Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 17:21:20 (4136)

1998-02-19 17:21:20# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[17:21]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var framsóknarleg ræða enda kannski ekki við öðru að búast þegar formaður þingflokks Framsfl. talar. Hún fór samviskusamlega yfir þann texta sem hér er til umræðu. Ég fékk ekki annað skilið en að Framsfl. og hv. þm. væru hjartanlega sammála um eitt. Þeir virtust sammála því að Alþingi ályktaði að kjósa níu manna nefnd. Punktur.

Eftir því sem leið á lesturinn í ræðu hennar, heyrði ég ekki betur en hún hefði fyrirvara við langflest þau efnisatriði sem er að finna í þessari tillögu. Þetta kalla ég framsóknarlegt. Þetta var ég að ræða um áðan, þ.e. forusta Framsfl., og stjórnarflokkanna beggja raunar, hefur á síðustu dögum látið að því liggja að nú séu þeir til viðtals um eitt stærsta pólitíska deilumál síðari ára. Mér virðist hins vegar að grunur minn um að hugur fylgdi ekki máli hafi hér verið staðfestur í ræðu formanns þingflokks Framsfl. Framsóknarmenn virðast sammála um að kjósa skuli níu manna nefnd. Er þetta réttur skilningur minn, virðulegur forseti? Ég vona að forseti komi þessari spurningu minni til hv. þm. (Gripið fram í.)