Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 11:46:48 (4079)

1998-02-19 11:46:48# 122. lþ. 72.4 fundur 359. mál: #A eignarhald og nýting á auðlindum í jörðu# frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[11:46]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Eins og komið hefur fram við umræðuna er hér um að ræða mikilvægt mál sem snýst um eignarhald og eignarréttindi og þarf því ekki að koma á óvart þó pólitískur ágreiningur sé um það mál. Í raun ætti stjórnmálaumræðan að snúast um þessi atriði.

Vitanlega er tiltölulega einfalt fyrir einstaka flokka á Alþingi að leggja frv. fyrir Alþingi og segja: Við höfum margoft lagt þessi stóru mál fyrir. Það á ekki að koma á óvart þó að innan einstakra stjórnmálaflokka sé samkomulag um slík stórmál sem þetta. Menn hljóta að skipa sér í flokka m.a. eftir því hver viðhorf manna eru til eignarhalds og eignarréttinda. Fram undir þetta hefur hins vegar vafist fyrir ríkisstjórnum að ná samkomulagi um slík stórmál. Í framsöguræðu minni fór ég nokkuð nákvæmlega yfir sögu þessa máls og aðdraganda allan og ætla ekki að gera aftur hér. En nú hefur það gerst að ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. hefur orðið ásátt um að leggja fram þessi þrjú stóru mál á Alþingi sem öll tengjast á einhvern hátt.

Segja má að í hnotskurn staðfesti þetta frv. eignarrétt landeigenda á auðlindum í jörðu, eignarhald hans á landi og réttinn innan netlagna í vötnum og sjó. Á móti kemur að iðnrh. fær víðtækari heimildir en áður hafa verið til að nýta réttindi eða láta nýta í almannaþágu, réttindi á landareign í einkaeigu. Það hlýtur að skipta höfuðmáli.

Umræðan og ágreiningurinn hefur hins vegar snúist um jarðhitann og ég vil fara nokkrum orðum um hann í ljósi þeirra orðaskipta sem ég átti við hv. þm. Hjörleif Guttormsson í andsvari eftir framsögu mína. En vegna umræðna um þetta frv. má ætla að þetta snúist fyrst og fremst um eignarhald á jarðhitanum og hvort hægt sé að afmarka þau réttindi við 100 metra dýpi annars vegar eða háhita eða lághita hins vegar eins og skýrt kemur fram í 7. og 10. gr. frv. Alþfl. og Kvennalistans sem hér liggur fyrir. Menn hafa, fram undir þetta, talað um að háhita- og lághitasvæðin gætu legið á um 100 metra dýpi. Þó, eins og margoft hefur komið fram, hefur tækniþróunin orðið slík á undanförnum árum að erfitt er að skilgreina nákvæmlega hvar mörkin liggja. Í því skyni hefur skoðunum manna eins og Ólafs Jóhannessonar vera haldið fram, og það gerði hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hér við umræðuna. Þeir töldu að hægt væri að takmarka eignarréttindi að jarðhita með almennum hætti.

Í Tímariti lögfræðinga frá 1956 segir Ólafur Jóhannesson að hann telji að eins og lögum hátti verði réttur landeigenda ekki takmarkaður við tiltekið dýpi heldur verði að meta það í hverju falli ef á reynir með hliðsjón af réttmætri þörf landeiganda, almannahagsmuna og vandkvæðum þeim sem á því eru að skipta jarðhita, sem djúpt liggur, milli eigenda. Í greininni klykkir hann síðan út með því að setja megi rétti landeigenda til umráða og hagnýtingar ýmis takmörk með nýrri löggjöf. Í þessu frv. er einmitt verið að gera það. Skýrt er kveðið á um hvar eignarréttindin liggi en um leið eru settar mjög skýrar reglur um það hvernig hagnýta megi þessi réttindi í almannaþágu.

