Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 23. febrúar 1998, kl. 18:11:08 (4167)

1998-02-23 18:11:08# 122. lþ. 73.9 fundur 189. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar, veiðiskylda, krókaveiðar o.fl.) frv., 236. mál: #A stjórn fiskveiða# (brottfall laga) frv., 252. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Hafrannsóknastofnun o.fl.) frv., 263. mál: #A ráðstafanir í sjávarútvegsmálum# (breyting ýmissa laga) frv., 269. mál: #A áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins# þál., 308. mál: #A rannsókn á áhrifum dragnótaveiða# þál., 487. mál: #A stjórn fiskveiða# (frysti- og vinnsluskip) frv., Flm. KHG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 122. lþ.

[18:11]

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni og þakka fyrir þær undirtekir sem í dag hafa fengist við frv. þeim sem mælt hefur verið fyrir. Í máli ræðumanna kom fram ýmislegt umhugsunarvert og annað sem ástæða er til að taka undir.

Ég vil taka undir það sem fram kom hjá hv. 1. þm. Vestf. að það er ástæða til að undirstrika það að stjórn fiskveiða hlýtur alltaf að hafa þann tilgang að treysta stöðu fiskstofnanna og sjá til þess að veiðarnar fari skynsamlega fram. Þær geta aldrei verið aðalatriði í sjálfu sér. Markmiðið er því ekki að búa til ósveigjanlegar reglur sem eigi að gilda um aldur og ævi burt séð frá því hvernig aðstæður þróast í hafinu. Ég held að sú áminning sé þörf að núverandi kvótakerfi sé ekki varanlegur veruleika sem blífa muni um aldur og ævi. Þvert á móti er líklegra að þeim reglum sem stuðst er við í dag og hafa verið í undanfarinn áratug verði breytt í veigamiklum atriðum á næstu árum. Það er líklegra heldur en hitt, að þær verði óbreyttar.

Því er hins vegar ekki að neita að eitt hefur stuðlað að því að festa það sem orðið er í sessi. Reglurnar hafa annan tilgang en þann að halda utan um veiðarnar og verja fiskstofnana. Þær hafa því miður þróast út í að færa til verðmæti og varðveita í höndum einstakra útgerðarmanna. Því miður verður að segja hlutina eins og þeir eru. Sem dæmi má nefna að fisktegundir hafa verið settar í kvóta án þess að nokkur ástæða væri fyrir því. Eins og menn vita eru núgildandi lög um stjórn fiskveiða grundvölluð á því að kvótasetning á fisktegundum eigi því aðeins að gerast að sóknin sé meiri en stofninn þoli. Því var ekki að heilsa varðandi steinbítsstofninn fyrir rúmu ári þegar hann var settur í kvóta, skyndilega að ákvörðun ráðherra. Engar faglegar forsendur voru fyrir þeirri ákvörðun og ég fullyrði að ákvörðun ráðherrans var eingöngu tekin til að búa til verðmæti í efnahagsreikningum útgerðanna. Aðgerðin hafði ekkert með stjórn fiskveiða að gera.

Annað dæmi sýnir einnig að menn hafa litið á þetta með öðrum augum en eðlilegt getur talist. Útgefnum kvótum á rækjuveiðar hefur t.d. verið haldið uppi þrátt fyrir að veiðar næðu ekki því sem leyft var að veiða. Sóknin var því minni en stofninni þoldi. Hver var þá tilgangur þess að gefa út aflakvóta? Hann var mjög einfaldur að mínu viti. Hann var sá að gera útgerðum kleift að selja kvóta eða leigja og færa þannig verðmæti milli fyrirtækja, fram hjá skiptum og aflahlutum sjómanna. Allir sem vilja vita að greiðslur fyrir kaup á rækju á þeim tíma voru tvenns konar. Annars vegar var greitt fyrir hvert kíló sem keypt var og hins vegar fyrir kvótann sem slíkan. Sú greiðsla fór fram hjá hlutaskiptakerfinu.

