Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 23. febrúar 1998, kl. 17:14:50 (4157)

1998-02-23 17:14:50# 122. lþ. 73.9 fundur 189. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar, veiðiskylda, krókaveiðar o.fl.) frv., 236. mál: #A stjórn fiskveiða# (brottfall laga) frv., 252. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Hafrannsóknastofnun o.fl.) frv., 263. mál: #A ráðstafanir í sjávarútvegsmálum# (breyting ýmissa laga) frv., 269. mál: #A áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins# þál., 308. mál: #A rannsókn á áhrifum dragnótaveiða# þál., 487. mál: #A stjórn fiskveiða# (frysti- og vinnsluskip) frv., Flm. GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 122. lþ.

[17:14]

Flm. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að við hv. þm. Sturla Böðvarsson erum kannski í grunnatriðum sammála. Í þáltill. sem hér er verið að fjalla um er hvergi sagt að dragnót sé skaðleg heldur að margir telji að dragnót geti verið skaðleg.

Það hafa verið sett fram mörg rök sem styðja bann við dragnótaveiðum en svo eru líka sett fram önnur rök sem mæla með þeim. Það er engin leið að fá úrskurð í þessu máli nema rannsókn fari fram. Þjóð sem telur sig vera til fyrirmyndar í fiskveiðistjórn verður að láta fara fram ítarlegar rannsóknir til að aflétta vafa varðandi þessa tegund fiskveiða sem og annarra. Það má minna á að dæmi voru um að menn réttlættu veiðar á þorski í nót, eins og ég sagði rétt áðan, á sínum tíma og töldu þær vera til bóta. Það má aldrei gerast aftur. Það er líka nauðsynlegt að fá svar við því af hverju lúða er horfin úr afla í Faxaflóa. Er það vegna línubátanna? Er það vegna trollbátanna? Er það vegna dragnótabátanna? Hver á sök? Hvers vegna er lúðan horfin? Er það rangt hjá mönnum sem hafa stundað veiðar með dragnót í mörg ár, að halda því fram að uppvaxtarskilyrði séu hvað best við Faxaflóa og þar séu uppvaxtarsvæði fyrir smálúðu eða fyrir lúðu?

Það var þekkt áður að snurvoðarbátar komu með allt að tveimur tonnum á dag af lúðu en núna sést þessi tegund ekki frekar en í afla smábáta. Ég held því stíft fram að þeir stofnar sem ég taldi upp áðan, grálúðustofninn, ufsastofninn, lúðan, smálúðan í Faxaflóa, karfastofninn, ýsustofninn og blálangan hafi liðið fyrir fiskverndarkerfi okkar eða fiskveiðistjórnarkerfi. Því miður er það svo, herra forseti. Svona hefur þetta gerst. Þetta eru mistök sem við eigum möguleika á að laga og því eigum við að standa saman að þeirri lagfæringu.