Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 15:35:51 (4109)

1998-02-19 15:35:51# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., Flm. MF
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[15:35]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 798 um skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald sem ég flyt ásamt öðrum þingmönnum Alþb. og óháðra.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að Alþingi kjósi níu manna nefnd sem hafi það hlutverk að fjalla um auðlindir sem eru eða kunna að verða þjóðareign, m.a. öll verðmæti í sjó og á hafsbotni innan efnahagslögsögu, svo og í almenningum, afréttum og öðrum óbyggðum löndum utan heimalanda, námur í jörð, orku í rennandi vatni og jarðhita neðan við 100 m dýpi. Nefndin skilgreini þessar auðlindir á skýran hátt og móti tillögur um það hvernig skuli með þær farið. Nefndin kanni einnig hvernig staðið skuli að gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum í sameign þjóðarinnar, með hliðsjón af þeim gjöldum sem fyrir eru og með það að leiðarljósi að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skili sér á réttmætan hátt til þeirra sem hagsmuna hafa að gæta.

Um verði að ræða hóflegt gjald sem varið verði til að standa undir rannsóknum og til að stuðla að vernd og sjálfbærri nýtingu auðlindanna og réttlátri skiptingu þess afraksturs sem af nýtingu þeirra leiðir.

Tillaga sú sem hér er flutt er í samræmi við niðurstöðu miðstjórnar Alþb. sem fjallaði á fundi sínum 6. febrúar sl. um auðlindir í sameign þjóðarinnar og auðlindagjald.

Í rúma tvo áratugi hafa þingmenn Alþb. flutt stjórnarskrárfrumvörp á Alþingi um auðlindir í sameign þjóðarinnar. Fyrir þinginu liggja nú frumvörp um sama efni, þ.e. frumvarp um breytingar á stjórnarskránni og frumvörp um eignarrétt fallvatna og jarðhita, auk þingsályktunartillögu um miðhálendið, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Það er fyrir löngu tímabært að skilgreina skýrt hvaða auðlindir eru í sameign þjóðarinnar og hverjar ekki og eyða með því þeirri óvissu sem ríkt hefur og endurspeglast m.a. í þeim þingmálum sem flutt hafa verið um þetta efni. Nauðsynlegt er að víðtæk samstaða takist um þessi mál og er þessi tillaga flutt til að reyna að skapa slíka samstöðu.

Í þessari tillögu til þingsályktunar er jafnframt lagt til að nefndin kanni hvernig staðið skuli að gjaldtöku fyrir afnot auðlindanna, með hliðsjón af þeim gjöldum sem fyrir eru og í því skyni að standa straum af hluta kostnaðarins sem þjóðin ber beint eða óbeint af varðveislu sameiginlegra auðlinda og að nefndin kanni möguleika á að nota auðlindagjald til að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skili sér til þjóðarinnar og stuðli að réttlátri skiptingu afrakstursins.

Ljóst er að ef takast á að vernda auðlindir sem eru sameign þjóðarinnar og tryggja sjálfbæra nýtingu þeirra verður að leggja áherslu á rannsóknir á þessum auðlindum sem gera okkur kleift að meta á áreiðanlegan hátt ástand þeirra, verndargildi og nýtingarþol. Slíkar rannsóknir ná ekki aðeins til auðlindanna sjálfra heldur getur einnig verið nauðsynlegt að ráðast í víðtækari rannsóknir til að ná settu marki. Ég tek sem dæmi að erfitt getur verið að meta verndargildi gjallgígs eða hraunbreiðu sem áhugi er á að nýta sem efnisnámu án þess að hafa sýn á landið allt og vita hvort um er að ræða sjaldgæft náttúrufyrirbæri sem þörf gæti verið á að vernda, eða hvort æskilegra er að nýta frekar aðrar námur í hennar stað.

