Hollustuhættir

Þriðjudaginn 24. febrúar 1998, kl. 14:00:29 (4169)

1998-02-24 14:00:29# 122. lþ. 74.9 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta HG
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 122. lþ.

[14:00]

Frsm. minni hluta umhvn. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta umhvn. um frv. til laga um hollustuhætti, eins og frv. hét þegar það var lagt hér fyrir þingið. Nú liggur fyrir tillaga um að breyta nafni frv. Að minnihlutaálitinu standa ásamt mér hv. þm. Ásta B. Þorsteinsdóttir og Kristín Halldórsdóttir, þ.e. þeir fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem sæti eiga í hv. umhvn. Svo fór að nefndin klofnaði í afstöðu til málsins. Menn urðu viðskila í nefndarvinnunni og ljóst var þegar líða tók á samstarfið að leiðir mundu skilja. Við í minni hluta umhvn. teljum miður að ekki hafi tekist breið samstaða um mál sem þetta. Við hörmum að ekki skyldi til fullnustu látið á það reyna, að skapa samstöðu um slíkt málefni sem hollustuhætti og mengunarvarnir.

Segja má að strax og frv. kom fram síðasta haust hafi verið ljóst að mikið þyrfti að breytast í því frv. til að líkur væru á að samstaða gæti tekist milli meiri hlutans í þinginu sem styður ríkisstjórnina og minni hlutans, nema þeim mun róttækari breytingar yrðu gerðar. Meiri hluti umhvn. hefur lagt hér fyrir viðamiklar brtt. við frv. Sumar þeirra eru til bóta frá upphaflegu frv. en þrátt fyrir það vantar mjög mikið á að frv. sé komið í það horf að að minni hluti nefndarinnar geti staðið að málinu við afgreiðslu frá þingnefnd.

Virðulegur forseti. Að okkar mati er löngu tímabært, ég býst við að um það sé samstaða, að endurskoða lögin um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit sem að stofni til eru frá árinu 1981. Á þeim hafa verið gerðar ýmsar breytingar síðan án þess að til heildarendurskoðunar á lagabálkinum kæmi. Þó hefur margt borið við, m.a. flutningur á stórum þáttum milli ráðuneyta. Nú eru því komnir saman málaflokkar undir umhvrn. sem áður voru undir öðrum ráðuneytum. Þar hafa þeir verið sameinaðir. Það eru jákvæð skref út af fyrir sig og auðvitað þarf að taka tillit til þess þegar sett eru heildarlög líkt og hér um ræðir.

Ég mun hér fjalla um megingalla þessa frv., eins og það liggur hér fyrir við 2. umr. málsins að mati minni hlutans. Fyrst kem ég að þeim helstu þáttum sem við gagnrýnum í tillögu meiri hlutans og frv. sjálfu. Það er til þess að skýrt liggi fyrir hvað hér ber á milli og veldur því að umhvn. nær ekki saman um málið.

Ég hef þegar nefnt frv. eins og það kom fyrir þingið á sl. hausti og þörfina á róttækum breytingum. Við teljum í fyrsta lagi að markmið frv. séu langt frá því að endurspegla þá þróun sem orðið hefur í umhverfisrétti á þeim tíma sem liðinn er síðan fyrst voru sett lög um þessi mál. Á frv. er ekki að sjá að þar hafi orðið miklar breytingar. Markmiðsgrein frv. segir ekki mikið, orðalag hennar er eitt út af fyrir sig meinlaust en það skortir á að teknir séu inn margir þættir sem skapa nýja sýn til umhverfismála. Þar skortir ýmislegt sem tengist að sumu leyti Ríó-ferlinu svonefnda en vissulega mörgum öðrum þáttum í laga- og réttarþróun á þessu sviði. Þetta er fyrsta atriðið.

Í öðru lagi felst í frv. mjög mikið valdaframsal af hálfu löggjafans til umhvrn. og hæstv. umhvrh. með þeim fjölmörgu opnu reglugerðarheimildum sem í frv. er að finna. Í því sambandi má vísa á upptalningu í 4. og 5. gr. þessa frv. sem aðeins eru fyrirsagnir, óútfylltar hvað efni snertir.

