Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 23. febrúar 1998, kl. 17:17:20 (4158)

1998-02-23 17:17:20# 122. lþ. 73.9 fundur 189. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar, veiðiskylda, krókaveiðar o.fl.) frv., 236. mál: #A stjórn fiskveiða# (brottfall laga) frv., 252. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Hafrannsóknastofnun o.fl.) frv., 263. mál: #A ráðstafanir í sjávarútvegsmálum# (breyting ýmissa laga) frv., 269. mál: #A áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins# þál., 308. mál: #A rannsókn á áhrifum dragnótaveiða# þál., 487. mál: #A stjórn fiskveiða# (frysti- og vinnsluskip) frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 122. lþ.

[17:17]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum ákaflega viðurhlutamikil mál, sem er stjórn fiskveiða, ekki bara vegna þess að um er að ræða margar tillögur og í margvíslegu formi, bæði þáltill. og enn fremur ýmis frv., heldur líka það að verið er að taka á mjög mörgum þáttum sem hafa verið mikið í umræðunni og er nauðsynlegt að reyna að kryfja til mergjar.

Þegar þessar tillögur eru lesnar yfir, sem ég verð að vísu að játa að ég hef ekki kafað mjög djúpt í, sé ég að þær eru greinilega fluttar á mjög mismunandi tímum. Síðan þær komu fram hafa ýmsir hlutir gerst. Á Alþingi hafa verið afgreiddar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem taka sumpartinn af mönnum ómakið varðandi það sem hér liggur fyrir en líka hitt að það virðist eins og sumar tillagnanna séu kannski ekki beinlínis í mótsögn hver við aðra en nálgast hlutina á mismunandi vegu skulum við segja. Út af fyrir sig er heldur ekkert óeðlilegt þrátt fyrir að við séum að ræða þetta í einu slengi, heldur vegna þess að þetta eru tillögur sem eru fluttar eins og ég sagði áðan, á mismunandi tímum og eru kannski tilraun með ýmsum hætti til að nálgast verkefnið og kanna hversu langt sé hægt að ganga til að koma til móts við tiltekin grundvallarsjónarmið sem búa að baki.

Ég tel að í frv. og þeim tillögum sem liggja fyrir séu ýmis mjög athyglisverð mál færð fram og athyglisverðar ábendingar sem er fyllsta ástæða til að taka af mikilli alvöru. Við þekkjum að mikil óánægja er í gangi með ýmislegt í framkvæmd núverandi fiskveiðistefnu. Og hvaða afstöðu sem menn hafa til grundvallaratriða í þessari fiskveiðistefnu er ekki hægt að horfa fram hjá því að á grundvelli núverandi fiskveiðistefnu er einnig mjög margt sem er öðruvísi í framkvæmd hennar og afleiðingum en menn hugðu þegar verið var að leiða hugmyndirnar í lög. Ég held því að það sé mjög gott að við ræðum málin og ég tek undir það sem hv. formaður sjútvn. sagði áðan að þetta er auðvitað mál af því taginu að við hljótum stöðugt að fjalla um þau og taka þau til endurskoðunar í ljósi breyttra aðstæðna. Fyrir utan það held ég að mjög margt mæli með því að við beitum ekki eingöngu einni gerð fiskveiðistjórnar við að stjórna fiskveiðum hér á landi.

