Eignarhald á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 14:02:26 (4090)

1998-02-19 14:02:26# 122. lþ. 72.5 fundur 425. mál: #A eignarhald á auðlindum í jörðu# frv., ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[14:02]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir Alþingi frv. til laga um eignarhald á auðlindum í jörðu og gjald fyrir nýtingu þeirra. Vafalaust hefur mikil vinna verið lögð í þetta frv. en ef það væri samþykkt mundi Hæstiréttur Íslands í sumum tilfellum þurfa að taka afstöðu til þess hvort það stæðist stjórnarskrána. Þetta atriði, hvort Hæstiréttur Íslands á að dæma í einstökum efnum um eignarréttinn, vekur athygli mína. Ég held að undan því verði ekki vikist þar sem stjórnarskráin segir fyrir um það.

Stjórnarskráin hefur það alveg á hreinu með eignarréttinn, að fyrir hann verði að koma bætur og að sanna verði að almenningsþörf krefjist viðkomandi eignar.

Nú ætla ég að hv. þm. sé það fróður um Vestfirði að hann viti að í fjalli þar, Stálfjallinu, eru brúnkol. Segjum nú svo að eigandi Stálfjallsins kæmist að því að það væri búið að ganga frá því með þessum lögum að brúnkolin væru eign ríkisins. (SJS: Er það nú ekki eiginlega surtarbrandur?) Það þýðir ekki að móðga Vestfirðinga með svona orðalagi og ég vil minna á það að forseti sameinaðs þings á sínum tíma hefði tekið það mjög óstinnt upp ef slík vanþekking hefði komið frá jarðfræðingi.

Segjum að eigandi Stálfjallsins kæmist að þeirri niðurstöðu að sannanlega væri búið að taka af honum fjallið og krefðist eignarnámsbóta. Þá yrðu skipaðir matsmenn. Mundu þeir gera þá kröfu að eigandanum yrðu greiddar kolabirgðirnar á markaðsverði í einni útborgun? Ég væri ekki ánægður með að fá slíka kröfu á ríkið og þurfa að borga hana. Ég held að eigendurnir mættu eiga sitt Stálfjall í friði fyrir mér og ég sé heldur ekki að almannaheill krefðist þess að við leggðum undir okkur Stálfjallið. Allt þetta hefur flm. að sjálfsögðu skoðað mjög nákvæmlega.

Þetta leiðir þess vegna hugann að því að það sem menn greinir á um í þessum lögum og þeim hugmyndum sem fyrir liggja hjá hæstv. iðnrh. snýst fyrst og fremst um það að iðnrh. ætlar ekki í nein slagsmál. Hann ætlar sér ekki fyrir fram í deilur um eignarrétt á því sem vafi leiki á að verði ríkisins eða einstaklinga. Hann setur dæmið þannig upp að með eignarnámsheimildum og í gegnum skattkerfið hafi hann öll tök á að ná þeim arði sem hann þarf af viðkomandi eigendum. Þessi aðferð stenst í alla staði stjórnarskrána og mundi að sjálfsögðu færa almenningi fjármuni ef til nýtingar á náttúruauðlindum kæmi.

Ég hjó eftir því að í umræðum um frv. iðnrh. ræddi hv. þm. Sighvatur Björgvinsson um þá áhættu sem bændur tækju á sig ef þeir væru eigendur lands og þar kæmi upp eldgos. Þeim bæri trúlega að greiða bætur ef tjón yrði af eldgosinu. Vafalaust er það rétt að þetta gæti orðið spauglaust gaman ef því væri svo háttað. En má þá gagnálykta: Er þá hv. flm. að lýsa því yfir að verði eldgos, eftir að þetta væri allt eign ríkisins, þá beri ríkið ábyrgð og verði að borga hverjum þeim eintaklingi bætur sem fyrir tjóni yrði?

Nú er ekki deilt um loft himinsins yfir Íslandi, að það sé á umráðasvæði íslenska ríkisins og hafa menn þó ekki sótt þangað bætur fyrir stórviðri eða ofankomu. Þá verður að spyrja um hver eigi að bæta fyrir snjóflóð sem fellur úr fjallshlíð, á sem flæðir yfir bakka sína. Verður hægt að sækja eiganda miðhálendisins til saka fyrir að of mikið komi í ána? Ég veit ekki hvort röksemdafærsla eins og sú sem hv. þm. setti fram þegar hann var að ræða um eldgosin, geti verið annað en lélegur brandari, illa grundaður. Ég held að það sé ekki rétt að flytja þessa umræðu yfir í jafnóljósrar hugmyndir um ábyrgð vegna náttúruhamfara.

