Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 23. febrúar 1998, kl. 16:52:29 (4153)

1998-02-23 16:52:29# 122. lþ. 73.9 fundur 189. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar, veiðiskylda, krókaveiðar o.fl.) frv., 236. mál: #A stjórn fiskveiða# (brottfall laga) frv., 252. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Hafrannsóknastofnun o.fl.) frv., 263. mál: #A ráðstafanir í sjávarútvegsmálum# (breyting ýmissa laga) frv., 269. mál: #A áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins# þál., 308. mál: #A rannsókn á áhrifum dragnótaveiða# þál., 487. mál: #A stjórn fiskveiða# (frysti- og vinnsluskip) frv., Flm. GE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 122. lþ.

[16:52]

Flm. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá að koma þessu máli að í leiðinni. Það er að hluta til af sama stofni og það mál sem var síðast til umræðu. Það er um rannsókn á áhrifum dragnótaveiða. Það er reyndar takmarkað við miklu minna svið en tillagan er svohjóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að láta kanna áhrif dragnótaveiða á lífríki hafsins, sérstaklega hver áhrif dragnótaveiða eru á bolfisksstofna, viðkomu þeirra og afrakstursgetu. Einnig verði kannað hvort ákveðin veiðisvæði við Ísland henti fremur til dragnótaveiða en önnur með tilliti til lífríkis á hafsbotni.``

Í greinargerð segir:

Lengi hefur verið deilt um það, bæði á Alþingi og annars staðar, hvort dragnótaveiðar við Ísland og e.t.v. sérstaklega í Faxaflóa séu skaðlegar viðkomu bolfisksstofna á þessu svæði. Vitað er t.d. að á Faxaflóasvæðinu eru mikilvægar uppeldisstöðvar fyrir ýsu. Ekki verða þessar deilur útkljáðar nema nákvæmar rannsóknir fari fram hvað varðar réttmæti þessara veiða og réttmæti ber að skýra náttúrunni í hag.

Ég vitna frekar í þá greinargerð sem með fylgir:

Árið 1971 töldu menn í óefni komið og voru dragnótaveiðar þá aftur bannaðar í Faxaflóa. Virðist ýsuafli aftur hafa farið stigvaxandi upp úr því. Þannig var meðalýsuafli í róðri frá Akranesi kominn upp í rúmlega tvö tonn árið 1980. Þegar veiðar með dragnót voru heimilaðar í Faxaflóa á nýjan leik að tillögu Alþingis árið 1979, í tilraunaskyni, fengu tveir bátar leyfi til veiðanna. Banninu var síðan formlega aflétt með breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands árið 1981. Bátunum hefur síðan fjölgað ár frá ári og nú er svo komið að á síðasta ári (1996) höfðu 14 bátar leyfi til dragnóta veiða í Faxaflóa. Margir telja þennan fjölda allt of mikinn. Bátarnir eru of margir til þess að um tilraunaveiðar geti verið að ræða.

Það er bæði rétt og sanngjarnt að nýta kolastofninn við landið, en það verður að gerast þannig að hagkvæmt teljist.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að mæla frekar fyrir þáltill. en hér er gert en leyfi mér að taka undir mál sem sem hér hafa verið til umræðu og ég tel rétt að nota tímann til þess, þau mál sem hér hafa verið til umræðu á þeim tíma sem ég hef til ráðstöfunar. Ég tek undir efni margra þessara tillagna og frumvarpa og vil t.d. gera að umræðuefni frv. til laga um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum sem hv. flutningsmenn Steingrímur Sigfússon, Ragnar Arnalds og Hjörleifur Guttormsson flytja þar sem er getið um í 1. gr. að veiðiréttur er afnotaréttur handhafans en ég vildi þó gjarnan sjá að þar kæmi beint á eftir: ,,en er sameign íslensku þjóðarinnar.`` Ég tel að það verði aldrei nógu oft brýnt fyrir mönnum.

Um 2. gr. frv. vil ég segja að þar er verið að taka á þeim málum sem varða brottkast og ég vil að ráðherra setji enn frekari reglur um þessi mál en gert er og skapi möguleika á því að koma með meðafla að landi. Það er mjög brýnt að meðafli fái að koma með í land og menn séu ekki svona háðir því eins og þeir eru að koma aðeins með verðmætasta fiskinn að landi. Þetta eru nokkur atriði sem ég vil taka undir í frv. til laga um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum.

Atriðin sem fjalla um ákvæði til bráðabirgða í 6. gr. eru ákvæði sem ég vil gjarnan horfa á og tel að allt sem getur orðið til að bæta það kerfi sem við búum við nú eigi að vera til umræðu og skoðunar.

Ég tek einnig undir frv. til laga, sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er flutningsmaður að, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, 189. mál. Þar tek ég sérstaklega undir 2. gr. þar sem verið er að afla réttinda fyrir sjómann sem hefur verið á fiskiskipi eða skráður á skip í 20 ár til að hann hafi eitthvert leyfi til að stunda veiðar með handfærum eftir að starfsævi til sjós er lokið eða þegar menn eru hættir eftir 20 ára starf á sjó hafi menn öðlast einhver réttindi.

