Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 23. febrúar 1998, kl. 16:05:29 (4149)

1998-02-23 16:05:29# 122. lþ. 73.9 fundur 189. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar, veiðiskylda, krókaveiðar o.fl.) frv., 236. mál: #A stjórn fiskveiða# (brottfall laga) frv., 252. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Hafrannsóknastofnun o.fl.) frv., 263. mál: #A ráðstafanir í sjávarútvegsmálum# (breyting ýmissa laga) frv., 269. mál: #A áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins# þál., 308. mál: #A rannsókn á áhrifum dragnótaveiða# þál., 487. mál: #A stjórn fiskveiða# (frysti- og vinnsluskip) frv., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 122. lþ.

[16:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum. Þetta er mál nr. 263 á þskj. 330. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Ragnar Arnalds og Hjörleifur Guttormsson.

Þetta frv. er bandormur að formi til þar sem það tekur til ráðstafana sem tengjast fleiri en einum lögum. Það er í fyrsta lagi lög um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, í öðru lagi lög um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996 og í þriðja og síðasta lagi lög um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981.

Segja má að frv. lýsi sér í tilteknum ráðstöfunum sem við flutningsmenn teljum að brýnt sé að gera án tafar á lögum sem varða málefni sjávarútvegsins. Í öðrum tilvikum er lögð til frekari vinna eða stefnumótun svo sem varðandi málefni smábáta en fyrst og fremst er um að ræða atriði sem við teljum að hvað sem framhaldinu líður, hvert sem verður fyrirkomulag fiskveiðistjórnar og starfsumhverfis sjávarútvegsins á komandi árum þá séu ýmsir þættir núgildandi löggjafar þannig að brýnt sé að á þeim sé tekið og ætti svo sem ekki að koma neinum á óvart. Hér er að mörgu leyti um kunnugleg viðfangsefni að ræða sem varða meðferð veiðiheimilda, tilfærslu þeirra og viðskipti með þau, varða umgengni um auðlindina, stöðu smábátaútgerðarinnar og varða hluti eins og skattlagningu hagnaðar eða gróða sem myndast í viðskiptum með veiðiheimildir.

Ef ég geri fyrst grein fyrir helstu efnisatriðum frv. áður en farið verður yfir það grein fyrir grein er í fyrsta lagi á ferðinni tillaga um að bætt sé við 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða nánari skilgreiningu á veiðiréttindunum eða veiðiheimildunum, hvað þar sé um að ræða, hvers eðlis þau réttindi séu, sem sagt að þau séu afnotaréttur til að undirstrika að um slíkt er að ræða en ekki eignarrétt eða ígildi eignarréttar.

Í öðru lagi eru ákvæði sem taka á svokallaðri meðaflareglu, og tengist því vandamáli sem mikið er rætt um og er yfirleitt talið vera fylgifiskur aflamarkskerfa eða aflamagnstakmarkana af hvaða tagi sem er, þ.e. að slík fiskveiðistjórnun feli í sér hættur á auknu úrkasti eða að afla sé hent, það sé valin samsetning á þeim afla sem útgerðarmenn eða veiðimenn kjósa að færa að landi og tíunda sem hlut í leyfilegum heildarafla.

Í þriðja lagi eru reglur í 3. og 4. gr. frv. um viðskipti og meðferð aflaheimildanna eins og áður sagði og ég kem nánar að síðar. Þá er um að ræða að reynt verði að ná utan um öll þau mál sem lúta að kostnaðarþátttöku sjávarútvegsins í eftirliti og stjórnun sem honum tengist. Það má nefna t.d. veiðieftirlitsgjöld, greiðslur til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins og fleiri gjöld og kostnað af sambærilegum toga sem eru ýmist greidd af sjávarútveginum nú þegar og umræður um þátttöku sjávarútvegsins í greiðslu frekari kostnaðar, m.a. af rannsókna- og þróunarstarfsemi og stofnunum sem tengjast sjávarútvegi.