Eitt atriði í íslenskum lögum tel ég þó að orki mjög tvímælis þegar kemur að því hvort eignarnámsbætur séu eðlilegar eða ofgreiddar. Við vitum öll um dæmi þess að land hafi hækkað í verði, ekki vegna þess að þar hafi fundist einhverjar auðlindir, ekki vegna þess að landeigandinn hafi gert eitthvað fyrir landið, heldur hafi verið fjárfest umhverfis landið í stórum stíl. Þannig hefur landið orðið verðmætt undir byggingarlóðir. Menn hafa deilt um það hvort þetta sé sanngjarnt, að eigandinn geti grætt jafn ótæpilega og hann gæti gert. Skoðanir um það hvernig taka beri á þessu hafa verið skiptar. Sumir hafa litið svo á að einfaldasta leiðin til að rétta hlut almennings í þessum efnum væri að beita skattakerfinu til að ná til baka verulegum hluta af þvílíkum gróða landeigandans.

Ég tel að ef skattkerfið væri notað þá lægi ljóst fyrir að framkvæmdin væri í samræmi við stjórnarskrá. Ég hef út af fyrir sig sætt mig við þá leið. Ég hef aftur á móti hvergi fundið þess stað að eðlilegt geti verið að meta land eftir því hvar það er á landinu og hef talið vafa leika á því hvort þeir sem í þessar matsnefndir hafi valist hafi að öllu leyti haft raunverulegan vilja Hæstaréttar á bak við sig til að meta hvernig á málunum skuli taka.

Undir þessum kringumstæðum tel ég þó að um verulegar ofgreiðslur hafi verið að ræða og líta verði svo á að með skattaaðgerðum sé eðlilegt að taka eitthvað af því fé til baka.

Þó sum ákvæði þessara laga séu góð og hugsunin á bak við þau að tryggja ríkinu kaup á jarðhita, þá mundi t.d. 17. gr. laganna mjög flækja öll viðskipti með landareignir á Íslandi. Þar eru sett inn mikil forkaupsréttarákvæði og, með leyfi forseta, þá hljóðar þessi grein svo:

,,Landeigandi má ekki undanskilja landareign sinni jarðhitaréttindi, nema með sérstöku leyfi ráðherra. Um sölu ríkisjarða eða jarða í eigu opinberra stofnana eða sjóða gilda þó ákvæði jarðalaga.`` Þarna ætla menn ríki og opinberum aðilum annan rétt en eigendum lands. Ég er ekki viss um að það sé yfir höfuð skynsamlegt að setja það þannig upp. Síðan heldur hér áfram, með leyfi forseta:

,,Um sölu jarða er jarðhitaréttindi fylgja fer eftir ákvæðum jarðalaga, þó þannig að ríkissjóður skal hafa forkaupsrétt að þeim aðilum frágengnum sem hann er veittur með þeim lögum. Nú hefur sveitarfélag notað forkaupsrétt sinn til slíkra jarðeigna, en selur aftur og skal þá ríkissjóður eiga forkaupsrétt er svo stendur á.``

Þannig væri hægt að taka heilu sýslurnar og segja: Þarna eru jarðhitaréttindi. Það gæti komið í ljós, á jörð sem maður hefði keypt og talið kalda en síðan borað eftir heitu vatni á viðkomandi stað, að þá stæðu menn frammi fyrir því að kaupin væru ólögleg. Þau hefðu einfaldlega átt sér stað án þess að menn áttuðu sig á því að þar væri jarðhiti. Ríkið hefði þar með rétt á þessu landi. Ríkið hefði þá, samkvæmt þeim réttarreglum sem giltu, rétt á því að leysa landið til sín á sama verði og viðkomandi aðili keypti landið á áður.

[14:15]

Engin ákvæði eru um að þá bæri að bæta þeim aðila sem þannig yrði ástatt um kostnaðinn við jarðborun eða eitthvað slíkt. Það kæmi hvergi fram. Og ef menn halda að hér sé verið að tala um einhverja litla hluti, er rétt að hugleiða að það svæði landsins sem einu sinni var talið kalt er stöðugt að minnka. Það svæði á Íslandi sem menn hafa fundið heitt vatn á hefur stöðugt verið að stækka. Hægt er að vísa til árangurs sem náðst hefur á Snæfellsnesi, á Suðurlandi og í Skaftafellssýslum þannig að þetta um hvar jarðhiti er og það að binda forkaupsrétt eins og hér er verið að tala um, er ákvæði sem mundi leiða til mikilla vandkvæða að mínu viti í framkvæmd á sölu á jörðum í landinu og skapa mikla réttaróvissu.

