Eignarhald á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 14:41:55 (4094)

1998-02-19 14:41:55# 122. lþ. 72.5 fundur 425. mál: #A eignarhald á auðlindum í jörðu# frv., ÓÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[14:41]

Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég rakti áðan hvers vegna ég teldi það hæpið að setja inn þessi ákvæði 17. gr. vegna þess að þá yrði að mínu viti hver einasti aðili sem keypti jörð á Íslandi ávallt að kanna hvort ríkið vildi kaupa og hvort ríkið vildi ganga inn í. Búið er að setja nóg af forkaupsréttarákvæðum inn um jarðakaup þó ekki sé verið að tefja það svo að það yrði enn flóknara en það er.

Um kröfuréttinn til bóta er það svo að þegar upp er staðið fer slíkur réttur hvorki eftir því sem samþykkt verður sem ríkisstjórnarfrv. eða sem frv. einstakra flutningsmanna. Slíkur réttur fer aðeins eftir einu og það er stjórnarskránni. Þetta hefði hv. þm. mátt vita þar sem hann hefur unnið eið að stjórnarskránni. Það er eitt að samþykkja lög um það á Alþingi hvernig þetta verður og annað að telja að þau lög séu ríkari ákvæðum stjórnarskrárinnar. Því blasir það við sem staðreynd að þau ákvæði munu blífa hvernig sem allt fer.

Báðum þessum frv. er hægt að breyta. Séu þau samþykkt sem lög er hægt að breyta þeim seinna. Það liggur alveg ljóst fyrir þannig að eignarréttarákvæðin fara eftir því hvernig Hæstiréttur túlkar ákveðna grein stjórnarskrárinnar. Þetta veit hv. þm. mætavel en til að reyna að láta svo líta út sem hann sé að gæta almannahagsmuna sem aðrir vilja ekki gæta finnst honum rétt að setja dæmin alltaf þannig upp að hann vilji með lögum ná því í gegn að hér sé skráð eitthvað sem stenst e.t.v. ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Ég sé ekki að þetta leiði til annars en þess eins og ég sagði hér áðan að menn gætu farið fram á að fá greitt eitt stykki Stálfjall í eingreiðslu.