Í þessu sambandi skiptir máli að raunverulegir ráðstöfunarmöguleikar landeigenda hafa stóraukist á undanförnum árum. Þessi verðmæti eru þekktari nú en fyrir áratugum síðan. Nýting sem var fráleit fyrir nokkrum árum er möguleg í dag, m.a. vegna þess hve tækninni hefur fleygt fram. Þannig má segja að raunverulegur umráða- og hagnýtingarréttur landeigenda hafi aukist og færst niður á við ef við horfum á það út frá jarðhitanum. Ef tekið er mið af skoðunum Ólafs heitins Jóhannessonar um að meta verði rétt landeigenda í hverju tilfelli, þá er það í fullu gildi. Afleiðing þess er sú að erfiðara verður að taka þessi réttindi af bótalaust. Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar er hið sama en verðmætin sem í jarðhitanum felast hafa breyst. Ég tel ekki rétt að leggja Ólafi heitnum Jóhannessyni orð í munn en held að ólíklegt sé að hann mundi telja frv. hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og fleiri alþýðubandalagsmanna, standast stjórnarskrána í þessum efnum. Ég skildi hv. þm. Hjörleif Guttormsson þannig í andsvörum hans við mig, við upphaf þessarar umræðu, að hann væri að leggja út af því að Ólafur heitinn Jóhannesson hefði talið það frv. sem Alþb. hefur lagt hér fyrir standast stjórnarskrána. Á grundvelli þess sem ég hef sagt tel ég ólíklegt að svo hefði verið.

Eins er rétt að benda á og segja nokkur orð um það frv. sem hér liggur fyrir frá Alþfl. og Kvennalistanum. Ég tel að í því frv. felist alger rökleysa. Rökin fyrir þeirri fullyrðingu minni eru þessi: Því er haldið fram að landeigandi eigi ekki rétt til háhita og afmarka megi eignarrétt við lághita án bóta. Engu að síður er tekið fram í frv. að ef landeigandi hafi nýtt háhita fyrir gildistöku laganna, þ.e. ef frv. yrði að lögum, þá eigi landeigandi réttinn áfram. Í þessu felst auðvitað viðurkenning á því að menn hafa hingað til talið þessi verðmæti háð einkaeignarrétti landeigenda. Það má eiginlega segja það sama um frv. Alþb. í þessum efnum. Með öðrum orðum eru menn að viðurkenna að í dag gildi eignarrétturinn fyrir þá sem hafa nýtt auðlindir innan sinna eignarlanda til þessa dags en segja svo: Þetta gildir, en ef frv. verður að lögum ætlum við að taka þetta af þeim. Í þessu felst því alger rökleysa og frv. stenst ekki að þessu leyti.

Við upphaf umræðunnar efaðist hv. þm. Hjörleifur Guttormsson um fullyrðingar mínar um að réttarframkvæmd, lagaálit og einstakir úrskurðir, gætu staðfest, m.a. samninga sem gerðir hefðu verið um einkaeignarrétt á jarðhita. (HG: Ég var að tala um dóma.) Ég kem með tvö slík tilfelli á eftir, hv. þm.

Árið 1974 var leitað álits Lagastofnunar á því hvort frv. til breytinga á orkulögum bryti í bága við stjórnarskrána. Í því frv. var gert ráð fyrir því að ríkið ætti allan rétt til umráða yfir hagnýtingu jarðhita á háhitasvæðum. Þetta var árið 1974. Í álitsgerð eftir Jónatan Þórmundsson, en hans álits var óskað á þessu frv., kemur fram að þar sem ákvæði frv. áskilji ríkinu jarðhita undir yfirborði jarðar á háhitasvæðum, án tillits til þess hve djúpt hann liggur í jörðu, verði að ætla að frv. hafi það í för með sér að eigendur jarðhitaréttinda á þessum svæðum verði sviptir heimild sinni samkvæmt núgildandi lögum til að hagnýta jarðhita undir yfirborði jarðar með borunum. Eins og eignarskerðingum þessum sé háttað verði að líta svo á að skylt sé, skv. 67. gr. stjórnarskrárinnar, núna 72. gr., að láta eigarnámsbætur koma fyrir þær ef á annað borð sé um jarðhitaréttindi að ræða sem hafi fjárhagslegt verðmæti við gildistöku laganna. Þetta tel ég vera ótvírætt. Þetta tel ég að gildi einnig um 7. og 10. gr. í frv. Alþfl. og Kvennalistans sem hér liggur fyrir. Þar af leiðandi mundu þau frv. ekki standast stjórnarskrána.

