Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 12:36:27 (4087)

1998-02-19 12:36:27# 122. lþ. 72.4 fundur 359. mál: #A eignarhald og nýting á auðlindum í jörðu# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[12:36]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er út af fyrir sig ánægður með að hæstv. ráðherra leggur áherslu á að þingmenn fari óbundið yfir málið og athugi það. Um leið tel ég það mjög miður að hæstv. ráðherra skuli af sinni hálfu hafa kveðið upp þann dóm að frv. Alþfl. og Alþb. um þessi efni gangi gegn stjórnarskránni. Ef ég man rétt eru ákvæði --- gott ef ekki í þingsköpum --- sem slá varnagla við því að slík frv. séu lögð fram. Ég spyr hæstv. ráðherra: Á hann von á því að hæstv. fyrrv. utanrrh. og formaður Framsfl., margnefndur Ólafur Jóhannesson, hefði heimilað flutning stjfrv. sem hann teldi að gengi gegn ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar? Hefði hann viljað eiga hlut að því máli, þar sem m.a. er byggt á skoðunum hans og í hann vitnað? Mér finnst það ekki ganga upp.

Ég vil einnig vara við því að menn dragi ályktanir og komist að niðurstöðu af tiltölulega takmörkuðu safni álitsgerða og afmörkuðum dómum. Hér er miklu stærra mál en svo að menn geti leyft sér að draga ályktanir öðruvísi en að fram fari mjög viðamikil skoðun máls út frá almennum forsendum og vitanlega því sem gerst hefur í fortíðinni.

Ég bendi á það að lokum, virðulegur forseti, að eðli margra þeirra auðlinda sem við erum að ræða, t.d. grunnvatns og jarðhita, er að þær takmarkast ekki við yfirborð þess lands sem einhver hefur slegið eign sinni á. Sambandið sem tengir landareignina, yfirborðið, við auðlindirnar er ekki staðbundið. Þær eru háðar nýtingu annarra í grenndinni sem þar eiga rétt. Þetta með öðru sýnir að það er ekki forsvaranlegt að líta á þetta mál út frá eignarrétti á yfirborði landsins.