Í frv. er einnig í ákvæði til bráðabirgða I tekið á vandamálum smábáta á yfirstandandi fiskveiðiári. Segja má að þau atriði hafi að hluta til fengið úrlausn nú þegar í stjfrv. sem var afgreitt fyrir áramót þar sem nokkuð var bætt við dagafjölda sem sóknarbátar mega sækja á yfirstandandi ári en að öðru leyti er þarna vísað til frekari vinnu og til þess að hæstv. sjútvrh. skipi nefnd til að endurskoða í heild sinni fiskveiðistjórnkerfi báta og smábátaflotans og er víst ekki vanþörf á.

Þá má enn fremur nefna ákvæði um ákveðinn viðlagapott til handa byggðarlögum sem hafa misst mikið af veiðiheimildum, ákvæði sem lúta að reglum um úreldingu eða endurnýjun fiskiskipa. Sömuleiðis hefur í því tilviki áunnist nokkuð því að afgreitt var fyrir áramótin stjfrv. þar sem úreldingarreglur voru rýmkaðar en sá galli var á gjöf Njarðar að það mál var í raun og veru ekki klárað og vísað inn í óvissu um framhaldið.

Í II. kafla frv. eru breytingar á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar og þar er tvennt efnislega fyrirferðarmest. Það er annars vegar að samkvæmt 7. gr. verði þrengt nokkuð það svigrúm sem hæstv. sjútvrh. hefur til að veita undanþágur frá því ákvæði að vinnsluskip komi með allan fiskúrgang að landi. Þeir sem þekkja þá sögu muna að til stóð að frá og með haustinu 1996 skyldu vinnsluskip vinna úr eða færa að landi allan fiskúrgang sem tengdist veiðum þeirra en síðan var fallið frá því að láta þetta ákvæði koma til framkvæmda og því borið við sem rétt var út af fyrir sig að sáralítill viðbúnaður var hafður uppi af hálfu vinnsluskipaflotans til að uppfylla þetta ákvæði. Væntanlega hefði farið svo að stór hluti vinnsluskipanna hefði orðið að sigla í land 1. sept. 1996 ef þau áform hefðu verið látin standa. En eftir sem áður er það markmið sem verður að halda í að sem allra mest verðmæti séu gerð úr þessum hluta fiskaflans og ég held að ástæða sé til að þrengja og skilgreina betur þá undanþágu sem stuðst er við. Sú tillaga sem hér er lögð til er að gengið verði út frá þjóðhagslegri hagkvæmni þess að nýta viðkomandi úrgang en ekki endilega hagkvæmni sem snýr að einstökum skipum. Með öðrum orðum að þó það skili ef til vill ekki viðkomandi veiðiskipi arði að hirða tiltekinn úrgang sé eftir sem áður réttlætanlegt að leggja þá kvöð á skipið að færa hann að landi ef það er talið hagkvæmt í þjóðhagslegu samhengi að nýta hann til verðmæta.

Að hinu leytinu er lagt til að inn í lög um umgengni um nytjastofna sjávar komi ákvæði sem skyldi útgerðir til að bjóða allan afla til sölu á innlendum fiskmarkaði sem fer ekki beint til vinnslu hjá sama aðila.

Loks er svo, herra forseti, í III. kafla frv. ákvæði um skattlagningu söluhagnaðar af veiðiheimildum. Það er um sérstakan brúttóskatt eða sérstakan skatt á allan söluhagnað veiðiheimilda.

Herra forseti. Ég mun fara yfir einstakar greinar frv. eftir því sem tíminn leyfir og byrja þá á 1. gr. en hún felur í sér eins og áður sagði að málsgrein verði bætt við 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða, hina nafntoguðu 1. gr., þar sem fjallað er um sameign þjóðarinnar á fiskstofnunum og það að úthlutun veiðiréttar myndi aldrei óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir auðlindinni. Hins vegar er ljóst að í lögunum um stjórn fiskveiða er ekki að finna nánari lagalega skilgreiningu á því hvers eðlis réttindin séu sem mönnum er úthlutað. Það hefur að mínu mati verið lengi veikleiki í löggjöfinni að ekki skyldi strax við upptöku kvótakerfisins skilgreint nákvæmlega í lögum hvers eðlis þau réttindi væru þá sem mönnum væri úthlutað. Það er ljóst að ekki er ætlun löggjafans að um eignarrétt sé að ræða og ekki heldur neitt ígildi eignarréttar. Um það er 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða afdráttarlaus. En hvað er það þá sem menn eru að fá í hendur? Það er skilningur minn og okkar flutningsmanna frv. að það hljóti eðli málsins samkvæmt að vera afnotaréttur sem þarna er á ferðinni og það eigi að taka fram afdráttarlaust í nefndri 1. gr. Þetta mætti gera með því að bæta nýjum málslið aftan við 1. gr. sem orðaðist þá eitthvað á þessa leið: Veiðiheimild eða veiðiréttur er afnotaréttur handhafans.