Ég get nefnt annað dæmi. Í gerðardómsúrskurði í máli milli eigenda Járngerðarstaða og Hópstorfu og Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi sem kveðinn var upp 21. janúar 1976 segir m.a. að ekki séu í settum lögum reglur er takmarki jarðhitaréttindi landeigenda við ákveðna tegund jarðhita eða jarðhita að tilteknu dýpi. Með hliðsjón af því og hagnýtingu jarðhita hér á landi með borunum í skjóli eignarréttar á landi verði að telja ótvírætt að jarðhiti sá sem fjallað sé um í málinu sé eign landeigenda, Járngerðarstaða og Hópstorfu. Samkvæmt almennum reglum um ákvörðun eignarnámsbóta teljist réttindi til hagnýtingar landgæða verðmæti á fjárhagslegan mælikvarða enda þótt aðeins sé til að dreifa fáum aðilum eða jafnvel einum aðila er hafi áhuga og getu til að afla sér og nota þær hagnýtingarheimildir sem um sé að ræða. Á grundvelli þessa er komist að niðurstöðu um ákvörðun á fjárhæð endurgjalds um jarðhitaréttindi. Undir þennan úrskurð skrifar m.a. Gaukur Jörundsson fyrrv. lagaprófessor.

Í þriðja lagi. Í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta vegna Deildartunguhvers frá 1980 segir m.a., með leyfi forseta: ,,... að ekki sé neinum vafa bundið að jarðhitaréttindi séu samkvæmt núgildandi lögum verðmæt réttindi sem bæta beri rétthöfum við eignarnám.``

Það er rétt að það eru ekki margir hæstaréttardómar sem staðfesta eignarrétt að jarðhita. Hér skal nefndur hæstaréttardómur frá 1987, á bls. 1201, en þar deildu annars vegar kaupstaður nokkur og hins vegar jarðeigandi jarðarinnar Bjarkar um greiðslu fyrir nýtingu jarðhita og voru landeiganda dæmdar bætur og ótvírætt talið að um eignarrétt væri að ræða.

[12:00]

Einnig má nefna hæstaréttardóm frá 1973, á bls. 390, þar sem deilt var um hvort borunaraðgerðir hreppsnefndar Hrunamannahrepps á nærliggjandi jörð hefði valdið minnkandi vatnsrennsli úr Grafarhver. Sýknað var af bótakröfu þar sem tengslin voru talin ósönnuð. Þessir dómar slá því föstu, að mínu viti, að um eignarréttindi sé að ræða og þau sé ekki hægt að taka af nema bætur komi fyrir. Enn undirstrika ég að þar af leiðandi munu þau frv. Alþfl. og Alþb. sem fyrir liggja brjóta eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Ég ætla ekki að vitna í álitsgerð þeirra Markúsar Sigurbjörnssonar og Þorgeirs Örlygssonar, sem ég vitnaði áðan í efnislega og fyrr við umræðuna, en með hliðsjón af þessum dæmum verðum við að telja að auðlindir sem fjallað er um í frv., þar á meðal jarðhiti, séu verðmæti sem tilheyri landareign og verði ekki tekin af landeiganda nema með lögum. Landeigandinn á hins vegar ekki bótarétt ef þessi réttindi eru tekin af honum með lögum nema hann geti sýnt fram á verðmætin og þar með tjón við eignaskerðinguna og þar af leiðandi að hann sé að missa verðmæti og tapa tilteknum réttindum. Ég tel að þessi dæmi, herra forseti, sýni svo ekki verður um villst að sú leið sem farin er í stjfrv. sé sú eina færa til þess að tryggja að ekki sé gengið á lögvarin og stjórnarskrárvarin eignarréttindi skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar.