Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 11:18:02 (4074)

1998-02-19 11:18:02# 122. lþ. 72.4 fundur 359. mál: #A eignarhald og nýting á auðlindum í jörðu# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[11:18]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerði í upphafi að umtalsefni hversu margt væri líkt í frv. ríkisstjórnarinnar, sem ég sem iðnrh. flyt, og í þeim frv. sem hefðu verið samin í tíð hans sem þáv. iðnrh. og fyrrv. þáv. iðnrh., Jóns Sigurðssonar. Síðan þegar hv. þm. fór að fara yfir frv. virtist allt vera þar í kaldakoli og ekkert af því sem í svona frv. þyrfti að vera væri þar inni. Mikið óskaplega hefur þetta frv. þá verið gallað sem hv. þm. var að vitna í að hefði verið samið í tíð hans sem iðnrh. í iðnrn.

Meginástæðan fyrir því að það frv. leit aldrei dagsins ljós á Alþingi var ekki bara sú að ekki náðist pólitískt samkomulag milli þáv. stjórnarflokka heldur hitt að fyrir liggur álitsgerð í ráðuneytinu frá prófessor Markúsi Sigurbjörnssyni, nú hæstaréttardómara, og prófessor Þorgeiri Örlygssyni sem unnin var fyrir Friðrik Sophusson fjmrh. og Jón Sigurðsson þáv. iðnrh. um það frv. sem þar lá fyrir. Í álitsgerðinni er komist að þeirri niðurstöðu að í frv. sé um slíka skerðingu eignarréttinda að ræða sem landeigandi þurfi ekki að þola bótalaust og þar af leiðandi sé frv. brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar. Skyldi nokkurn furða þó að ríkisstjórn á þeim tíma væri ekki tilbúin til að flytja slíkt frv.?