Heimilisofbeldi

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 16:22:07 (4063)

1998-02-18 16:22:07# 122. lþ. 70.13 fundur 432. mál: #A heimilisofbeldi# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., SvG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[16:22]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Fyrir nokkrum árum flutti ég ásamt hv. þáv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur tillögur um kannanir á orsökum, ástæðum og afleiðingum heimilisofbeldis hér á landi og í framhaldi af því var samin skýrsla og rædd á hv. Alþingi. Mér finnst nauðsynlegt upp á samhengi málsins að nefna það hér að þannig stendur þetta verk og ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að koma þessu máli á dagskrá. Ég vil einnig nefna það í framhaldi af svari hæstv. ráðherra hvort ekki sé ástæða til að ræða vinnu þessara nefnda í þeim nefndadrögum sem kunna að liggja fyrir áður en þessu þingi lýkur vegna þess að ég held að þetta mál liggi þannig að eðlilegt sé að ræða á þessum vettvangi fjöldamarga þætti varðandi heimilisofbeldi almennt. Sú umræða sem við áttum um þessi mál á síðasta þingi var góð. Það voru allir sammála um það, en ég held að það sé skynsamlegt samhengisins vegna að einhver umræða náist um málið á þessu þingi auk þessa mikilvæga fyrirspurnatíma.