Löggæsla í austurhluta Reykjavíkur

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 16:28:12 (4066)

1998-02-18 16:28:12# 122. lþ. 70.14 fundur 439. mál: #A löggæsla í austurhluta Reykjavíkur# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[16:28]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Um fyrstu spurningu hv. þm. er það að segja að á vegum lögreglustjóraembættisins í Reykjavík eru starfandi fimm hverfastöðvar; á Seltjarnarnesi, í miðborginni, Mosfellsbæ, Grafarvogi og Breiðholti. Lögreglumönnum sem starfa við þessar hverfastöðvar hefur verið fjölgað að undanförnu og starfa þar nú samtals 46 lögreglumenn sem sinna sérstaklega þeim verkefnum sem upp koma í hverju hverfi fyrir sig. Starf þessara stöðva felst einkum í eftirliti með viðkomandi hverfum og rannsóknum mála er upp koma í hverfunum. Unnið er að hugmyndum hjá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík um enn frekari eflingu hverfalöggæslu og er stefnt að því að kynna endanlegar hugmyndir um það efni fljótlega.

Þess ber að geta að þegar er farið að hrinda hugmyndum þessum að hluta til í framkvæmd, m.a. með því að settir hafa verið aðalvarðstjórar yfir allar úthverfastöðvarnar til að styrkja stjórn þeirra og efla sjálfstæði þeirra.

Ný tilhögun var tekin upp í haust innan forvarna- og fræðsludeildar lögreglunnar í Reykjavík. Hófu þá störf svokallaðir hverfalögreglumenn sem ætlað er að hafa samskipti við íbúa og skóla hver í sínu hverfi borgarinnar auk þess að sjá um málefni er varða börn og ungmenni í hverfinu. Þessir lögreglumenn hafa aðsetur í hverfastöðvum lögreglunnar og bætast við þá lögreglumenn sem þar eru fyrir.

Auk þessa eru skráðar eftirlitsbifreiðar í hverfin eftir nánara samkomulagi og er fjölda þeirra skipað eftir tíma dags og álagi verkefna. Þessu til viðbótar sinnir umferðardeild lögreglunnar eftirliti í hverfum borgarinnar. Stefnt er að því hjá lögreglunni í Reykjavík að halda áfram að móta það kerfi sem nú er við lýði og þróa það áfram þannig að hægt sé að laga löggæslu í borginni að þörfum einstakra hverfa borgarinnar og borgarinnar í heild.

Þá spyr hv. þm. hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því sérstaklega að komið verði til móts við óskir íbúa í Árbæ um betri löggæslu. Um þetta er það að segja að nýtt skipulag löggæslu fyrir austurhluta Reykjavíkur var tekið upp fyrir rúmu hálfu ári. Eftirliti lögreglu í Árbæjarhverfi er nú einkum sinnt af lögreglumönnum sem starfa í Breiðholtsstöð en einnig sinna þar eftirliti lögreglumenn frá umferðardeild auk almenns eftirlits frá aðalstöð lögreglunnar. Rannsóknarlögreglumenn í Breiðholtsstöðinni rannsaka þau mál sem tengjast Árbæjarhverfi. Þá hefur verið starfandi sérstakur hverfalögreglumaður í Breiðholti og Árbæ sem ætlað er að vinna sérstaklega að málefnum barna og unglinga og skapa tengsl við íbúa.

Eftir að nokkrir fulltrúar íbúa í Árbæjarhverfi gengu á minn fund ræddi ég þetta mál sérstaklega við lögreglustjórann í Reykjavík og í framhaldi af því hefur hann ákveðið að þessi sérstaki hverfalögreglumaður muni framvegis alfarið sinna Árbæjarhverfinu. Með þessum breytingum hefur lögreglumönnum er þessu hverfi sinna verið fjölgað frá því sem áður var og þeim falin skýrari verkefni.