Skipulagsbreytingar í heilbrigðisþjónustu

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 14:57:08 (4025)

1998-02-18 14:57:08# 122. lþ. 70.6 fundur 450. mál: #A skipulagsbreytingar í heilbrigðisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[14:57]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er verið að spyrja um hvernig væri hægt að tryggja aðgang allra starfsstétta sem vinna innan heilbrigðisþjónustunnar að úrræðum og ákvörðunum um skipan mála þar. Ég þekki heilbrigðisstofnanir býsna vel og veit að þar starfa a.m.k. 15--20 ólíkir starfshópar. Það gæti því orðið flókið að koma öllum þeim hópum og þar með þeirra sjónarmiðum að við skipan mála. Ákveðnar stéttir bera lögum samkvæmt ábyrgð á þjónustu, bæði faglega og fjárhagslega þannig að það hefur auðvitað skipast svo að oft er leitað til þeirra með tilnefningu í nefndir.

Ég vil minna á að leita mætti t.d. til starfsmannaráða sem gætu þá tilnefnt í starfshópa fyrir heildina á stofnunum. Auk þess má, eins og ég veit að hefur verið gert t.d. á Landspítala, við framtíðarskipan og stefnumörkun mynda innanhússkipaða þverfaglega hópa að þá er leitað til allra starfsstétta þar sem fólk getur komið sjónarmiðum sínum á framfæri sem vonandi rata alltaf inn í þann farveg þar sem ákvarðanir eru teknar.