Í 2. gr. frv. er lögð til svohljóðandi breyting á 6. mgr. 10. gr. laganna, þ.e. sú málsgrein sem í dag geymir heimild til handa ráðherra til að undanskilja undirmálsfisk að hluta þegar aflamark er ákvarðað. Að mati okkar er greinin of þröng og henni þyrfti að breyta þannig að ráðherra gæti undanskilið undirmálsfisk að fullu þannig að heimilt væri að landa öllum undirmálsfiski utan aflamarks.

[16:15]

Jafnframt mætti í því skyni draga úr hættu á úrkasti og setja reglur um löndun tiltekins meðafla utan aflamarks. Þá fengi útgerðin sem landaði meðaflanum greitt sem næmi áætluðum kostnaði eða útlögðum beinum kostnaði vegna þess sem stofnað er til til að hirða aflann, en andvirði meðaflans að öðru leyti yrði nýtt til sameiginlegra þarfa í sjávarútvegi, t.d. til öryggismála sjómanna og hafrannsókna. Að sjálfsögðu þyrfti að skilgreina og útfæra þær meðaflareglur sem þarna kæmu til. Þeirra er reyndar mest þörf þegar verið er í blönduðum veiðiskap eða verið er að sækjast eftir tilteknum tegundum og einhver meðafli kemur óhjákvæmilega í viðkomandi veiðarfæri. Dæmi um þetta geta verið snurðvoðaveiðar á flatfiski eða grásleppuveiðar í net, en allir sem til þekkja vita að nánast er óhugsandi annað en að einhver bolfiskafli slæðist með í slík veiðarfæri. Og allir vita að veruleg hætta er á ferðum ef kvótalitlar eða kvótalausar útgerðir stunda þessar veiðar, þ.e. kvótalitlar eða kvótalausar í skilningnum bolfiskvóta, að þeim meðafla sé þá einfaldlega hent og menn haldi áfram veiðum.

Einnig er ástæða til að ætla, herra forseti, að ráðstöfun meðafla af því tagi sem hér er lagt til, þ.e. að verðmætin umfram beinan útlagðan kostnað gengju fyrst og fremst til einhverra sameiginlegra og vel skilgreindra þarfa sjávarútvegsins eða sjómanna, eins og öryggismálanna, mundi ýta undir að þeim meðafla yrði skilað að landi og þarf ekki að rökstyðja hvers vegna.

Herra forseti. Í 3. gr. og reyndar 4. gr. er fjallað um þær breytingar sem við leggjum til varðandi viðskipti með aflahlutdeild og aflamark. Þær eru í sem skemmstu máli á þá leið að í 3. mgr. 3. gr. er það nýmæli að aflahlutdeild, þ.e. varanleg veiðiréttindi, sé einungis heimilt að færa milli skipa ef um framsal milli útgerða er að ræða, þ.e. ekki tilflutning á milli skipa sömu útgerðar, á viðurkenndum markaði eða kaupþingi. Útgerðarmönnum yrði ekki heimilt að eiga milliliðalaus viðskipti sín í milli með aflahlutdeild. Heppilegast væri að slíkt kaupþing eða markaður lyti sem mest sambærilegum reglum og til að mynda verðbréfaþing, reglum sem viðskrh. mundi setja í samráði við sjútvrh. Það er enginn vafi á því í mínum huga að með þeim breytingum mætti koma miklu betra skikki á viðskipti með þessi réttindi. Þau yrðu í fyrsta lagi öllum aðgengileg og yrðu opinber, verðið lægi fyrir og auðvelt að halda utan um þá hlið málsins. Auk þess yrði aflahlutdeild skilin frá skipi við sölu og það mundi auðvelda mjög skattalega meðferð hagnaðar sem kann að myndast í slíkum tilvikum. Þetta ber að hafa í huga samanber 9. og 10. gr. frv.

