Könnun á hagkvæmni kalkþörungavinnslu

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 15:42:38 (4043)

1998-02-18 15:42:38# 122. lþ. 70.10 fundur 409. mál: #A könnun á hagkvæmni kalkþörungavinnslu# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[15:42]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. 7. maí á síðasta ári samþykkti Alþingi þál. um könnun á hagkvæmni kalkþörungavinnslu. Ályktunin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að láta kanna hagkvæmni mögulegrar kalkþörungavinnslu á helstu útbreiðslusvæðum þeirra, svo sem í Húnaflóa og Arnarfirði.``

Þegar till. var til umfjöllunar á Alþingi sl. vetur fylgdi henni ítarleg greinargerð. Þar kemur fram að Frakkar taki árlega um 300.000 lestir af kalkþörungaseti af hafsbotni við Bretagne-skaga. Úr kalkþörungum vinna þeir kalkáburð til notkunar í landbúnaði auk þess að því hefur verið blandað í skepnufóður og notað til síunar á súru neysluvatni.

Um árabil hafa menn vitað að í Húnaflóa og Arnarfirði er að finna auðug mið kalkþörunga. Sýni úr Arnarfirði voru tekin árið 1969 og þar voru einnig stundaðar rannsóknir árið 1975.

Flatarmál kalkþörungamiðanna við Langanes í Arnarfirði reyndist vera um 2,4 km2 og á því svæði ætti því samkvæmt mælingum á rúmþyngd kalkþörunga að vera um 2 millj. tonna af ferskum kalkþörungum í eins metra þykku lagi. Þykkt lagsins er hins vegar ókönnuð. Ef miðað er við að vöxtur þörunganna sé 1 sm á ári, má búast við að framleiðslan gæti verið um 20 þús. tonn af kalkþörungum á Langanessvæðinu einu saman.

Árið 1979 var gerð könnun á Húnaflóa og tilgangur þeirrar ferðar að finna skeljasand sem nýta mætti til áburðar á ræktað land. Niðurstaðan sýndi að í Húnaflóanum, þ.e. á Miðfirði, Hrútafirði og utanverðum Bitrufirði, eru víðáttumiklar breiður af kalkþörungaseti.

[15:45]

Í framhaldi af ályktun Alþingis hef ég því leyft mér að bera fram á þskj. 730 svohljóðandi fyrirspurn til sjútvrh. um könnun á hagkvæmni kalkþörungavinnslu:

,,Hver var niðurstaða könnunar þeirrar á hagkvæmni mögulegrar kalkþörungavinnslu á helstu útbreiðslusvæðum kalkþörunga, svo sem í Húnaflóa og Arnarfirði, sem samþykkt var á Alþingi 7. maí 1997 að fela sjávarútvegsráðherra að láta gera?``