Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 17:10:21 (4134)

1998-02-19 17:10:21# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[17:10]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. sé alveg að ná réttum kúrs í þessu miðað við þessa síðustu hógværu ræðu hans. Auðvitað er það ekki deiluefnið að það þarf að taka fyrir gjöldum sem greidd eru af einhverjum. Fjármunirnir til þess koma ekki af himnum ofan. Ég átta mig alveg á því. En ég er ekki sammála því að það geti eingöngu komið niður á skiptahluta sjómanna. Það eru að sjálfsögðu fleiri sem fá sín verðmæti út úr þessum potti en þeir. En það er einmitt ein ástæðan fyrir því að við margir hverjir í Alþb. höfum ekki verið talsmenn stórfelldrar skattlagningar eða gjaldtöku á þessu sviði, að við óttumst að slíkt, ef mjög íþyngjandi yrði, mundi leita út í launakjör ekki bara sjómanna heldur fiskverkafólks í landi og fólksins í byggðarlögunum við sjávarsíðuna o.s.frv. Enda er hér verið, hv. þm. --- og það finnst mér að hv. þm. mætti viðurkenna í staðinn fyrir að halda þessar ræður um að þetta gæti komið niður á sjómönnum --- að leggja til mjög hófsamlega nálgun. Það stendur í tillögunni og tillagan fjallar um gjöld en ekki skatta og á því er grundvallarmunur sem ég veit að hv. þm. mun að lokum átta sig á.

Alveg eins er það með orkugjald eða þann hluta þessarar auðlindagjaldtöku sem við gætum kallað orkugjald. Ef ákveðið yrði að verja því í það afmarkaða tiltekna verkefni að jafna orkukostnað landsmanna t.d. með því að bera að hluta til rekstrarkostnaðinn af raforkudreifikerfinu, þá er það líka afmarkað skilgreint verkefni en ekki einhver óskilgreind fjáröflun fyrir ríkissjóð. Það er hugsun á nákvæmlega sama spori og hér er gagnvart sjávarútveginum en bara í orkugeiranum. Þetta er því ekki í neinni mótsögn og getur mjög vel farið saman.

Það er einmitt ætlunin að vinna af þessu tagi hjálpi mönnum að skilgreina forsendurnar fyrir þessu máli þannig að útkoman geti orðið skynsamleg.