Heimilisofbeldi

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 16:18:10 (4061)

1998-02-18 16:18:10# 122. lþ. 70.13 fundur 432. mál: #A heimilisofbeldi# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[16:18]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Vorið 1997 lagði hæstv. dómsmrh. fram merka skýrslu um heimilisofbeldi hér á landi og var hún rædd ítarlega á hinu háa Alþingi. Í kjölfarið setti hæstv. dómsmrh. á laggir þrjár nefndir. Verkefni þeirra er svo lýst í Voginni, fréttabréfi Jafnréttisráðs frá því í nóvember 1997:

,,Ein nefndin mun huga að stöðu málsins hjá lögreglu, önnur að dómskerfinu og sú þriðja mun skoða almennt hvað unnt sé að gera til að draga úr og á endanum útrýma ofbeldi gegn konum.``

Í sama fréttabréfi er einnig sagt frá aðgerðaáætlun nefndar sem Evrópuráðið skipaði á sínum tíma og skilaði áliti á síðasta ári. Þar er m.a. greint frá því að sú nefnd leggi til að ríkisstjórnir Evrópuráðsins leggi til grundvallar í vinnu sinni gegn heimilisofbeldi að allt ofbeldi sé glæpur og ólíðandi. Í öðru lagi er lagt til að ríkisstjórnir setji sér þriggja ára áætlanir þar sem fram komi ákveðin markmið sem verði metin og endurskoðuð árlega. Þá er einnig lagt til af þessari nefnd að lögregla, dómarar og lögfræðingar fái sérstaka fræðslu varðandi eðli og einkenni ofbeldis gegn konum og börnum.

Í framhaldi af þessu vil ég beina tveimur spurningum til hæstv. dómsmrh.:

Í fyrsta lagi. Hvað líður störfum þeirra þriggja nefnda sem skipaðar voru í kjölfar skýrslu dómsmrh. um heimilisofbeldi vorið 1997? Hvenær má vænta niðurstaðna af starfi þeirra?

Í öðru lagi. Hvernig hyggst ráðherra fylgja eftir niðurstöðum nefndar Evrópuráðsins um heimilisofbeldi sem birtar voru á síðasta ári, þannig að tillögur hennar nýtist og komist í framkvæmd hér á landi?