Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 16:27:00 (4124)

1998-02-19 16:27:00# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[16:27]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Þáltill. sem er til umræðu hefur hlotið nokkra athygli fjölmiðla og stjórnmálaflokka og það ekki að ósekju því hér er í fyrsta skipti á flokkslegum vettvangi komist að samkomulagi um hvernig skuli fara með mál af þessu tagi sem hefur verið mjög fyrirferðarmikið í pólitískri umræðu innan allra stjórnmálaflokka.

Ég vil fyrst benda á að efnisatriði þessarar þáltill. eru í fullu samræmi við frv. þau sem þingmenn flokksins hafa flutt á þessum vetri. Þar vísa ég annars vegar til frv. til stjórnarskipunarlaga sem flutt er af sjö þingmönnum Alþb. og hins vegar frv. til laga um afnám laga um stjórn fiskveiða sem flutt er af þremur þingmönnum þeirra. Á þeim tveimur frv. eru allir þingmenn þingflokksins flutningsmenn á öðru eða báðum.

Í öðru frv. er kveðið á um að heimilt verði að ákveða að nýtendur auðlinda í sameign þjóðarinnar greiði hóflegt gjald er standi undir kostnaði við rannsóknir og stuðli að verndun auðlindanna og sjálfbærri nýtingu þeirra samkvæmt nánari ákvæðum í lögum. Þarna er stefnumörkun ákaflega skýr. Heimilt er, en ekki skylt, að ákveða gjald sem er hóflegt og afmarkað. Fyrir liggur að allir þingmenn þingflokksins styðja þetta mál þó að reynt hafi verið að halda öðru fram.

Í hinu frv. sem er um afnám laga um stjórn fiskveiða er fjallað um útlínur þess stjórnkerfis sem við alþýðubandalagsmenn drögum upp í nýju stjórnkerfi á þessum vettvangi. Þar er vikið að því efnisatriði í greinargerðinni. Þar segir, með leyfi forseta, en flutningsmenn eru auk mín hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og Svavar Gestsson:

,,Flutningsmenn gera ráð fyrir að atvinnugreinin greiði kostnað við eftirlit og hagræðingu og hluta af kostnaði við rannsóknir en að öðru leyti gildi almenn skattalög.``

[16:30]

Þarna liggur fyrir í tveimur þingskjölum, frumvörpum fluttum af öllum þingmönnum flokksins, ákaflega skýr stefnumörkun í þessu efni og ekki nokkur leið að draga í efa hver meiningin er. Kjarninn er hófleg gjöld til ákveðinna hluta en að öðru leyti almenn skattalög. Um þetta verður ekki villst.

Till. til þál. er í fullu samræmi við þessa afstöðu enda segir í henni um hlutverk nefndarinnar að nefndin kanni einnig hvernig staðið skuli að gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum í sameign þjóðarinnar, með hliðsjón af þeim gjöldum sem fyrir eru. Þarna segir í raun og veru það sama og komið hefur fram fyrr á þessum þingvetri frá þingmönnum flokksins um mögulega gjaldtöku í ákveðna hluti.

Ég vek athygli á því að í þessum texta eða texta í öðrum frumvörpum frá okkur er hvergi notað orðið ,,auðlindagjald`` þar sem lýst er afstöðu flokksins heldur segir þvert á móti í þáltill.: gjaldtaka fyrir afnot af auðlindum með hliðsjón af þeim gjöldum sem fyrir eru. Það er verið að vísa til þess veruleika sem við búum við í dag. Hugmyndin er auðvitað sú að menn ætli að hafa hlutina svipaða og þeir eru og hafa verið á undanförnum árum. Telji menn þetta ávísun á nýja gjaldtöku í stórum mæli eða risastökk í skattlagningu á atvinnugreinina með tilheyrandi íþyngjandi afleiðingum í garð sjómanna og landverkafólks, þá spyr ég þá hina sömu: Eru menn á þeirri skoðun að Sjálfstfl. hafi á undanförnum sex árum sem hann hefur farið með ráðuneyti sjávarútvegsmála staðið að því að skattleggja atvinnugreinina og lækka laun sjómanna? En það sem hefur gerst á þessu árabili er að tekin hafa verið upp ný gjöld á sjávarútveginn í miklum mæli með stuðningi Sjálfstfl. þannig að ef einhver flokkur hér á Alþingi á sér sögu í skattlagningu í auknum mæli á sjávarútveginn, þá er það Sjálfstfl.

Herra forseti. Þetta vildi ég undirstrika af því að mjög hefur verið látið að því liggja að sjónarmið hafi ekki legið saman í þingflokknum hvað þetta varðar.

Þegar kemur að því í till. til þál. að rætt er um auðlindagjald þá er ekki verið að lýsa stefnu flokksins heldur hlutverki nefndarinnar, að hún eigi að athuga þessa hluti. Það finnst mér sjálfsagt og eðlilegt því að ef upp renna þeir dagar að menn hafa myljandi hagnað í sjávarútvegi, þá eigum við ekki að sitja auðum höndum á Alþingi og láta þann auð renna í vasa útgerðarmanna einna.

Ég vek svo athygli á því, herra forseti, til að undirstrika þann málflutning sem formaður Alþb. hefur haft uppi í þessu máli, sem hefur verið mjög á hófsömum nótum, (Gripið fram í.) talað fyrir hófsömum sjónarmiðum í þessu efni, að lagt er til að málinu verði vísað til umhvn. Það vísar ekki til skattheimtu. Og ég minni á það, herra forseti, að till. til þál. um veiðileyfagjald hefur verið vísað til efh.- og viðskn. vegna sameiginlegs skilnings flutningsmanna og annarra þingmanna að þar væri um að ræða skattamál. Sú tillaga sem hér er flutt er ekki skattamál og það er rétt að undirstrika það rækilega, herra forseti.

Ég vil að lokum segja að sú niðurstaða, sem orðið hefur í Alþb. milli ólíkra sjónarmiða sem vissulega eru uppi um gjaldtöku á atvinnugreinina á milli þeirra sem eru hófsamir og hinna sem hafa önnur sjónarmið eins og það að styðja veiðileyfagjald, er málamiðlun milli sjónarmiða sem er endanleg, getur ekki verið upphaf að nýju málamiðlunarsamkomulagi milli sömu sjónarmiða þótt í öðrum flokkum séu.