Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 23. febrúar 1998, kl. 17:12:25 (4156)

1998-02-23 17:12:25# 122. lþ. 73.9 fundur 189. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar, veiðiskylda, krókaveiðar o.fl.) frv., 236. mál: #A stjórn fiskveiða# (brottfall laga) frv., 252. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Hafrannsóknastofnun o.fl.) frv., 263. mál: #A ráðstafanir í sjávarútvegsmálum# (breyting ýmissa laga) frv., 269. mál: #A áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins# þál., 308. mál: #A rannsókn á áhrifum dragnótaveiða# þál., 487. mál: #A stjórn fiskveiða# (frysti- og vinnsluskip) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 122. lþ.

[17:12]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. vill ekki gera mikið úr því að þetta beinist sérstaklega að dragnótaveiðunum eða látið sé að því liggja með þessari tillögu að dragnót geti verið meiri skaðvaldur en önnur veiðarfæri. Ég tel samt að ýmsir líti svo á að tillagan feli það í sér. En ég vil leggja á það áherslu, ekki síst vegna orða hv. þm., að stundaðar séu rannsóknir á áhrifum einstakra veiðarfæra, að það sé mjög mikilvægt og að þar sé spjótunum ekki einungis beint að einu veiðarfæri sérstaklega. Ég tel að ekkert hafi bent til þess að dragnótaveiðar hafi verið skaðlegar t.d. í Breiðafirðinum. Það má vel vera að á öðrum svæðum sé það þannig að of nærri hafi verið gengið eins og í Faxaflóa. Það kann vel að vera. Það er nauðsynlegt að rannsaka þetta allt saman.

Vegna þess að hv. þm. tengdi saman fiskveiðistjórnarkerfið og það að einhverjir stofnar hafi minnkað, þá held ég að það sé nauðsynlegt að draga það skýrt og greinilega fram að auðvitað var farið í miklar friðunaraðgerðir gagnvart þorskinum og það hefði aldrei tekist nema vegna þess að þessu fiskveiðistjórnarkerfi var beitt. Við getum ekki blandað því svo aftur saman við það hvernig einstaka útgerðarmenn fara með þessar heimildir sínar. Hv. þm. benti réttilega á að þar eru til dæmi um að pottur sé brotinn. En við megum ekki dæma kerfið úr leik vegna þess heldur taka á þeim tilteknu málum.