Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 11:21:47 (4076)

1998-02-19 11:21:47# 122. lþ. 72.4 fundur 359. mál: #A eignarhald og nýting á auðlindum í jörðu# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[11:21]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Eitthvað held ég að þetta sé nú málum blandið hjá hv. þm. því meginástæðan fyrir því að þeir lagaprófessorar komust að þessari niðurstöðu var sú eins og þar segir: ,,Í frv. var landeigendum aðeins tryggður réttur til jarðefna annarra en málma og málmblendinga og réttur til jarðhita niður á 100 metra dýpi.``

Það er nákvæmlega það sama og er í frv. því sem Alþfl. og Kvennalistinn hafa flutt á Alþingi. Gert var ráð fyrir að ríkið væri eigandi annarra auðlinda í jörðu landeigenda, þar með málma hvar sem er og allra auðlinda undir 100 metra dýpi. Frv. byggði á þeirri forsendu að ekki væri um eignaskerðingu samkvæmt eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar að ræða. Í álitsgerðinni komust hinir áðurnefndu lagaprófessorar hins vegar að þeirri niðurstöðu að þetta bryti í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Það er mjög merkilegt ef það er rétt hjá hv. þm. að annar þessara prófessora hafi breytt afstöðu sinni til þessara hluta. Ég hef hins vegar grun um að í tíð þáv. iðnrh. hv. þm. Sighvats Björgvinssonar hafi verið leitað til annarra aðila, og þá ekki í samráði við hinn stjórnarflokkinn, til að leita eftir hagstæðari álitsgerð.