Ég tek undir það sem hefur verið sagt víða á alþjóðlegum vettvangi í þessum efnum að ég tel miklu skynsamlegra að reyna að horfa á þetta með öðrum hætti en hefur oft og tíðum verið gert og kanna sérstaklega hvort ekki sé eðlilegt að beita mismunandi aðferðum við stjórn fiskveiða eftir því hvað um er að ræða í þessu sambandi. Við sjáum til að mynda í hendi okkar að veiðar á uppsjávarfiski á tæknivæddum flota og veiðar hjá frystiskipum eiga ekki mjög mikið sameiginlegt með veiðum strandveiðiflotans eða minni bátanna með kyrrstæðum veiðarfærum og þar fram eftir götunum. Það er því ekki óeðlilegt að við beitum mismunandi aðferðum við fiskveiðistjórn og þannig hefur þetta verið, t.d. varðandi smábátaflotann, að við höfum beitt þar öðrum aðferðum en við aðra stjórn á fiskveiðum. Ég tel því, virðulegi forseti, að m.a. af þeim ástæðum sé mjög mikilvægt fyrir okkur að ræða þessa hluti með opnum huga.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Gísli S. Einarsson sagði áðan að auðvitað hafa orðið mörg og margvísleg mistök við fiskveiðistjórnina. Við sjáum að okkur hefur gengið mjög illa þrátt fyrir allt með uppbyggingu ýmissa fiskstofna, þrátt fyrir að við höfum reynt að rembast markvisst við að stjórna veiðunum. Við sjáum t.d. það sem hefur gerst í karfastofninum. Þar var beitt mjög stórtækum veiðarfærum, flottrollinu, á þessar veiðar til að reyna að ná úthafskarfanum. Ekki fer milli mála að mati mjög margra þeirra sem hafa stundað veiðarnar að þetta hefur haft áhrif á aðra karfastofna í landinu. Við höfum rætt þetta nokkrum sinnum í þinginu, m.a. að frumkvæði mínu og það verður að segjast eins og er að svörin við spurningum sem hafa vaknað um veiðarnar hafa verið mjög óljós. Þar endurspeglast kannski að þetta mál er mjög margslungið og flókið og ekki einfalt fyrir okkur, síst okkur leikmenn, að komast að niðurstöðu um eða átta sig á því um hvað þarna er að ræða.

Síðan er hitt sem ég held sjálfur, virðulegi forseti, að skipti gríðarlega miklu máli og sé atriði sem við hljótum að reyna að ræða miklu meira og það er í grundvallaratriðum: Er sú stefna rétt sem hefur verið framfylgt á undanförnum árum að beina sókninni, til að mynda í þorskinum, í elstu stofnana sem vísindi hafa sýnt okkur fram á að eru þeir hlutar þorskstofnsins sem eru líklegastir til að skila árangursríkri hrygningu? Hjá vísindamönnum við Hafrannsóknastofnun hefur komið fram að hrygning úr eldri árgöngum er miklu líklegri til að skila okkur árangri en hrygning úr yngri árgöngum. Engu að síður hefur kvótakerfi okkar leitt til þess að við beinum veiðunum eðli málsins samkvæmt meira í þessa árganga þorskstofnsins sem gerir það væntanlega þá að verkum, virðulegi forseti, að þessir árgangar eru síður líklegir til að geta staðið undir hrygningunni, undir framtíðarnýliðuninni í þorskstofninum. Í þessu sambandi hlýt ég m.a. að vekja athygli á mjög athyglisverðum greinum eftir Sveinbjörn Jónsson í Súgandafirði sem hefur kynnt sér málið mjög ítarlega og átt miklar og langar viðræður við ýmsa af forsvarsmönnum Hafrannsóknastofnunar og enn fremur kynnt slík mál á alþjóðlegum vettvangi. Ég held að það sé ómaksins vert og miklu meira en það fyrir okkar góðu vísindamenn að kafa ofan í fullyrðingar af þessu tagi, því að ef þetta er rétt erum við á þvílíkum villigötum að það er miklu alvarlegra en orð fá lýst.

Þetta vildi ég segja almennt um þessi mál. Þess vegna tel ég að allar spurningar sem við erum að velta upp um fiskveiðistjórnarkerfið séu mjög þýðingarmiklar og við eigum að reyna að svara þeim eftir bestu getu.

Gert er ráð fyrir því í einu af þessum frv. að opnað sé á að menn hafi eins konar löndunarbónus við að leggja á land afla til vinnslu innan lands. Þessari hugmynd hefur oft skotið upp kollinum og er réttilega vikið að því í fskj. 2 að fiskiþingið á sl. ári og reyndar þar á undan líka, að mig minnir ályktaði um þetta, og ég held að þetta sé mjög athyglisverð hugmynd. Ég er að vísu ekki endilega viss um að talan 75% sem þarna er nefnd sé það sem við eigum að skoða, en ég held að heilmörg rök séu með því að útbúa einhvern hvata fyrir því að afla sé landað til vinnslu innan lands. Í fyrsta lagi hlýt ég að vekja athygli á því að árum saman og ég held alveg frá upphafi kvótakerfisins hafa verið í gildi reglur sem hafa verið torveldandi í þá átt að menn flytji ísvarinn og óunninn fisk til útflutnings á erlenda markaði. Sérstakt útflutningsálag sem ég þekki að margir útgerðarmenn hafa verið mjög ósáttir við sem við vitum að hefur verið sett upp til þess að reyna að stuðla fremur að því að þessi afli fari til vinnslu innan lands en á erlenda markaði ísvarinn og óunninn. Þess vegna er ekki óeðlilegt í sjálfu sér að við beitum þessari hugsun þá á þennan veg líka að hvetja til þess að afli sé unninn innan lands en að hann fari á erlenda markaði eða til vinnslu úti á sjó.

