Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 17:54:38 (4143)

1998-02-19 17:54:38# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[17:54]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. 8. þm. Reykv. fyrir ágæta ræðu og yfirferð yfir það sem hér hefur verið rætt. En ég vil spyrja um eitt atriði sem mér finnst skipta miklu máli vegna þess að hann lagði mjög ríka áherslu á að hér væri tilraun til þess að ná víðtækri sátt í þinginu, víðtækri sátt á hinum pólitíska vettvangi um gjaldtöku af auðlindum og þá ekki síst auðlindum sjávarins. Þess vegna vildi ég heyra afstöðu þingmannsins til þess spursmáls sem mjög hefur verið rætt og ekki síst af fulltrúum Alþfl. sem hv. 8. þm. Reykv. er væntanlega í viðræðum við um samfylkingu, þ.e. spursmálsins um auðlindaskatt, að auðlindagjald í sjávarútvegi verði kosningamál næst þegar kosið verður til Alþingis. Er þess að vænta að svo sé litið á að hér sé um úrslitakosti að ræða sem fylgi þessari tillögu, þ.e. ef ekki verði niðurstaða og menn fallist ekki á að finna leiðir til að leggja á auðlindaskatt, þá telji Alþb. að í næstu kosningum verði kosið um spurninguna hvort það eigi að leggja á auðlindaskatt? Ég vildi fá að heyra frá hv. þm. um þetta.