Túnfiskveiðar

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 15:50:55 (4047)

1998-02-18 15:50:55# 122. lþ. 70.11 fundur 423. mál: #A túnfiskveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[15:50]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ekki er hægt að segja annað en að tilraunaveiðar Japana á túnfiski í íslenskri landhelgi síðustu tvö ár hafi gefið góða raun og veiðin meiri á síðasta ári en nokkur þorði að vona. Á meðan á tilraunaveiðinni hefur staðið hafa íslenskir útgerðarmenn beðið á hliðarlínunni og fylgst með japönskum sjómönnum róta upp túnfiskinum. Að mínu áliti er komið að lokum þessara tilraunaveiða og tímabært að gera íslenskum útgerðarmönnum kleift að taka þátt í þessum dansi jafnt og ríkinu. Að mínu áliti gerist það vart á annan hátt en þann að íslenskir útgerðarmenn og sjómenn geti aflað sér nauðsynlegrar þekkingar til að geta stundað túnfiskveiðar með bestu tækni til að ná árangri við veiðarnar og vinna aflann fyrir öflugustu markaðina, og þá m.a. með leigu á erlendum skipum.

Auðvitað geta Íslendingar gert þetta einir og gera, en árangurinn er aðeins einn fjórði af veiði Japananna með þeirri þekkingu og útbúnaði sem þeir ráða yfir. Því getur samstarf hjálpað okkur og flýtt þróuninni á þessu sviði hér á landi.

Fyrir íslensk stjórnvöld er einnig mjög mikilvægt að floti á vegum Íslendinga nái að afla sér veiðireynslu í lögsögunni áður en sótt verður um inngöngu í ICAT, Alþjóðatúnfiskráðið. ICAT telur sig reyndar geta stjórnað túnfiskveiðinni um allan heim, innan og utan landhelgi. Ríki sem eru að byrja túnfiskveiðar hafa þó ákveðna aðlögun áður en kemur að afskiptum ráðsins og því er betra að rasa ekki um ráð fram um inngöngu í ráðið en nýta tímann á meðan við getum verið utan þess og aflað okkur veiðireynslu.

Til að ná upp veiðireynslu á stuttum tíma þarf öflugan flota og tæknivæddan en sá floti er til staðar ef lög heimila nýtingu hans innan fiskveiðilögsögunnar. Þá nýtingu hugsa ég mér sem leigu íslenskra aðila á erlendum túnfiskveiðiskipum sem frysta aflann um borð. Ekki er heimilt að nýta þennan flota í landhelginni samkvæmt núgildandi lögum og þarf því lagabreyting að koma til sem heimilar erlendum túnfiskveiðiskipum veiðar innan íslensku fiskveiðilögsögunnar með ákveðnum skilyrðum.

Frændur okkar Færeyingar hafa fetað í fótspor okkar í fyrsta sinn í fyrra með rannsóknarsamningi við japönsk túnveiðiskip. Veiðin var mjög góð hjá þeim og áhugi fyrir túnfiskveiðum í Færeyjum mjög mikill. Túnfiskurinn gengur inn í fiskveiðilögsögu beggja landanna og heyrst hefur um áhuga Færeyinga á samstarfi við okkur Íslendinga á þessu sviði. Mikilvægt er að mínu áliti að slík samvinna gæti orðið m.a. með gagnkvæmum veiðiheimildum á túnfiski innan fiskveiðilögsögu landanna. Ef af þessu á að verða þarf einnig lagabreytingu til þess.

Í framhaldi af þessum formála hef ég, hæstv. forseti, borið fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. sjútvrh.:

1. Er ástæða til frekari tilraunaveiða á túnfiski innan íslensku fiskveiðilögsögunnar? Ef svo er, hvers vegna?

2. Ef ekki verður um frekari tilraunaveiðar að ræða mun ráðherra þá beita sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum svo að hægt verði að heimila erlendum túnfiskveiðiskipum veiði innan landhelginnar?

3. Er samstarf við Færeyinga um gagnkvæmar veiðiheimildir á túnfiski innan fiskveiðilög sögu landanna til athugunar?