Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 15:51:57 (4112)

1998-02-19 15:51:57# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[15:51]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því og endurtek það sem ég sagði í fyrra andsvari mínu að hér er lagt til að mynda þverpólitíska samstöðu á Alþingi með stjórnarflokkunum einnig um þetta mál. Það finnast mér tíðindi. Það er upplýst að Alþb. er enn þá sjálfstæður flokkur sem heldur sína miðstjórnarfundi og leggur fram sjálfstæðar tillögur og það er vel. Það er sjálfsagt að ræða þessi mál til hlítar á hv. Alþingi en ég vek athygli á að það hafa nokkur tíðindi gerst í umræðum hér í dag. Formaður Alþfl. var að enda við að tala um að það þyrfti að leggja niður tekjuskattinn og ná því inn af auðlindum landsmanna en hér hefur formaður Alþb. tví- eða þrítekið fram að hér sé ekki um skattlagningu að ræða heldur gjaldtöku sem eigi að standa undir rannsóknum m.a. Þetta er algjört grundvallaratriði og þetta er einmitt það sem hefur gengið eins og rauður þráður í gegnum þessa skattaumræðu og auðlindagjaldsumræðu. En umræðan hefur verið út og suður og nauðsynlegt að þessi nefnd skýri þau hugtök sem hér hafa verið á ferðinni.