Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 23. febrúar 1998, kl. 16:40:31 (4152)

1998-02-23 16:40:31# 122. lþ. 73.9 fundur 189. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar, veiðiskylda, krókaveiðar o.fl.) frv., 236. mál: #A stjórn fiskveiða# (brottfall laga) frv., 252. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Hafrannsóknastofnun o.fl.) frv., 263. mál: #A ráðstafanir í sjávarútvegsmálum# (breyting ýmissa laga) frv., 269. mál: #A áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins# þál., 308. mál: #A rannsókn á áhrifum dragnótaveiða# þál., 487. mál: #A stjórn fiskveiða# (frysti- og vinnsluskip) frv., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 122. lþ.

[16:40]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um rannsóknir á áhrifum veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins. Tillögutextinn er stuttur en svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að gera Hafrannsóknastofnuninni kleift að gera átak í rannsóknum á áhrifum veiða og veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins á Íslandsmiðum. Til verkefnisins verði veitt afmörkuð fjárveiting næstu þrjú ár með hliðsjón af áætlun frá stofnuninni.``

Hér er lagt til að ráðist verði í sérstakt átaksverkefni til að kanna áhrif veiðarfæra á hafsbotninn. Gert er ráð fyrir því að Hafrannsóknastofnun verði á næstu þremur árum gert kleift að vinna að útfærslu sérstaks átaksverkefnis til rannsókna á áhrifum veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins á landgrunninu. Með tillögunni fylgja drög að verklýsingu og yfirlit um fjárþörf slíks verkefnis til þriggja ára. Það er unnið af Hafrannsóknastofnun, sjó- og vistfræðisviði, að beiðni flm. Að þremur árum liðnum yrði verkefnið endurmetið með tilliti til þarfar á frekari rannsóknum.

Þær afmörkuðu rannsóknir sem nú fara fram á vegum sjó- og vistfræðideildar á áhrifum veiðarfæra á samfélög botndýra hafa þegar leitt í ljós þörfina á mun víðtækari rannsóknum á þessu sviði og munu gagnast við undirbúning þeirra. Reynslan af afmörkuðum átaksverkefnum á vegum stofnunarinnar eru góð, ekki síst af fjölstofnaverkefninu og rannsóknum á klaki og hrygningu þorsks.

Það verkefni sem Hafrannsóknastofnun hefur gert áætlun um er útfært á bls. 7 í þskj. 337. Þar er að finna sundurliðaðan kostnað vegna rannsókna í þessu verkefni. Kostnaði er skipt á þrjú ár eins og þar kemur fram. Samtals er gert ráð fyrir röskum 60 millj. kr. í heildarkostnað. Mest á fyrsta ári en jafnt á næstu tveimur árum á eftir. Þarna eru allir kostnaðarþættir aðgreindir og þær tölur sem við þá eiga. Um er að ræða rannsóknir sem varða botndýralífið og sérfræðirannsóknir þar að lútandi en einnig varðandi jarðfræði hafsbotnsins. Þar koma til aðrir sérfræðingar.

Eins og ég gat um hafa farið fram nokkrar rannsóknir í þessu efni. Á þetta er því komin nokkur reynsla.

Árið 1996 veitti Lýðveldissjóður tveimur umsækjendum, Sigmari Arnari Steingrímssyni og Stefáni Áka Ragnarssyni, styrk til rannsókna á áhrifum botnvörpuveiða á samfélög botndýra. Til þess var þeim veitt framlag sem svaraði til launa sérfræðings í u.þ.b. hálft ár. Rannsóknaáætlun þeirra var felld að áætlun Hafrannsóknastofnunar fyrir árið 1997. Í rannsókninni felst forkönnun þar sem gagnagrunnur stofnunarinnar er nýttur til að meta veiðiálag við landið, staðbundinni könnun á botndýralífi á fyrirhuguðu rannsóknarsvæði og útitilraun þar sem borið er saman botndýralíf á röskuðu og óröskuðu svæði. Hér er um lofsvert framtak að ræða sem getur gagnast við víðtækari rannsóknir sem nauðsynlegt er að leggja í að mati flm. þessarar till.

[16:45]

Einnig er að geta um annað verkefni sem er kallað Bioice-verkefni, þ.e. botndýr á Íslandsmiðum, verkefni sem hófst árið 1992 og hefur nú staðið yfir í um það bil fimm ár. Með tilkomu þess efldust verulega rannsóknir á flokkun íslenskra botndýra og lífsháttum þeirra. Markmið þessa verkefnis er að rannsaka hvaða botndýrategundir lifa innan íslenskrar efnahagslögsögu, skrá útbreiðslu þeirra og magn og tengsl við aðrar lífverur sjávar. Slík vitneskja er auðvitað mjög þýðingarmikil í sambandi við allar rannsóknir á botni og mun einnig gagnast inn í samhengi þessa rannsóknarátaks.

