Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 17:26:44 (4139)

1998-02-19 17:26:44# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[17:26]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé ákveðin afbrýðissemi í málflutningi hv. þm. (GÁS: Mér er sama hvaðan gott kemur.) yfir því að ég skuli taka svona vel undir tillögu frá Alþb.

Í fyrsta lagi vil ég benda hv. þm. á að í tillögugreininni segir að nefndin eigi einnig að kanna hvernig staðið skuli að gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum í sameign þjóðarinnar með hliðsjón af þeim gjöldum sem fyrir eru. Þetta er algjört grundvallaratriði vegna þess að eins og hér hefur komið fram í umræðunni, þá eru innheimt gjöld í dag. (GÁS: Auðlindagjöld?) Hvort sem við köllum þau auðlindagjöld eða ekki. Í dag eru innheimt gjöld af sjávarútveginum og það er einmitt látið koma fram í þessari tillgr. að skoða þurfi þau og hugsanlega önnur gjöld að auki. Það er ekki útilokað og ég ætla ekki að útiloka það. Það hef ég ekki gert.

Áðan las ég upp samþykktir okkar þar sem fyrst og fremst var kveðið á um skatta. Við töldum alla vega svo þegar þessar samþykktir voru gerðar en það var gert fyrir einu og hálfu ári. Ég tala ekki fyrir allan flokkinn, ég tala fyrst og fremst fyrir sjálfa mig. Við höldum aftur flokksþing í haust og það er aldrei að vita hvað þá verður samþykkt. Innan Framsfl. ríkir lýðræði. Við fjöllum um öll heimsins mál á okkar flokksþingum, gerum samþykktir og vinnum samkvæmt þeim. Framsfl. er mjög frjálslyndur flokkur og í haust mun koma í ljós hverjar samþykktirnar verða. (SvG: Er það nú ekki fullmikið sagt?) ( Gripið fram í: Opinn í báða enda, það er gamla, góða ...)