Hvað aflamarkið snertir, þ.e. veiðiheimildirnar innan árs, þá er hér lögð til sú regla að heimilt sé að færa aflamark milli skipa sömu útgerðar. Þá sé heimilt að skipta á sléttu á jafnverðmætum veiðiheimildum innan fiskveiðiárs, óháð því hverjir séu eigendur. En hins vegar er ótvírætt tekið af skarið um það í síðari málslið 2. mgr. 4. gr., að ,,annar flutningur aflamarks milli skipa en að ofan greinir er óheimill.`` Þetta þýðir með öðrum orðum, herra forseti, að leiga á veiðiheimildum innan fiskveiðiársins er bönnuð.

Til viðbótar er svo útfærð svonefnd fyrningarregla sem felur það í sér að ónýttar veiðiheimildir séu fyrndar um tiltekinn hundraðshluta á hverju fiskveiðiári þegar tekið hefur verið tillit til heimilda til geymslu aflamarks milli fiskveiðiára. Skipti á sléttu eru áfram heimil eins og áður kom fram og sérstök heimild yrði fyrir undanþágu vegna meiri háttar frátafa frá veiðum, þ.e. ef skip lentu í meiri háttar vélarbilun eða færust eða annað því um líkt, þá skyldi fyrningarreglan ekki gilda en að öðru tilskildu mundu 10% af ónýttu aflamarki innan fiskveiðiárs fyrnast og koma til endurúthlutunar til þeirra sem aflamark hafa. Þetta þýðir að ónýttar veiðiheimildir, ónýttur afnotaréttur færist þá hægt og bítandi til í kerfinu frá þeim sem ekki nýta sinn rétt til hinna sem það hafa gert. Þannig aðlagast dreifing veiðiréttarins jafnt og þétt því munstri sem er í útgerðinni á hverjum tíma.

Það er ljóst, herra forseti, að þær breytingar sem hér eru lagðar til á viðskiptum með bæði veiðiheimildir innan fiskveiðiárs og varanlega aflahlutdeild mundu hafa nokkrar breytingar í för með sér og talsverð aðlögun færi væntanlega í gang í kjölfarið. Þess vegna er lögð til nokkuð önnur gildistaka á þessum ákvæðum, þ.e. 3. og 4. gr., eða nánar tiltekið að þær mundu ekki ganga í gildi fyrr en 1. sept. 1999 á því fiskveiðiári sem þá hefst.

Í 5. gr. er svo komið að breytingum á 18. gr. laganna. Lagt er til að þar verði tekin upp ný kaflafyrirsögn, nýr IV. kafli komi þar í lögin og nefnist einu nafni Eftirlits- og auðlindagjöld. Þar er lagður til sá farvegur fyrir samræmingu á gjaldtöku og kostnaðarþátttöku sjávarútvegsins, sem ég ræddi um áður, vegna ýmiss konar eftirlitsstarfsemi, rannsókna- og þróunarstarfsemi og fleiri slíkra hluta sem sjávarútvegurinn eftir atvikum tæki að sér að greiða. Um yrði að ræða samræmingu á þessum gjöldum, bæði þeim gjöldum sem sjávarútvegurinn greiðir nú þegar og í slíkum samningi mætti hugsa sér að útfærðar yrðu hugmyndir um að sjávarútvegurinn tæki í vaxandi mæli þátt í greiðslu kostnaðar vegna umhverfismálarannsókna og þróunarstarfsemi sem tengist sjávarútvegi, og fleiri slíkra hluta.

6. gr. felur í sér nokkur ákvæði til bráðabirgða sem bætast mundu aftan við lögin um stjórn fiskveiða. Það fyrsta hef ég þegar nefnt og varðar dagafjölda krókabáta á yfirstandandi fiskveiðiári. Tillagan gengur út á að dagafjöldinn verði festur með tilteknu gólfi, 35 dagar fyrir þá sem róa með handfærum og línu og 50 dagar fyrir þá sem sækja á handfærum eingöngu. Þetta er nokkuð rýmri dagafjöldi en niðurstaðan varð í stjórnafrv. hér í desember og talsvert mikil breyting frá því sem við blasti að óbreyttum lögum á sl. hausti og er óþarfi að fjölyrða um.

