Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 23. febrúar 1998, kl. 17:07:58 (4154)

1998-02-23 17:07:58# 122. lþ. 73.9 fundur 189. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar, veiðiskylda, krókaveiðar o.fl.) frv., 236. mál: #A stjórn fiskveiða# (brottfall laga) frv., 252. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Hafrannsóknastofnun o.fl.) frv., 263. mál: #A ráðstafanir í sjávarútvegsmálum# (breyting ýmissa laga) frv., 269. mál: #A áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins# þál., 308. mál: #A rannsókn á áhrifum dragnótaveiða# þál., 487. mál: #A stjórn fiskveiða# (frysti- og vinnsluskip) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 122. lþ.

[17:07]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Gísli S. Einarsson mælti fyrir till. til þál. sem hann flytur ásamt fleiri þingmönnum af Vesturlandi um rannsókn á áhrifum dragnótaveiða. Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að mér fannst að hv. þm. hefði þurft að gera skýrari grein fyrir þeim rökum sem færð eru fyrir þessum tillöguflutningi. Mér fannst þau ekki koma nógu skýrt fram hjá hv. þm. Hann eyddi mestu af tíma sínum í að mæla gegn því kerfi fiskveiðistjórnar sem við búum við í dag og blandaði svo inn í það breytingu á línutvöföldun sem bragðbæti á þá gagnrýni vegna þess að það virðist vera mjög vinsælt hjá þeim sem eru andstæðingar kvótakerfisins að fordæma þá ákvörðun.

Ég vildi heyra skýrari rök fyrir því sem hann telur, að dragnótaveiðar séu mikill skaðvaldur, ekki síst í ljósi þess að í Breiðafirði þar sem hefur verið töluvert mikil dragnótaveiði, er feiknalega mikil þorskgengd um þessar mundir og svo mikill afli að þar hafa menn fiskað betur en oft áður og mér finnst að það sé ekki í samræmi við það sem hv. þm. lætur hér liggja að. Hins vegar tel ég að það sé af hinu góða að rannsóknir séu stundaðar á áhrifum einstakra veiðarfæra og dragnótaveiðin eigi alls ekki að vera þar undanskilin.