Húshitunarkostnaður

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 14:27:59 (4012)

1998-02-18 14:27:59# 122. lþ. 70.4 fundur 424. mál: #A húshitunarkostnaður# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[14:27]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans við fyrirspurn minni. Ég vil láta það koma hér fram að ég er heldur óánægður með þau fyrirheit sem ég fann í máli hæstv. ráðherra. Ef maður skoðar það sem hæstv. ráðherra sagði, þá var hann að benda á það, sem er auðvitað út af fyrir sig athyglisvert, að innan gjaldskrársvæðanna er kostnaður einstakra húseigenda mismunandi. Auðvitað er sjálfsagt mál að reyna að ráða bót á því. Við höfum áður séð að menn gera átak á því sviði með bættri einangrun og auknum fróðleik um það hvernig fólk geti lækkað húshitunarkostnað sinn með eigin aðgerðum og það hefur skilað árangri.

En ef við skoðum hins vegar kostnað á kílóvattstund sem er hinn raunhæfi samanburður sem við getum beitt, þá eru þær upplýsingar sem ég hef frá 15. október 1996. Ég hef ekki handbærar nýrri upplýsingar þó þær séu að sjálfsögðu til. Þar kemur það fram að kostnaðurinn hjá Hitaveitu Reykjavíkur er 1,52 kr., hjá Orkubúi Vestfjarða 2,30 kr. og Rafmagnsveitum ríkisins 2,60 kr. Auðvitað eru það þessar tölur, virðulegi forseti, sem segja okkur til um hinn raunverulega mismun á kostnaði við að kynda hús á Vestfjörðum, á Rarik-svæðinu og hjá Hitaveitu Reykjavíkur. Og það er þessi kostnaðarmunur sem stingur í augun svo svíður.

Út af fyrir sig er alveg rétt að það sé mikilvægt að nýta jarðhitann eftir því sem hægt er. Menn hafa reynt þetta, t.d. í mínu kjördæmi á Drangsnesi. Eins hafa verið skoðaðir möguleikar bæði í Bolungarvík og Ísafirði en við erum ekki enn farin að sjá hvernig það fer. Ég held, hvað sem líður öllum þessum athugunum, að til þess að við getum lækkað orkukostnaðinn úti á landi, þá verði allt að koma til í senn. Landsvirkjun verður að auka afslátt sinn á orkusölu til húshitunar á næstu árum og ríkið verður að setja meira fé í að greiða kostnaðinn niður. Til viðbótar því að skipulagsbreytingar verði gerðar á orkusölumálunum, þá tel ég að með þessum hætti getum við ráðist að þessum vanda sem er alvarlegur víða um landið.