Margoft hefur verið bent á að staða landvinnslunnar gagnvart sjóvinnslunni er á margan hátt ójöfn. Á sínum tíma var gerð úttekt á þessu á vegum sjútvrn. sem leiddi þetta í ljós og auðvitað stingur mjög í augu, og nú er rétt að vera ekki að fullyrða um ástæðurnar, þegar menn skoða annars vegar afurðir hefðbundinnar fiskvinnslustöðvar sem vinnur úr þorski og hins vegar afurðir frystiskips, sem er á þorskveiðum, og tökum síðan dæmi af fiskvinnslustöð sem er að vinna grálúðu og síðan frystiskip sem er að fiska grálúðu, að afurðirnar eru gjörólíkar. Frystitogararnir koma að landi með grálúðu eingöngu unna á Japansmarkað og kannski Suðaustur-Asíu en ekki grálúðuflök. Hver er ástæðan? Svari þeirri spurningu hver sem vill og eftir bestu getu því að það er auðvitað ábyrgðarhluti að vera með tilgátur úr þessum ræðustóli sem er ekki hægt að standa við að öllu leyti.

Ef við skoðum afurðir þorskveiðiskipanna, frystiskipanna, gerist nákvæmlega það sama og því tel ég, virðulegi forseti, að ekkert óeðlilegt sé við að við reynum að jafna þessi starfsskilyrði með því að láta það virka hvetjandi fyrir útgerðir í landinu sem vilja landa til vinnslu innan lands. Ég hefði talið að það væri eðlilegt svona fyrsta kastið að beina þessu fyrst og fremst að þorskveiðinni. Ég geri mér ekki nákvæmlega grein fyrir því hve mikill hluti af þorskinum fer núna til vinnslu innan lands en ég hefði t.d. talið að það væri ágæt byrjun í þessu sambandi að kanna áhrifin af því að veita eins konar 10% fiskvinnslubónus fyrir skip sem stunda þorskveiðar og landa innan lands. Það mundi síst af öllu valda neinni röskun á heildarúthlutun og væri mjög fróðlegt að vita hvernig það hefði áhrif á stöðu fiskvinnslunnar sem ég held að sé mjög mikilvægt fyrir okkur að efla, m.a. í ljósi þess að fiskvinnslan í landinu stendur undir því byggðamynstri sem við viljum reyna að viðhalda og efla í landinu.

Þetta vildi ég segja í þessu sambandi, virðulegi forseti, og vekja athygli á málinu. Ég tel t.d. að þessi aðferð sé miklu heppilegri og eðlilegri en sú útfærsla sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er með í öðru frv., 3. gr. frv. sem er 189. mál þingsins, þar sem fyrst og fremst er verið að hvetja til að sá afli sem veiddur er á línu og handfæri á dagróðrarbátum komi til sérstakrar meðhöndlunar. Ég held að ekki sé mjög heppilegt að beina þessu sérstaklega að einu eða tveimur veiðarfærum. Við getum séð að annar útgerðarmáti kunni ekkert síður að eiga þátt í að efla stöðu fiskvinnslunnar og ég geri ráð fyrir að það sé það sem búi hér að baki að reyna fremur að styrkja stöðu landvinnslunnar, fiskvinnslunnar á landsbyggðinni.