Í ákvæði til bráðabirgða II er lagt til að sjútvrh. skipi nefnd með fulltrúum allra þingflokka og samtaka helstu hagsmunaaðila til að taka fyrirkomulag fiskveiðistjórnar báta- og smábátaflotans til heildarendurskoðunar. Markmið þeirrar endurskoðunar skal vera að móta eitt samræmt heildstætt stjórnkerfi fyrir smábáta og minni báta sem stunda dagróðra á grunnslóð, svo og að ákveða stærðarmörk í því sambandi.

Það er ljóst að það stjórnkerfi sem smábátaflotinn býr við nú er óhemjuflókið og margfalt, og hefur ýmiss konar mismunun í sér fólgna sem löngu tímabært er að reyna að ráðast gegn og uppræta. Langeðlilegast og það eina sem ég tel ásættanlegt til framtíðar litið er auðvitað að þessi hluti flotans búi við sæmilega samræmdar og einsleitar reglur þannig að mönnum verði ekki mismunað um aldur og ævi og þeir hafðir á margs konar kerfum, algjörlega sambærilegir bátar hvað getu snertir, af sögulegum ástæðum og jafnumdeilanlegum og þeim sem liggja til grundvallar því hvernig réttindi smábátaflotans eru saman sett í dag. Ég held að mikil þjóðþrif væru að því, herra forseti, og mikil tiltekt í þessu kerfi ef hægt væri að ná saman um nýtt heildstætt stjórnkerfi fyrir þennan flota sem nýtir grunnslóðina fyrir minnstu skipin, dagróðraflotann. Það er enginn vafi á því að mikil þörf er á að taka til í þeim efnum.

Þá er, herra forseti, í ákvæði til bráðabirgða III lagður til sérstakur pottur, viðlagapottur, til handa þeim byggðarlögum sem misst hafa umtalsverðan hluta veiðiheimilda sinna þar sem fiskveiðar og fiskvinnsla eru uppistaða atvinnulífs. Þetta er að mörgu leyti hliðstætt því sem var í svonefndum hagræðingarsjóði sjávarútvegsins áður og yrði að sjálfsögðu einungis beitt --- herra forseti, ég er ekki búinn með ræðutímann, má ég ekki bæta við undir lokin?

(Forseti (GÁS): Forseti mun gaumgæfa þinn rétt í því.)

Ég er hræddur um að apparatið hafi eitthvað verið vitlaust stillt, herra forseti. (Gripið fram í: Er ræðan of löng?) Nei, hún er ekki orðin of löng enn þá.

Þetta ákvæði skýrir sig nú sjálft, herra forseti. Ákvæði til bráðabirgða IV fjallar um úreldingarreglurnar og hefur eins og ég sagði áður þegar komið að nokkru leyti til framkvæmda í formi stjórnarfrumvarps sem var afgreitt á þingi fyrir áramótin.

II. kafli fjallar um umgengni um nytjastofna sjávar og hefur í sér fólgna takmörkun á heimild ráðherra til að veita undanþágu frá því að úrgangur frá vinnsluskipum komi að landi eða sé nýttur og yrði það markmiðið að skylt væri að færa að landi allan fiskúrgang eða að vinna úr öllum fiskúrgangi sem teldist þjóðhagslega hagkvæmt að nýta. Það er ekki nokkur vafi á því að við erum að missa af heilmiklum verðmætum með þeirri umgengni sem nú er ástunduð. Þar má sem dæmi taka alla hausa sem hent er af verksmiðjuskipunum á miðunum. Menn verða af miklum verðmætum frá þeim hluta flotans sem flytur þá að landi svo hundruðum milljóna skiptir, aðallega í formi þurrkunar, sem síðan er flutt til Nígeríu, en einnig eru hausar skornir, kinnar nýttar o.s.frv.

Slík umgengni um auðlindina og þessi nýting eða öllu heldur hin slælega nýting getur átt eftir að koma okkur í koll síðar meir þegar meira verður að því spurt hvernig þjóðir nýta þær auðlindir sem þær hafa undir höndum. Frá umhverfishlið og miðað við orðstír okkar Íslendinga og sjávarútvegsins á því sviði er ekki nokkur vafi á því að þetta ástand er okkur ekki gott eða gæti a.m.k. orðið okkur óþægur ljár í þúfu síðar meir.

