Greiðslur í fæðingarorlofi

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 15:02:21 (4028)

1998-02-18 15:02:21# 122. lþ. 70.7 fundur 457. mál: #A greiðslur í fæðingarorlofi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[15:02]

Fyrirspyrjandi (Ásta B. Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Ég hef beint tveimur spurningum til hæstv. heilbr.- og trmrh.:

1. Hvernig skilgreinir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti greiðslur á fæðingarstyrk og dagpeningum til mæðra í fæðingarorlofi? Eru greiðslurnar skilgreindar sem laun, tekjutrygging eða bætur?

2. Hvar er að finna stoð í lögum eða reglugerð fyrir ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að greiða foreldrum langveikra eða fatlaðra barna ekki umönnunarbætur á meðan móðir er í fæðingarorlofi?

Í svari fjmrh. hæstv. á þskj. 311 við fsp. hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar um réttindi og greiðslur í fæðingarorlofi kom fram að konur í þjónustu ríkisins njóta launa í barnsburðarleyfi í samræmi við reglugerð frá 1989 um barnsburðarleyfi. Þegar kona nýtur launagreiðslu í barnsburðarleyfi er litið svo á að hún sé enn áfram í starfi og ávinni hún sér þar af leiðandi rétt til orlofs og annarra starfsaldurstengdra réttinda. Greitt er í lífeyrissjóð af laununum í barnsburðarleyfinu. Þess ber að geta að kærunefnd jafnréttislaga telur líka að laun í fæðingarorlofi falli undir hugtakið ,,kjör`` í skilningi jafnréttislaga.

Í lögum um félagslega aðstoð er heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna sem dveljast heima eða á sjúkrahúsi. Greiðslum þessum er ætlað að koma til móts við tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu og má greiða þær frá þriggja mánaða aldri barnsins. Umönnunarbætur eru augljóslega grundvallaðar á allt öðrum forsendum en greiðslur í fæðingarorlofi. Nýlegur úrskurður tryggingaráðs um samspil fæðingarorlofs og umönnunarbóta, sem segir í raun að líta beri á fæðingarorlofsgreiðslur sem bætur og því megi ekki greiða umönnunarbætur samtímis, sýnir að ráðuneytin túlka lögin um fæðingarorlof ekki með sama hætti.

Í reglugerð heilbrrn. er miðað við að umönnunarbætur taki við af fæðingarorlofsgreiðslum þó heimilt sé að greiða bæturnar á fæðingarorlofstímabilinu. Þetta ákvæði hefur ráðuneytið túlkað á þann veg að ef barn fæðist alvarlega fatlað eða með lífshættulegan sjúkdóm getur móðir fengið umönnunarbætur gegn því að hún afsali sér fæðingarorlofsgreiðslum. Rétt er að taka það fram að launuð vinna móður á öðrum tímum skerðir ekki réttinn til umönnunarbóta.

Ef túlkun fjmrh. hæstv. og túlkun Jafnréttisráðs er höfð í huga, um að um laun sé að ræða, verður ekki annað séð en að úrskurður tryggingaráðs hafi verið á þá leið að verið sé að mismuna fjölskyldum alvarlega, fjölskyldum fatlaðra og langveikra barna.