Eignarhald á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 15:14:14 (4106)

1998-02-19 15:14:14# 122. lþ. 72.5 fundur 425. mál: #A eignarhald á auðlindum í jörðu# frv., Flm. SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[15:14]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég gat um í framsögu minni reynum við að leysa þessi mál með tvennum hætti. Í fyrsta lagi að þegar um er að ræða gjaldtöku vegna tiltölulega verðlítilla nytja séu ákvæði um það í lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Í öðru lagi þegar um er að ræða verðmeiri nytjar sé það forsenda að viðkomandi nytjar séu boðnar út samkvæmt lögum um opinber útboð. Við erum því að reyna að festa framkvæmdina nákvæmlega eins vel og við getum.

Hvað varðar tekjuskattinn var þetta stefnumál Trygve Brattelis á meðan hann var formaður Verkamannaflokksins. Og ástæðan fyrir því að hann taldi að draga ætti úr áhrifum tekjuskatts var m.a. sú að hann hélt því fram að tekjuskatturinn væri ekki lengur tekjujöfnunartæki. Tekjuskatturinn væri bara skattheimta á launamanninn sem skilaði ekki lengur því tekjujöfnunarhlutverki sem vinstri menn og félagshyggjumenn höfðu vonast til að þetta skattform mundi gera. Þess vegna lagði hann til að dregið yrði mjög úr þessari tekjuskattheimtu. Þess vegna lögðum við alþýðuflokksmenn það sama til á meðan það var hægt með því að hækka virðisaukaskatt eða söluskatt í staðinn. Nú er virðisaukaskattur eða söluskattur orðinn svo hár að það er ekki hægt að fara miklu lengra þar. Þá vendum við kvæði okkar í kross eins og verið er að gera núna í umræðum í Bandaríkjunum í umræðunum um ,,The fair tax`` sem þar fer fram, og segjum: Við skulum þá leita að nýjum tekjuöflunarleiðum sem virka ekki truflandi á framleiðsluþættina eins og tekjuskattskerfið gerir og bendum þar sérstaklega á auðlindagjöld og mengunarskatta sem geta smátt og smátt leyst af hólmi jafnóréttlátt og ósanngjarnt tekjuöflunarkerfi og tekjuskattskerfið er.