Ég tek einnig undir 3. gr. þar sem fjallað er sérstaklega um línutvöföldunina vegna þess að ég tel að afnám línutvöföldunarinnar hafi verið eitthvert mesta glapræði sem við gerðum á því sviði. Ég tel að vertíðarbátarnir sem höfðu línutvöföldunina þar sem beitt var í landi ættu að hafa hana áfram.

Ég vil segja þetta, herra forseti, almennt um þessi frumvörp sem ég hafði á orði áður.

Að undanförnu hefur verið sagt að veiðistjórnunarkerfi Íslendinga sé eitt það besta í heimi. Þeir sem þetta segja eru helst þeir sem njóta stjórnunarháttanna sem notaðir eru og það virðist því miður gleymast sem miður fer. Nú er verið að gera tilraun með þessum umræðum og þessum frumvörpum og þál. til þess að gera úrbætur í þeim málum.

Ég vil segja að á starfstíma kerfisins sem er ættað frá sjávarútvegsráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar hefur margt komið í ljós, e.t.v. einhverjir kostir en vissulega margir áberandi gallar og ég held, herra forseti, að ástæða sé til að fara nokkrum orðum um galla kerfisins. En hverjir eru þeir? Þeir eru eftirfarandi:

Grálúðustofninn, einn verðmætasti fiskurinn í dag, einn verðmætasti fiskurinn sem finnst, er upp veiddur. Það mun taka 15 ár að byggja upp þann stofn svo að hann nái afrakstursgetu. Vegna hvers er þetta? Þetta er vegna þess að stjórnarkerfið sem við höfum notað hefur boðið upp á þetta ásamt aðlægum vandamálum sem eru aðrir aðilar sem nýta stofninn.

Ufsastofninn er í mikilli lægð vegna ofveiði og það mun taka langan tíma að hann skili þeirri veiðigetu sem var á árunum 1960--1980.

Lúðu hefur verið eytt í Faxaflóa. Það fæst ekki eitt einasta lúðulok í Faxaflóa og ég veit ekki hve langan tíma tekur að bæta það. Smálúða og lúða var algeng í afla línubáta og í dragnót en er gersamlega horfin í Faxaflóa. Af hverju er það? Það er út af veiðistjórnarkerfinu. Þessa hluti erum við að bæta.

[17:00]

Ég nefni til viðbótar ástandið í karfastofninum sem er mjög alvarlegt. Mönnum virðist ekki vera ljóst að þeir eru að drepa fisk sem tekur meira en áratug að verða kynþroska. Þessi stofn hefur um árabil verið ofveiddur á got- og getnaðartíma meðan þorskstofninn naut verndar. Höfum við verið að gera rétt? Er ekki ástæða til að skoða þessi mál öll í einu? Við erum að reyna að vernda lífríkið en á sama tíma gerum við þessa hluti.

Ýsustofninn er í lægð núna og þar hafa veiðiheimildir verið minnkaðar verulega.

Og hver man ekki eftir blálöngunni á Franshól sem allir ætluðu að ná á stuttum tíma og átti að fiska ár eftir ár? Blálangan er horfin. Árangur fiskveiðistjórnarkerfis, vil ég segja. Á þessu verður að taka. Það hlýtur að vera alvarlegur ágalli á veiðistjórnarkerfi sem hefur leitt framantalið af sér ef ég er að fara með rétt mál. Og ég segi: Ef einhver telur sig geta afsannað það sem ég hef verið að segja, þá skora ég á viðkomandi að hrekja það og það með rökum.

Herra forseti. Oft hefur verið sagt að það beri að hlíta ráðum fiskifræðinga hvað varðar veiðar við Ísland. Þau ráð hafa reyndar ekki alltaf verið í heiðri höfð. Það er svo að okkar ágætu fiskifræðingum hefur líka skjöplast og versta dæmið sem ég man eftir og vil nefna var þegar þorskveiðar voru leyfðar í nót og þorskstofninn hvarf af Selvogsbanka. Bara þetta. Nú er ég búinn að telja upp sex fiskstofna sem hafa farið alvarlega illa út úr fiskveiðistjórn og ráðleggingum. Er ekki ástæða til að doka við og skoða hvernig þetta er?

