Eignarhald á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 14:44:18 (4095)

1998-02-19 14:44:18# 122. lþ. 72.5 fundur 425. mál: #A eignarhald á auðlindum í jörðu# frv., Flm. SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[14:44]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég reyni að gera tilraun í þriðja skipti. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson ætti að lesa frv. iðnrh. því að þær athugasemdir sem hann gerði við 17. gr. í frv. okkar jafnaðarmanna eiga líka við frv. iðnrh. því að það er orðrétt þar. Nákvæmlega eins.

Í öðru lagi er alveg ljóst að ef samþykkt eru lög á Alþingi um að einkaeignarréttur að auðlindum í jörðu skuli vera algerlega óskoraður er verið að gefa möguleika á því að verði slíkar auðlindir teknar eignarnámi geti sá sem á auðlindina ekki bara krafist bóta fyrir spjöll á jarðnæði og öðru slíku heldur líka annaðhvort krafist að sér verði greidd út verðmæti þeirrar auðlindar sem tekin er eða öðlist hlutdeild í hagnaði. Þetta er eins ljóst og skýrt og það getur verið. Í frv. hæstv. iðnrh. er gengið frá þessu þannig að slík krafa getur risið og mér finnst eins og hv. þm. óeðlilegt að hún geti risið. En í frv. okkar jafnaðarmanna og kvennalistakvenna er gengið út frá því að slík krafa geti ekki risið. Það er munurinn, virðulegi forseti.

[14:45]

Ég er ekkert að draga fjöður yfir það að umdeilt er hvort hægt sé að takmarka eignarréttinn með lögum. Ólafur Jóhannesson taldi það vera hægt. Ég tel það vera hægt þó ekki séu allir á sömu skoðun.