Seinni greinin í II. kafla felur í sér að allur afli, sem ekki er landað til vinnslu innan lands hjá sama fyrirtæki og stundar veiðarnar skuli boðinn til sölu á viðurkenndum fiskmarkaði þannig að innlendri fiskvinnslu standi jafnan til boða að vinna þann afla. Þetta er málamiðlun milli þeirra sjónarmiða annars vegar sem lengst vilja ganga og gera að skyldu að allur afli fari yfir fiskmarkað. Sá sem hér stendur hefur ekki verið talsmaður þess og ekki treyst sér til að ganga svo langt eða fundið rök fyrir því að gera það. Kemur þar hvort tveggja til að ég held að þá væru menn jafnvel farnir að ganga gegn viðurkenndum hagkvæmnis- og hagræðingarsjónarmiðum ef aðilum væri ekki heimilt að skipuleggja starfsemi sína þannig að hráefnisöflun og vinnsla héldist í hendur. Einnig er ljóst að það orkar af lagalegum ástæðum mjög tvímælis að grípa þannig inn í sjálfsákvörðunarrétt sjálfstæðs lögaðila sem er með eigið hráefni í höndum, að hann megi ekki halda áfram vinnslu þess þegar í land er komið.

Að síðustu er III. kafli frv., herra forseti, um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt. Þar eru lagðar til þær breytingar að í fyrra lagi verði bætt nýrri málsgrein við 13. gr. laganna um tekju- og eignarskatt og sú viðbót feli það í sér að ekki sé heimilt að færa söluhagnað veiðiheimilda milli ára, þ.e. að þau ákvæði sem í 1. mgr. 13. gr. eru um meðferð söluhagnaðar skuli ekki gilda ef um söluhagnað af viðskiptum með aflahlutdeild er að ræða. Það er ekki heimilt að færa söluhagnaðinn yfir á aðrar eignir eða fresta honum þannig að söluhagnaðurinn myndi allur skattskyldar tekjur á söluárinu.

[16:30]

Í 10. gr. er lagt til að við lögin bætist ný grein, 72. gr. A, er orðist svo: ,, Af söluhagnaði af viðskiptum með aflahlutdeild sbr. 11. gr. l. nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, skal auk tekjuskatts samkvæmt 72. gr. [sem yrði þá 73. gr.] reikna sérstakan tekjuskatt sem skal vera 50% að teknu tilliti til stofnverðs og fyrninga, sbr. þó 2. mgr. 13. gr.``

Þá er ljóst að ekki sé um fyrnanleg verðmæti að ræða með hliðsjón af breytingum sem þegar hafa verið gerðar á lögum um skattalega meðferð veiðiréttinda og með þeim breytingum sem hér eru lagðar til á 13. gr. laganna um tekju- og eignarskatt. Allur söluhagnaður af veiðiheimildum yrði skattskyldar tekjur á söluári og skattlagður sérstaklega eins og 10. gr. gerir ráð fyrir. Um yrði að ræða í fyrsta lagi 50% brúttóskatt á nettósöluhagnað veiðiheimilda. Til viðbótar mundu þau fyrirtæki sem tekjuskatt greiddu, greiða tekjuskatt af hagnaðinum eins og öðrum hagnaði. Í þeim tilvikum yrði þar af leiðandi að mestu um að ræða upptöku á nettósöluhagnaði vegna veiðiheimilda.

Flutningsmenn eru þeirrar skoðunar að hugsunin með fiskveiðistjórnkerfinu hafi aldrei verið að búa til sérstaka hagnaðarmyndunaraðferð eða hagnaðarlið í þessu samhengi. Hér er um að ræða fiskveiðistjórnkerfi en ekki gróðavél fyrir þá sem hætta í útgerð. Okkar skoðun er að þetta vandamál sé eðlilegast að eiga við með því að skattleggja söluhagnaðinn þegar hann myndast hjá þeim sem hagnast óeðlilega við að hætta í greininni. Þetta vandamál yrði viðráðanlegt með þeim breytingum sem við leggjum til auk þess að viðskipti með varanlegar veiðiheimildir fari eingöngu fram á viðurkenndu kaupþingi. Á því er enginn vafi í mínum huga, herra forseti.