[18:15]

Fleiri dæmi má nefna líka sem rökstyðja að núverandi kerfi hefur þróast hættulega langt í þá veru að vera undirstaða verðmæta á bak við hlutabréf í einstökum útgerðarfyrirtækjum. Það er mjög varasamt þegar stjórn fiskveiða lendir á slíkum villigötum og margt sem af því leiðir sem ekki er æskilegt og óþarft er að tíunda hér í löngu máli.

Þá tek ég einnig undir það sem kom fram hjá hv. 1. þm. Vestf. að full ástæða er til að velta því fyrir sér og gera á því alvarlega athugun hvort menn séu á réttu spori með að beina sókninni í stærstu og elstu fiskana. A.m.k. eru þau rök nokkuð sannfærandi að slíkar áherslur séu ekki þær skynsamlegustu. Þá fagna ég því að þingmaðurinn tók undir þær hugmyndir sem við höfum kynnt um svonefndan löndunarbónus, þó svo að hann tæki ekki að öllu leyti undir þær prósentur sem fram eru settar. Reyndar átti ég ekki von á að um prósentuna sem slíka væri samstaða en ég vonaðist eftir að hugmyndin ætti hljómgrunn, þ.e. að beita löggjöfinni til að stýra veiddum afla sem mest í land til vinnslu. Það væri þjóðhagslega hagkvæmast, bæði út frá hagsmunum útgerðanna og eins út frá hagsmunum þjóðfélagsins í heild, þar sem miklir fjármunir eru bundnir í verðmætum, ekki bara í sjávarútvegi til lands og sjávar heldur utan sjávarútvegsins sem tengjast svo aftur sjávarútveginum, vexti hans og viðgangi. Þar á ég við eignir og annað í landi sem eru í eigu einstaklinga og fyrirtækja utan sjávarútvegs en rekja afkomu sína beint til sjávarútvegsins sjálfs og þar af leiðandi verðmæti eigna sinna eftir því hvernig gengur í þeirri atvinnugrein.

Ég vil þakka þingmönnum jafnaðarmanna, þeim Gísla S. Einarssyni og Lúðvíki Bergvinssyni fyrir framlag þeirra til umræðunnar og undirtektir við einstök atriði í tillögum okkar. Ég hef þegar svarað þeirri spurningu sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson beindi til mín og er óþarft að endurtaka það. Ég vil þó undirstrika það sem hann benti á að núverandi kerfi hefur leitt af sér ákveðna hluti sem því hefur líklega verið ætlað að gera en er ekki endilega víst að allir séu sammála um að séu æskilegir eða skynsamlegir, sem er fyrst og fremst fækkun í bátaflotanum, vertíðarflotanum um land allt. Þingmaðurinn nefndi að vertíðarbátum á Suðurlandi hefði fækkað um 70% og víst er að vertíðarbátum hefur fækkað gríðarlega mikið víðar annars staðar um landið með þeim alvarlegu afleiðingum sem því fylgir. Ég er ekki viss um að það hafi verið hagkvæmasta þróunin fyrir þjóðfélagið í heild að þetta gerðist eins og raun hefur orðið á.

Mér finnst athyglisverð sú hugmynd sem hann nefndi að hafa reglubundna endurúthlutun veiðiheimilda, og þá út frá reynslu undanfarinna ára, þannig að menn geti ekki gengið út frá því sem vísu að aflaheimildir sem þeim hefur áskotnast einhvern tímann í fyrndinni eða keypt sér verði þeim varanlega í hendi, heldur þurfi menn að hafa fyrir því að hafa þær áfram og þá fyrst og fremst á þann veg að nýta þær til veiða eins og ætlast er til í meginatriðum með þessari löggjöf.

Herra forseti. Ég held ég fjölyrði ekki frekar um það sem komið hefur fram í umræðunni annað en að árétta þakkir mínar til þeirra sem tekið hafa þátt í henni fyrir þeirra framlag. En af því ég gerði ekki tillögu um hvert vísa bæri frv. um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, þá legg ég til, að athuguðu máli, að málinu verði vísað til hv. umhvn. með því fororði að sú nefnd sendi málið bæði til sjútvn. og landbn. til umsagnar áður en umhvn. afgreiðir málið frá sér.