Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 12:12:58 (4081)

1998-02-19 12:12:58# 122. lþ. 72.4 fundur 359. mál: #A eignarhald og nýting á auðlindum í jörðu# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[12:12]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hafi örlítið misskilið mig þegar ég sagði í upphafi annarrar ræðu minnar að ég teldi að tiltölulega auðvelt væri fyrir einstaka flokka að ná samkomulagi innbyrðis eða innan flokka að ná samkomulagi um að leggja frv. um eignarhald og eignarrétt fyrir Alþingi. Það sagði ég vegna þess að ég tel að það eigi að vera tiltölulega gott samkomulag innan flokkanna um slík grundvallarréttindi í stjórnmálaflokkum. Það er það sem ég átti við. En mér þykir leitt að heyra ef það eru slík átök innan Alþfl. að það sé erfitt að koma slíkum frv. fram.

Ég ætla ekki að fara í samjöfnuð á gæðum þeirra afurða sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson var að bera saman, annars vegar hvernig stjfrv. lítur út og svo hins vegar það ágæta frv. sem Alþfl. og Kvennalistinn hafa lagt hér fyrir. En af því að hv. þm. gerði það að umtalsefni, bæði í fyrri ræðu sinni og nú síðar líka, að það vantaði mikilvæga hluti inn í skilgreiningar um leyfi og annað slíkt, verð ég að biðja hv. þm. að lesa frv. örlítið betur. Þar verð ég að biðja hv. þm. að lesa 4. gr. um rannsóknir og leit, hvað rannsóknarleyfi felur í sér í 5. gr., í 2. mgr. 6. gr. hvað nýtingarleyfi felur í sér samkvæmt lögunum. Svo verð ég að biðja hv. þm. að lesa allan VIII. kafla frv., þar sem í rannsóknum og nýtingarleyfum er m.a. krafist tiltekinna skilgreininga áður en þau eru gefin út. Ég sé ekki jafnnákvæmar kröfur gerðar um nýtingar- og rannsókarleyfi í því ágæta frv. sem Alþfl. og Kvennalistinn hafa lagt fyrir þingið. En ég ætla ekki að eiga orðastað við hv. þm. um samjöfnuð á gæðum þessara afurða.