Aðaltilefni þess að svo víðtækt rannsóknarverkefni er lagt til er að líkur benda til að botnvörpuveiðar hafi veruleg áhrif á lífríki hafsbotnsins og geti haft veruleg áhrif á uppvaxtarskilyrði dýra sem halda sig þar og þar á meðal fiska og fiskstofna. Hér er því um mjög mikilsvert verkefni að ræða í hagrænu samhengi. Botnvörpuveiðarnar verka ekki ósvipað og plógar eða herfi á landi, þ.e. þær brjóta niður ójöfnur og slétta botninn auk þess sem botngerðin breytist við endurtekið umrót. Margir þeirra sem hafa lengi stundað sjómennsku telja sig hafa orðið vitni að gagngerum breytingum á landslagi botnsins á stórum svæðum á íslenska landgrunninu. Sem næst sléttur botn er forsenda þess að stunda togveiðar áfallalaust og því hafa þessar breytingar verið taldar jákvæðar með tilliti til togveiða. Margir sjómenn hafa þó haft áhyggjur af áhrifum þessarar röskunar á lífsskilyrði á sjávarbotni, bæði staðbundnum og einnig hugsanlegum áhrifum á klak fiskstofna. Með stækkun veiðarfæra og aukinni sókn hefur röskunin augljóslega orðið meiri og víðtækari.

Athyglisverð eru, virðulegur forseti, hin ólíku viðhorf til jarðrasks eftir því hvort um er að ræða röskun á landi eða á sjó. Á þurrlendi hefur verið reynt að setja reglur um jarðrask og draga úr áhrifum þess en sömu sögu er ekki að segja um hafsbotninn sem er í vörslu íslenska ríkisins og eign íslenska ríkisins eftir að lög voru sett þar að lútandi eftir 1990. Kemur þar eflaust til að hafsbotninn er flestum hulinn og óaðgengilegur og aðstæður til beinna rannsókna erfiðar og kosta meira en á þurrlendi. Unnið hefur verið að rannsóknum á þessu sviði erlendis, einkum í Norðursjó, og er vísað til þess í greinargerð með tillögunni. Þær benda til þess að um 50% af yfirborði sjávarbotns þar hafi orðið fyrir raski af völdum botnveiðarfæra einu sinni til fimm sinnum á ári og eigi stóran þátt í að tegundasamsetning þar sé nú ólík því sem hún var fyrir um hálfri öld. Áhyggjur manna og rannsóknir erlendis hafa einkum beinst að veiðum með bjálkatrolli en um áhrif dragnóta- og botnvörpuveiða á botndýralíf er minna vitað. Botnvarpa er sem kunnugt er algengasta veiðarfærið sem er notað hér við land og því er mikil nauðsyn að afla vitneskju um áhrif á notkun hennar á botngerð og lífríki botnsins.

Virðulegur forseti. Í greinargerð með tillögunni er nánar vikið að þessum áhrifum og þeim búnaði sem tengist botnvörpu, mismunandi eftir því hvernig um veiðarfæri er búið og fyrir utan veiðarnar sjálfar er gerð veiðarfæranna síðan þáttur af frekari athugun þessara mála.

Íslensk stjórnvöld hafa sett fram stefnu um sjálfbæra þróun atvinnulífs í landinu því mikið vantar á að sú stefna hafi verið útfærð en í því sambandi hlýtur sjávarútvegurinn að skipa háan sess þar sem um er að ræða undirstöðuatvinnugrein í landi okkar. Íslenskar rannsóknastofnanir hafa sýnt að þær eru færar um að vera í fararbroddi í grunnrannsóknum séu þeim skapaðar til þess aðstæður fjárhagslega. Tilkoma sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna hérlendis leggur okkur jafnframt sérstakar skyldur á herðar að sinna sem flestum sviðum er snerta vistkerfi hafsins og verndun þess gegn ofnýtingu. Tækni við fiskveiðar veldur sífellt meira álagi á lífrænar sjávarauðlindir og þess þarf vandlega að gæta að sjálfbær nýting sé höfð að leiðarljósi. Rannsóknir á áhrifum veiðarfæra á lífríki sjávar er svið sem hefur verið vanrækt allt of lengi. Tillaga þessi miðar að því að við því verði brugðist með markvissu átaki.

Virðulegur forseti. Ég vísa að öðru leyti til áætlunar Hafrannsóknastofnunarinnar um það átak sem tillagan gerir ráð fyrir og um leið og ég kem á framfæri úr ræðustól þökkum til stofnunarinnar fyrir að hafa unnið þessa áætlun og lagt í það vinnu og metnað að búa hana vel úr garði.

Ég legg síðan til að að lokinni umræðu um málið verði tillögunni vísað til sjútvn. þingsins en óska jafnframt eftir því að umhvn., sem getur augljóslega haft áhuga á málinu og er eðlilegt að tjái sig um málið, fái tillöguna til skoðunar og umsagnar.