Ég ætla ekki að fara í neinar stórar umræður um það hvernig þessi lög að öðru leyti eru. Ég sé að þau eru sett upp með þá hugsun að það sem kóngurinn norski taldi sína eign eigi að vera eign ríkisins á Íslandi á þeirri forsendu að ef hér hefði verið kóngur hefði hann hugsað á svipaðan veg og í Noregi og framkvæmt það að eignast hér allt sem ekki væri almennings. Það skyldi konungsins eign. (SJS: Það er allt skylt þetta kóngafólk í Evrópu.) Allt kóngafólkið í Evrópu er skylt er upplýst utan úr sal og talar þar maður sem vafalaust hefur mikla þekkingu á því þó að hann hafi ekki lagt það beinlínis fyrir sig í háskóla að safna upplýsingum um slíka hluti.

Mér finnst að við megum njóta þess stundum, þessi þjóð, að hafa ekki konung. Það var mikil guðs blessun að við þurftum ekki ávallt að sitja uppi með það að hafa konung. Það voru mjög daprir dagar þegar íslenska þjóðin þurfti að búa við það að hafa konunga yfir landinu. Þessi söknuður sem kemur fram ... (SighB: Er þingmaðurinn ekki sáttur við Jörund?) Hv. 1. flm. rifjar upp minningar um að ágreiningur var meðal alþýðuflokksmanna á sínum tíma um það hvort við skyldum afsala okkur konungnum eða ekki. En það er söguleg staðreynd að þeir urðu undir í því máli og kóngurinn var látinn fjúka. Mér finnst þess vegna óeðlilegt að reynt sé að lauma konungsvaldinu inn bakdyramegin eins og hér er verið að gera. Ég veit ekki hvort nokkur maður hugleiddi það, þegar sú atkvæðagreiðsla fór fram, hversu mikil hugsun var á bak við þetta hjá þingmönnum Alþfl. Þeir hafa auðvitað séð þetta allt fyrir, að hér væri almannaheill í stórkostlegri hættu.

Það eru tvær leiðir til að tryggja það að hægt sé að nýta hverja þá auðlind sem finnast mun í jörðu á Íslandi á eðlilegan hátt. Annars vegar eru þær hugmyndir sem iðnrh. hefur sett fram og byggjast á rétti til að nýta þetta og fara samningaleið ef hún er fær. Annars verður að beita eignarnámslögum og nota svo skattkerfið til að hirða af mönnum ef um óhóflegan gróða einstaklinga verður að ræða. Hins vegar væri það af hinu góða að menn teldu að veruleg von væri á fjármagni með því að leita eftir ýmsum efnum í iðrum jarðar. Og kannski hefðum við þurft að eiga menn sem hefðu lagt á sig að reyna að afla sér sem mestra upplýsinga um það hvort von væri á einhverjum möguleikum í þessum efnum.

Ég verð að segja eins og er að mér finnst það t.d. alveg forkostulegt að Íslendingar skuli ekki hafa sett fjármagn í að kanna möguleika á að finna olíu norðaustur af landinu og í Þingeyjarsýslum á því svæði þar sem margt bendir til að jarðgas sé í jörðu. Mér finnst það forkostulegt. Og mér finnst ákaflega undarlegt að það skuli hafa verið liðið að hætt hafi verið við þær tilraunaborholur sem átti að bora. Það er eins og menn slái því fyrir fram föstu að þarna sé ekkert að hafa.

Þessi lög bera það þó með sér að menn trúa því að eitthvað verðmætt sé í iðrum jarðar og það jákvæða við lögin er að þingflokkur jafnaðarmanna hefur þó á því fulla trú að það sé þess virði að rannsaka hvað sé í iðrum jarðar og undir það vil ég taka. Ég tel að mikil nauðsyn sé að fara í slíkar rannsóknir. En að mínu viti er það ódýrari leið að rannsaka hvað sé til í Stálfjallinu og hvað hægt sé að gera við kolin en að samþykkja lög sem hægt væri að túlka á þann veg að landeigandi gæti gert kröfu um og honum yrði borgað út eitt stykki Stálfjall úr ríkissjóði sem búinn væri að hirða það af honum með eignarnámi. Ég er ekki viss um að íslenska ríkið sé reiðubúið að greiða eignarnámsbætur fyrir allt sem hér hefur verið sett fram ef á þann veg féllu dómar.