Auk rannsókna þarf að leggja áherslu á skipulega vöktun auðlindanna til að koma í veg fyrir að þeim sé spillt. Kostnaði við hana ætti að dreifa á sanngjarnan hátt þannig að þeir borgi hlutfallslega meira sem nýta auðlindirnar.

Í flestum öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, sem eru með svipaða löggjöf og Ísland, er mestallt land skipulagt og góð grunngögn um náttúrufar og náttúrauðlindir aðgengileg. Í þessum ríkjum er búið að skrásetja jarðmyndanir, plöntur og dýr og mikilvægustu búsvæði þeirra, hvað þarf að vernda og hvaða búsvæði og vistkerfi þarf að friða. Sama gildir um jarðmyndanir, jarðhitasvæði, ár og vötn, landslag og þjóðminjar. Aðstaða til að meta áhrif framkvæmda á umhverfið er því önnur í þessum löndum en á Íslandi. Íslendingar eru skemmra á veg komnir en hinar Evrópuþjóðirnar þar sem ekki hefur verið lokið við að skrá og greina náttúru landsins skipulega, hvorki á láði né legi, kanna ástand hennar rækilega eða meta þær ógnir sem að henni steðja. Mikið starf hefur vissulega verið unnið, þótt enn sé langt í land. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, gerð skipulagsáætlana, framkvæmd náttúruverndarmála, ákvarðanir um virkjunarframkvæmdir, stóriðju eða vegagerð og önnur verksvið sem lúta að landnotkun líða fyrir þessa stöðu mála. Sama er t.d. að segja um möguleikana á að meta áhrif veiðarfæra á sjávarbotn og önnur áhrif af nýtingu nytjastofna á lífríki sjávar og á botn hans.

Ekki er ágreiningur um að nauðsynlegt er að efla rannsóknir á lífríki sjávar til að styrkja möguleika okkar á að nýta það af skynsemi og tryggja eðilegan afrakstur af nytjastofnunum. Til þessara starfa hafa farið verulegir fjármunir og hefur þó hvergi dugað til og þarf að leggja fram mun meira fjármagn ef vel á að vera. Því þarf að kanna hvort úr þessum vanda megi leysa að einhverju leyti með því að verja hluta af gjaldi sem lagt er á auðlindanotkun til rannsókna og vöktunar. Jafnframt hvort ekki sé eðlilegt að þeir sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar borgi hluta af kostnaði við slíkar rannsóknir þar sem þörf fyrir þær stafar ekki síst af athöfnum þeirra sjálfra. Gjaldið þarf að vera gagnsætt og samræmt. Það á að vera alveg skýrt hvernig á að nota það fjármagn sem innheimt er með gjaldinu.

Eðlilegt þykir nú að leggja á svokölluð umhverfisgjöld í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Umhverfisgjöldin byggjast á því að sá sem mengar beri kostnað af athöfnum sínum. Jafneðlilegt ætti að vera að þeir sem afnot hafa af sameiginlegum auðlindum greiði hluta af kostnaðinum sem þjóðin ber sannanlega vegna athafna þeirra. Slík gjaldtaka á sér nú þegar stað en nær aðeins til lítils hluta þeirra sameiginlegu gæða sem felast í íslenskri náttúru. Allir sem heimild hafa til að veiða villta fugla og villt spendýr landsins þurfa t.d. samkvæmt lögum nr. 64/1994 að greiða gjald sem varið er til rannsókna á veiðidýrum, eftirlits með veiðunum og stýringar á stofnum sem veiði er heimiluð á.

Kísiliðjan við Mývatn greiðir nú gjald sem miðast við hráefnisnotkun fyrirtækisins og er að hluta varið til rannsókna og vöktunar á auðlindinni sem verksmiðjan nýtir. Sjávarútvegsfyrirtæki greiða gjöld sem varið er að einhverju leyti til eftirlits með veiðum og til rannsókna á nytjastofnum og veiðiþoli þeirra. Tilviljanir eða geðþóttaákvarðanir eiga ekki að ráða hverjir beri slík gjöld eða hvernig farið er með fjármagnið sem er innheimt.

