetta mjög sligandi og verulegur þáttur í útgjöldum heimilanna á þessum stöðum.

Mér er kunnugt um að hæstv. iðnrh. skipaði nefnd til að vinna að því markmiði stjórnarsáttmálans, sem ég nefndi hér, og því hef ég leyft mér að spyrja hæstv. iðnrh. á þskj. 747:

Í fyrsta lagi. Hvað líður störfum nefndar er ráðherra skipaði 23. nóvember 1995 til þess að vinna að því markmiði stjórnarsáttmálans að lækka húshitunarkostnað í landinu?

Í öðru lagi. Hvert er markmiðið með störfum nefndarinnar og er að því stefnt að tillögur hennar feli í sér tiltekna lækkun orkukostnaðar á ári?

Í þriðja lagi. Eru á döfinni frekari aðgerðir til þess að vinna að því að lækka húshitunarkostnað á þeim svæðum þar sem hann er mestur nú?