Bifreiðakaupastyrkir fyrir hreyfihamlaða

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 15:28:44 (4037)

1998-02-18 15:28:44# 122. lþ. 70.8 fundur 461. mál: #A bifreiðakaupastyrkir fyrir hreyfihamlaða# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[15:28]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Þetta mál er eins og annað þegar kemur að því sem verið er að gera varðandi bætur almannatrygginga. Það er hvorki haus né sporður á neinu sem gert er í þeim málaflokki.

Til þess að menn tali íslensku og segi sannleikann, þá er eftirfarandi að gerast í bifreiðamálefnum öryrkja og ellilífeyrisþega: Það er verið að reyna að losna við þetta úr Tryggingastofnun. Hvert fer það? Það fer auðvitað í tryggingafélögin. Það er verið að ýta þessu öllu þangað þó að margoft hafi komið fram að skil á lánum, þegar um lán hefur verið að ræða, hafa verið svo til 100%.

Til að bæta við, hæstv. forseti, sögum af misrétti skal ég segja eina. Manni, sem sótti nýlega um bifreiðastyrk og er kominn yfir sjötugt, var synjað af því að hann hafði ekki verið öryrki fyrir. Einungis þeir sem hafa verið öryrkjar fyrir 67 ára aldur fá þessa fyrirgreiðslu. Ef þetta er jafnrétti, þá veit ég ekki hvað jafnrétti er.