Málefni Hanes-hjónanna

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 16:12:48 (4058)

1998-02-18 16:12:48# 122. lþ. 70.12 fundur 422. mál: #A málefni Hanes-hjónanna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[16:12]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur fyrir að taka málið upp. Mér líka ekki tilburðir Bandaríkjamanna í þessu máli, bæði þeir sem eru þegar fram komnir og eiga e.t.v. eftir að koma fram í formi sendinefndar þeirra hingað til þess að hlutast í reynd til um innlend mál. Sama mætti reyndar segja t.d. um þá ótrúlegu frekju og afskiptasemi bandaríska sendiráðsins vegna frétta um hugsanlegan innflutning á hvalspiki frá Noregi þó það sé annað mál. Hvað halda þessir menn að þeir séu? Er það algerlega gleymt í Bandaríkjum Norður-Ameríku að Ísland sé þó þrátt fyrir allt sjálfstætt ríki?

Það sem ég tel skipta mestu máli er að menn nálgist þetta viðkvæma mál út frá réttum forsendum, þ.e. á mannúðargrundvelli. Þetta snýst um það og málið sé skoðað sem slíkt ótruflað af utanaðkomandi þrýstingi. Það er skoðun mín að ekki sé unnt að tryggja þessu fólki að leita réttar síns í Bandaríkjunum eins og það óskar sjálft án þess að vera þar meðhöndlað fyrir fram sem sakamenn eigi að sjálfsögðu að veita þeim hæli hér, landvist og ef með þarf ríkisborgararétt.