Ég velti því fyrir mér hvað sé í rauninni að gerast í dag? Allir vita það en flestir þegja. Og ef einhver talar þá heyra stjórnvöld hvorki né sjá. Það er erfitt að þurfa að segja svona. Það sem ég á við er að nánast enginn fiskur er hirtur á netavertíð nema hann sé 8 kg að þyngd eða meira. Því til dæmis vil ég nefna að ég fór ásamt fleirum í fiskverkanir á Suðurnesjum sl. vetur, frá Grindavík í Voga, og þar var enginn fiskur sjáanlegur undir 8 kg. Af hverju? Vegna hvers? (Gripið fram í: Það veit ég ekki um.) Og þegar maður spurði um smáfisk, var svarið: ,,Hann kemur ekki í netin. Þau eru svo stórriðin.`` Það þýðir nú lítið að segja mér það sem hef verið með net að möskvastærð upp í 10,5 tommur því það kemur smáfiskur allt að 20% í þau net. Það þarf því ekki að segja mér neitt um það að þeim fiski, þessum 20% eða allt að því, er hent í sjóinn aftur steindauðum og engum til gagns. (Gripið fram í: Hann er búinn að læra á ...) Já, sennilega vita þeir það þessir litlu að þeir eiga ekki að fara í 10,5 tommu möskvann. Sennilega vita þeir það þessir 8 kg þorskar að þeim er bara ætlað að fara í þessi ákveðnu net.

Ég held að ástæða sé til að ræða um tæknivæðinguna. Á sama tíma og menn hafa verið að minnka þorskveiðikvótann hefur átt sér stað mikil tæknibylting. Skipin hafa stækkað, vélaraflið hefur aukist og í sumum tilvikum margfalt. Veiðarfærin eru margfalt stærri en t.d. á milli áranna 1960 og 1975. Mælabúnaður svo sem eins og fiskleitartæki eru mjög nákvæm og fullkomin. Stærð flottrolla sem er nýtt veiðarfæri frá liðnum áratug er óhugnanleg. Ég segi að hún sé óhugnanleg. Skipin eru svo öflug að þau geta dregið tvö troll hraðar en síðutogararnir drógu smábleðla á þeim tíma. Sumir telja sig hafa verið að byggja upp og auka fiskvernd. Og ég held ég verði kannski að viðurkenna eitt, að einhvern veginn hefur hagkvæmni aukist í kjölfar þessarar tæknibyltingar. En ég er ekki viss um að það sé vegna veiðistjórnarinnar sem veiðin hefur aukist. Veiðisvæði íslenskra skipa hefur margfaldast og líklega á það mestan þátt í aukningu veiðanna. En þrátt fyrir það hefur verið gengið óhugnanlega á þá stofna sem ég nefndi í sex liðum hér rétt áðan.

Mig langar, herra forseti, að gera að lokaorðum mínum nokkrar hugsanir um áhrif afnáms tvöföldunar í línuafla. Ég tel og taldi eins og ég sagði áðan að þar hafi verið gerð mistök. Menn gerðu mistök að gera það í svona miklum mæli eins og gert var. Það er allt annað mál að þessi réttur yrði afnuminn af þeim skipum sem voru með beitningarvélar um borð en ekki vertíðarbátaflotanum sem rær með línu úr landi. Það eru þrjú ár síðan þessi lög um tvöföldun voru afnumin, þ.e. á þessu ákveðna tímabili sem náði yfir hluta haustsins og vetrarvertíðar. Og ég vil segja, án þess að rifja nákvæmlega upp hverjir það voru, að einstökum aðilum var færður í hendur veiðiréttur sem nemur milljónum og tugum milljóna og einstaka aðilar stefndu ljóst og leynt að því á ákveðnu tímabili að afla sér eins mikilla viðmiðunarheimilda og þeir gátu vitandi vits að þeir vildu síðan afleggja línutvöföldunina. Þessir aðilar gerðu sumir út báta með beitningarvélum og sóttu fast. Þessir sömu aðilar áttu þá tvo og upp í fimm báta meðan þeir voru að sækja sér veiðiheimildirnar. Hvað eiga þeir nú? Þeir færðu þær síðan yfir á færri skip. Dæmin eru þannig að veiðiheimildir hafa verið fluttar á milli skipa eða heimildir jafnvel seldar og sjómönnum hefur fækkað í nafni hagræðingar. Þetta er vitað og hægt er að nefna einstök dæmi, t.d. þar sem útgerð var með fimm báta til að afla sér veiðiréttindanna. Þegar svo var komið að afnám línutvöföldunar gekk í garð voru skipin allt í einu orðin tvö. Þetta eru þekkt dæmi og þetta eru alvarleg dæmi.

Ég held að alvarlegasta dæmið sé að aflinn hefur ekki komið í land eða að við erum búin að gleyma fiskvinnslunni. Þeir sem stunduðu veiðar með línu og reru úr landi með beitta línu á hefðbundinn máta gjalda núna fyrir og hafa miklu minna úr að spila. Þar að auki sitja margar smærri vinnslur sem keyptu línufisk uppi með vannýtt húsnæði. Fólkið er færra og fiskarnir eru færri og þessar útgerðir skrimta varla eða tæplega. Ég tel að þarna hafi verið gerð mistök sem við þurfum, herra forseti, að laga. Þetta er m.a. það sem ég vil leggja inn í þessa umræðu sem hér hefur verið og í mörgum góðum málum sem ég tel að sé ástæða til að skoða.