Ég vildi aðeins með örfáum orðum nefna eitt sem er spurningin um skattlagningu söluhagnaðar á móti auðlindagjaldi sem kemur líka fram í frv. sem hér er til umræðu, þ.e. frv. til laga um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum. Ég held, virðulegi forseti, að þetta sé miklu eðlilegri nálgun á því vandamáli sem er á margan hátt uppi í sjávarútvegi okkar og hv. 1. flm. Steingrímur J. Sigfússon gerði grein fyrir í máli sínu áðan. Ég held með öðrum orðum að þetta sé miklu rökréttara svar við því sem hefur verið hin raunverulega gagnrýni á ýmislegt af því sem hefur verið að gerast í sjávarútvegsmálunum. Það er augljóslega algjör mótsögn í því fólgin að ætla sér að leggja auðlindagjald á þá sem eftir starfa í atvinnugreininni vegna þess að menn eru óánægðir með að menn geti farið út úr greininni með fullar hendur fjár.

[17:30]

Það er eins og verið sé að refsa Jóni fyrir það sem Páll gerir. Maður sem er að sigla út úr greininni með peningana þarf ekkert að hafa áhyggjur af því hvort auðlindagjald verði lagt á, það kemur slíkum manni ekkert við. Það kemur þeim hins vegar við sem eftir stendur í greininni og þarf að bera þetta gjald. Þess vegna held ég að hugsun af þessu tagi sé miklu skynsamlegri og auðvitað var á vissan hátt verið að koma til móts við hugsun af þessu tagi þegar við breyttum lögunum fyrir áramótin varðandi fyrningar á aflaheimildum, sem gerir það að verkum að möguleikarnir til að mynda slíkan ofsagróða vegna verðlagningar á aflaheimildum voru mjög takmarkaðir frá því sem var. Það var auðvitað mjög veigamikið skref.

Virðulegi forseti. Það væri vissulega hægt að ræða um þessi mál mjög ítarlega vegna þess að þetta eru mál sem eru þess eðlis að þau kalla á mikla umræðu. Ég vil aðeins með örfáum orðum nefna það sem hér er líka verið að leggja til, þ.e. rannsóknir á áhrifum mismunandi veiðarfæra. Ég held að þetta sé stúdía sem mikið er eftir að vinna í. Ég var staddur á fundi ásamt nokkrum fleirum hv. þingmönnum, m.a. hv. þm. Gísla S. Einarssyni og Guðjóni Guðmundssyni, sem báðir flytja tillögu varðandi snurvoðina, dragnótina, á Akranesi fyrir jólin sem Fiskifélagið efndi til. Þar kom fram að að þeirra mati væri hægt að fá mörg af þeim svörum sem verið er að kalla eftir, bæði í tillögu hv. þm. og enn fremur í tillögu þeirri sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson mælti fyrir, með því að safna saman á tiltölulega einfaldan og ódýran hátt þeim upplýsingum sem þegar liggja fyrir erlendis um þessi mál. Við vitum að í umræðunni úti um allan heim eru menn að velta fyrir sér samspili í lífríkinu og áhrifum mismunandi veiðarfæra og þar fram eftir götunum. Ég held því, virðulegi forseti, að ekki sé endilega þörf á að fara í sjálfstæðar, viðurhlutamiklar rannsóknir sem kosta mikla fjármuni, sem ekki er allt of mikið af hjá Hafrannsóknastofnun. Ég held þess vegna að miklu skynsamlegra sé í fyrstu að kanna hvaða upplýsingar liggja nú þegar fyrir og fara þá í skipulega gagnaöflun af því taginu og reyna að kortleggja þetta mál. Við vitum að þetta er alls ekki einfalt mál.

Á fundinum á Akranesi kom fram t.d. það sjónarmið frá dragnótarmönnum að dragnótarveiðin færi fram á ákaflega afmörkuðum svæðum í Faxaflóanum. Þeir bentu líka á að umræða af þessu tagi hefði skotið upp kollinum fyrr á öldum þegar fyrst var verið að innleiða netaveiðarnar. Við megum auðvitað ekki, þó að við viljum reyna að ganga vel um lífríki hafsins, ganga svo langt að við torveldum eða komum í veg fyrir eðlilegar framfarir í gerð veiðarfæra og þar fram eftir götunum. Ég held því að þetta sé umræða sem er ómaksins verð en við ættum kannski að reyna að stytta okkur leið með því að kalla eftir upplýsingum sem þegar eru til staðar erlendis.