Auðlindagjald þarf að vera samræmt og ná til allra sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar. Jafnframt þarf að skilgreina gjaldtökuna þannig að tilgangur hennar sé skýr og alveg ljóst hvernig verja beri því fjármagni sem er innheimt.

Samræmt gjald á auðlindir í þjóðareign yrði hluti af rekstrargjöldum þeirra sem nýta auðlindirnar. Hér er því ekki um skattlagningu að ræða. Sjávarútvegsfyrirtæki greiða til að mynda ýmis gjöld, t.d. í Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Þau gjöld mundu falla undir auðlindagjaldið.

Í tillögunni sem ég mæli hér fyrir er lagt til að nefnd verði skipuð sem fái það hlutverk að skoða þessi mál og setja fram tillögur til úrbóta. Ég legg áherslu á að fulltrúar allra þingflokka komi að störfum nefndarinnar og að henni verði sett ákveðin tímamörk í störfum sínum. Hún ljúki störfum eigi síðar en um næstu áramót.

Krafan um að leyst verði úr þeirri óvissu sem nú ríkir um auðlindir í sameign þjóðarinnar og um greiðslu gjalda fyrir nýtingu þeirra er mjög mikil og endurspeglast m.a. í þeirri háværu umræðu sem fram hefur farið um þessi mál undanfarin ár og í fjölda þeirra tillagna sem lagðar hafa verið fyrir Alþingi.

Hér er lagt til að reynt verði að leysa úr þessum hnút með því að skipa nefnd sem leggi grunn að víðtækri samstöðu um auðlindirnar, meðferð þeirra og greiðslur fyrir afnotarétt. Nauðsynlegt er að nefndin vinni hratt og skili niðurstöðum fyrir árslok svo möguleikar gefist til að ljúka nauðsynlegri löggjafarvinnu á næsta þingi.

Í þessari þáltill. okkar er m.a. lagt til að nefndin kanni möguleika á að nota auðlindagjald til að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skili sér til þeirra sem hafa hagsmuna að gæta. Um gæti verið að ræða byggðarlög sem orðið hafa fyrir beinum skakkaföllum vegna ákvarðana sem teknar hafa verið um nýtingu sameiginlegrar auðlindar, hvort sem um er að ræða fisk í sjó, orku í rennandi vatni eða í jörðu eða jarðefnanámu.

Óþarft er að rekja dæmi um byggðarlög sem hafa orðið illa fyrir barðinu t.d. á kvótakerfi. Ætti ekki að nýta hluta af afrakstrinum af nýtingu fiskstofna til að bæta þeim skaðann að einhverju leyti? Skaða sem þau bera sannanlega vegna ákvarðana sem teknar hafa verið af stjórnvöldum og vegna auðlindanýtingar.

Einnig mætti líta til réttlætismála eins og að jafna orkuverð. Er ekki eðlilegt að fyrirtæki eins og Landsvirkjun sem fær að vissu leyti einkarétt á að framleiða orku úr sameiginlegri auðlind standi að hluta straum af kostnaði við dreifikerfi fyrir raforku um landið og stuðli þannig að jöfnun orkuverðs? Nefndin ætti jafnframt að kanna sérstaklega hvort nota megi auðlindagjald að hluta til þess að tryggja þjóðinni eðlilegan lágmarksafrakstur af sameiginlegum auðlindum. Sérstaklega þarf nefndin að kanna meðferð takmarkaðra auðlinda sem gengið er á með nýtingu þeirra. Til dæmis þyrfti að skoða hvort þeir sem fá heimild til að nýta efnisnámu í eigu ríkisins ættu ekki að greiða tiltekna upphæð fyrir hvert tonn af efni sem tekið er úr námunni, fyrir utan hið eiginlega umhverfisgjald. Slíkt gjald tryggði þjóðinni fastan afrakstur af námunni án tillits til þess hvernig viðkomandi fyrirtæki er rekið, enda væri sannanlega verið að ganga á námuna og draga úr verðmæti hennar í framtíðinni.