Ég viðurkenni fúslega að tæknileg útfærsla á skattheimtunni er flókið mál og vissulega koma fleiri aðferðir til greina en sú sem hér er lögð til. Einnig má deila um skattlagningarmörk í þessu sambandi og sjálfsagt að skoða það. Því er ekki haldið fram að endanlegur sannleikur sé í tillögum okkar en þær eru raunhæf dæmi um aðferðir hægt væri að nota. Þær hafa verið yfirfarnar af ýmsum sem eru ágætlega að sér um þessi mál.

Að mínu mati er brýnt að taka á þessum vanda. Það er ekki síst vegna þess að í umræðunni hefur sá misskilningur gert vart við sig að hagnaður einstakra aðila sem hætta í útgerð og keyptir eru út af öðrum, sé tilefni til að leggja almennan skatt á sjávarútveginn, veiðileyfagjöld, auðlindagjöld eða önnur slík. Í þessu er fólginn sá grundvallarmisskilningur að með því að skattleggja þá sem eftir eru í sjávarútveginum eru menn engu nær hagnaði hinna sem hætta. Þvert á móti er eðlilegast og, samkvæmt grundvallarreglum skattaréttar, réttlátast að skattleggja þann hagnað sem er, þar sem hann myndast. Það má ekki refsa öðrum með íþyngjandi skattákvæðum fyrir hagnað þeirra sem þegar eru hættir starfsemi í sjávarútvegi. Þannig mundi auðlindagjald eða veiðileyfagjöld í óhóflegum mæli bitna á aðilum í þessu samhengi. Að mínu mati væru menn engu nær réttlætinu þótt þeir færu þá leið.

Herra forseti. Auðvitað er að fleiru að hyggja í íslenskum sjávarútvegsmálum um þessar mundir en hér er tekið á dagskrá í þessu frv. Þó tekur það til þeirra mála sem eru hvað stærst. Mergurinn málsins er sá að Sjávarútvegsstefnan, með stórum staf og ákveðnum greini, verður ekki mótuð í eitt skipti fyrir öll. Stefnumótun í sjávarútvegi er og á að vera sífellt viðfangsefni. Löggjöfin og framkvæmd sjávarútvegsmálanna þarf sömuleiðis að vera sveigjanleg og fela í sér möguleika til að bregðast við síbreytilegum aðstæðum vegna þess að sjávarútvegurinn er dínamískari og gjarnan meiri breytingum undirorpinn en aðrar greinar.

Ég vil taka eitt dæmi og spyrja hæstv. sjútvrh. í samhengi við þær aðstæður sem nú eru að skapast á loðnumiðunum. Ljóst er að loðnukvótinn muni að óbreyttu ekki klárast nema einstaklega vel takist til við bæði aflabrögð og ekki síður gæftir þá tiltölulega fáu daga sem búast má við að loðnan sé veiðanleg, a.m.k. til frystingar. Við þær aðstæður sýnist mér og mörgum fleirum, herra forseti, að einboðið væri að láta þjóðarhagsmuni ráða og taka þá fram yfir kvótakerfið. Við þessar aðstæður ætti nú að gefa veiðar frjálsar og hvetja til þess að reynt yrði að nýta þann kvóta sem eftir ef ekki telst þá ráðlegt að bæta við hann. Það er ekki nokkur vafi á því að við þessar aðstæður væri þjóðhagslega hagkvæmast að gefa veiðarnar frjálsar og tryggja að afkastageta flotans, verksmiðjanna og frystihúsanna um allt land nýtist eins og kostur er það sem eftir er af vertíðinni. Að þessari vertíð lokinni er að sjálfsögðu ekkert því til fyrirstöðu að kvótinn verði settur á að nýju. Ég sé því ekkert til fyrirstöðu ef vilji er fyrir hendi. Fróðlegt væri að heyra hvað hæstv. sjútvrh. hefur að segja um það mál.

Herra forseti, að lokinni umræðunni legg ég svo til að frv. verði vísað til sjútvn., þó það heyri vissulega undir fleiri nefndir, en legði síðan til að hv. sjútn. vísaði skattalegum hluta málsins til umsagnar og umfjöllunar í hv. efh.- og viðskn.