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins að lokum koma inn á mál sem hv. formaður sjútvn. nefndi áðan, sem er að mínu mati mjög alvarlegt mál sem við stöndum frammi fyrir einmitt á þessari stundu. Það er sú staða sem hugsanlega getur blasað við og komið upp --- og er raunar skoðun margra þeirra sem stunda loðnuveiðar um þessar mundir --- að við náum ekki að veiða útgefnar aflaheimildir í loðnu. Ástæðan er sú að þegar loðnuveiðarnar hófust eftir hið skamma verkfall átti eftir að veiða um 440 þús. tonn af úthlutuðum loðnukvóta eða þar um bil.

Burðargeta flotans er u.þ.b. 45 þús. tonn ef allir fylltu sig á sama tíma. Það þýðir að þessi floti, ef hann ætti að klára útgefnar heimildir, mundi fara með tíu fullfermi á næstu vikum. Það er skoðun þeirra skipstjórnarmanna sem ég hef rætt við um þessi mál að þetta sé gjörsamlega útilokað. Við getum sem sagt lent í því, eins og málin standa núna, að skilja eftir í sjónum ótöluleg verðmæti sem verða engum til gagns. Það virðist með öðrum orðum veruleg hætta á því að kvótinn náist ekki, ekki vegna þess að ekki sé til heilmikil veiðigeta í flotanum, heldur vegna þess að ýmsir þessara báta eiga eftir litlar heimildir og er gert að spara þær eins og þeir geta, eru að fiska með litlum afköstum, taka í sig smáslatta, tvö, þrjú, fjögur, fimm hundruð tonn, bátar sem bera kannski vel yfir þúsund tonn, vegna þess að þeim er gert að koma með þetta í frystingu. Hættan er sú að við skiljum eftir heilmikil verðmæti í sjónum sem ekki nýtast okkur.

Á sama tíma eru vinnslustöðvar hálfverkefnalausar víða um landið sem gætu annað þessu hráefni og skipin gætu beitt sér með meiri krafti. Þess vegna vil ég segja það, virðulegi forseti, sem mína skoðun að eðlilegast væri, ef þetta er rétt mat sem skipstjórnarmenn eru að segja, að heimila frjálsar veiðar á loðnunni og reyna að klára og sjá til þess a.m.k. að sú úthlutun kláraðist.

Ef menn hins vegar óttast það, sem ég hef að sjálfsögðu engan beyg af, að þetta þýði slíka röskun á fiskveiðistjórnarkerfinu að óbætanlegt sé, sem að mínu mati er auðvitað fráleit viðbára, þá væri út af fyrir sig hægt að heimila einfaldlega meiri veiðar þannig að þeir bátar sem núna hafa litlar heimildir fengju nægar heimildir til þess að geta beitt sér að fullu. Ég veit að Hafrannsóknastofnun telur að engar fiskifræðilegar forsendur séu til þess. Því miður hefur ekki tekist að gera frekari mælingar eða ná árangri í frekari mælingum þó að menn hafi virkilega verið að reyna það. Þeir telja að erfitt sé að koma við slíkri viðbótarúthlutun á grundvelli mælinga. Þess vegna tel ég að einfaldast væri að gefa þessar veiðar frjálsar. Hættan er nefnilega sú að stjórnkerfið í sjálfu sér kunni að virka gegn eigin markmiðum, sem eru þau, að nýta sem best þessa auðlind á hagkvæman hátt. Það er mjög alvarlegur hlutur. Stjórnkerfið má auðvitað ekki hafa sjálfstætt líf án tillits til þess hvaða tilgangi það á að þjóna. Ef menn sjá fram á að þær aðstæður eru uppi að stjórnkerfið í sjálfu sér hamli því að við náum þessum miklu verðmætum, sem markmiðið er að ná og við eigum auðvitað að ná, þá verðum við að gera þær breytingar sem gera það kleift að við getum náð þeim afla sem allir stefna á. Okkur er vissulega ljóst að um er að ræða ákaflega dýrmætan tíma. Það er einfaldlega svo að þegar loðnuveiðin stendur yfir þá stendur hún yfir í skamman tíma og það þarf að bregðast hratt og ákveðið við. Þess vegna vil ég, virðulegi forseti, láta það koma fram sem mitt sjónarmið að reyna eigi eftir öllum tiltækum ráðum að tryggja það að við náum þeim afla með frjálsum veiðum það sem eftir er.