[15:45]

Virðulegi forseti. Það er ljóst að ágreiningur hefur ríkt um þessi mál, bæði innan stjórnmálaflokka og á milli þeirra sem og almennt í þjóðfélaginu. Þessi ágreiningur kemur eins og áður sagði m.a. fram í þeim málum sem lögð hafa verið fyrir hv. Alþingi og í málflutningi hv. þm. Engu að síður virðist vera samstaða um að til séu auðlindir sem eru eða ættu að vera í þjóðareign. Hins vegar hefur skort á að skýra skilgreiningu á hvaða auðlindir þetta eru og hvernig skuli með þær farið.

Í þeirri tillögu sem hér er mælt fyrir er gert ráð fyrir að slík grunnvinna fari fram á næstu mánuðum. Ég tel slíka grunnvinnu algera forsendu þess að hægt sé að setja lög um nýtingu auðlindanna sem sátt er um og hvernig tryggja megi að þjóðin öll njóti afraksturs af þeirri nýtingu. Mér virðist sem almenn samstaða hafi einnig verið að myndast um að leggja beri gjald á nýtingu auðlinda í sameign þjóðarinnar og tel mig hafa fært rök fyrir því hvers vegna það skuli gert og þeirri niðurstöðu sem Alþb. komst að á miðstjórnarfundi. Ég legg áherslu á þann grundvallarmun sem er á gjaldtöku annars vegar og skattlagningu hins vegar. Gjald er eðli málsins samkvæmt hluti af rekstrarkostnaði fyrirtækja sem dregst frá tekjum áður en til skattlagningar kemur. Því er ekki um að ræða að skattar verði hækkaðir á þau fyrirtæki sem nýta auðlindir í sameign þjóðarinnar umfram aðra með auðlindagjaldi. Hins vegar er eðlilegt að gera þá kröfu að þeir sem nýta auðlindirnar greiði þann beina og óbeina kostnað sem þjóðin öll eða einstakir aðilar bera vegna aðgerða þeirra.

Við þurfum einnig að hafa í huga að við höfum opnað landið fyrir útlendum aðilum með samningum og það er líklegt að þeir muni í vaxandi mæli sækjast eftir að nýta og jafnvel eignast auðlindir okkar eins og nýleg dæmi sýna. Það verður því að vera alveg skýrt hvaða auðlindir teljast sameign þjóðarinnar, hvernig við viljum fara með þær og hvernig afraksturinn af þeim getur nýst þjóðinni allri.

Menn hafa rætt þá tillögu sem hér er lögð fram í sömu andrá og hugmyndir um veiðileyfagjald. Ef sú leið sem við leggjum til nær fram að ganga og samræmt auðlindagjald verður lagt á nýtingu allra auðlinda í sameign þjóðarinnar geta menn, ef þeir vilja, kallað þann hluta gjaldsins sem lagður yrði á sjávarútveginn veiðileyfagjald, þann hluta sem lagður yrði á orkunýtingu orkugjald og þann hluta sem lagður yrði á námur námugjald. Í mínum huga skiptir ekki meginmáli hvað menn kalla gjaldið. Kjarninn er að tryggja verndun og viðhald auðlinda í sameign þjóðarinnar og að þjóðinni sé tryggður ákveðinn hluti afrakstursins af nýtingu þeirra. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir þjóðina alla, bæði núlifandi kynslóðir og þær sem á eftir okkur koma. Það er því afar brýnt að um þessi mál eigi sér stað málefnaleg umræða og að um þau náist almenn samstaða á Alþingi og meðal þjóðarinnar allrar.

Ég legg til, virðulegi forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og til hv. umhvn.