Í raun dregur dregur þetta frv. ekki upp neinn efnisramma um málsmeðferð þessa málaflokks heldur fyrst og fremst stjórnsýsluramma. Allt sem varðar efnisramma er að megninu eftirlátið hæstv. ráðherra að setja um reglur án atbeina þingsins. Ekkert markar af einstaka þætti sem ráðuneytinu ber að styðjast við um efni máls. Svona lagasetning í afar mikilsverðu máli er ekki til fyrirmyndar, svo vægt sé til orða tekið.

Í þriðja lagi, virðulegur forseti, ber að nefna að sérlög sem varða þetta málasvið og alþjóðasamningar, sem sannarlega eru margir og mörg ákvæði sem tengjast þessu málasviði, eru ekki tengd frv. Það varðar ekki minni mál en lög um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988, og lög um matvæli, nr. 93/1995. Ekki verður betur séð en að þar sé málið skilið eftir í verulegri óvissu, réttaróvissu á mikilsverðum sviðum.

Að því er varðar alþjóðasamninga þá er í gildandi löggjöf frá 1988 nr. 81 að finna ákvæði varðandi tilvísun til alþjóðasamninga, bæði í 1. og í 3. gr. þeirra laga. Þessi ákvæði eru felld niður. Við í minni hluta umhvn. spyrjum: Hvað veldur því? Boðar þetta stefnubreytingu af hálfu viðkomandi ráðuneytis og þeirra sem bera ábyrgð á málinu, meiri hluta þingnefndar? Ætla menn ekki stofnunum eins og t.d. Hollustuvernd ríkisins að sinna ákvæðum alþjóðasamningum er varða þessi lög? Því er ekki svarað hér í þessu frv. en miðað við að fella niður þessa tilvísun til alþjóðasamninga mætti álykta að svo væri.

Í fjórða lagi, virðulegur forseti, ber að nefna að í 11. gr. frv. er lagt til að fulltrúi atvinnurekenda taki sæti í heilbrigðisnefndum og verði hluti af þeim á landinu öllu. Til þess að draga athyglina frá þessu þá eru hér settir að auki, fyrir utan kjörna fulltrúa sveitarfélaga, fulltrúar náttúruverndarnefnda við hlið fulltrúa atvinnurekendanna. Þessir fulltrúar eru báðir án atkvæðisréttar en þó hluti af nefndinni. Hér blasir við að verið er að byggja inn og bjóða upp á, ekki aðeins hagsmunaárekstra í ríkum mæli, heldur er einnig dregið úr trausti á heilbrigðisnefndum. Þær eiga að fara með þessi mál og hafa við hlið sér í allri umfjöllun mála fulltrúa samtaka atvinnurekenda á svæðinu. Ég kem nánar, virðulegur forseti, að þessum þætti hér síðar.

Í fimmta lagi boðar þetta frv. að stjórn Hollustuverndar ríkisins verði lögð af en svonefnt hollustuháttaráð sett á fót. Sú tillaga var í upphaflegu frv. hæstv. ráðherra. Ráðinu er ætlað að véla um hina mikilsverðustu þætti sem snerta þetta málasvið, ekki bara Hollustuvernd ríkisins, þó að látið sé að því liggja að þetta hollustuháttaráð eigi með vissum hætti að koma í stað stjórnar Hollustuverndar ríkisins, heldur á ráðið að horfa yfir öxlina á ráðherra í öllum hans gerðum í málum af þeim toga. Við reglugerðarsetningu á hæstv. ráðherra að ráðgast við þetta hollustuháttaráð, m.a. skipað fulltrúum hinna tvíhöfða atvinnurekendasamtaka.

Í þessari ríkisstjórn er þess gætt eins og sjáaldurs augans að hinn tvíhöfða atvinnurekendasamtök --- ég segi ekki það sem mér bjó í huga, virðulegur forseti --- eigi fulltrúa við borðið, bæði tvö, Vinnumálasamband Íslands og Vinnumálasamband samvinnufélaga. Þessa hefur verið gætt við aðra lagasetningu sem umhvn. hefur fjallað um. Mig minnir það vera lög um spilliefni. Þar varð þetta að miklu deilumáli og torleyst á milli stjórnarflokkanna. Nú var þess gætt að efna ekki til ófriðar og hafa þegar í frv. þessa tilhögun varðandi hollustuháttaráðið. Þar er safnað fulltrúum þrýstihópa til þess að handa í höndina á hæstv. ráðherra varðandi reglugerðir en einnig ef hæstv. ráðherra dettur í hug að breyta lögum. Það er tryggilega tekið fram að allar hugmyndir hæstv. ráðherra um lagasetningu beri að leggja undir þessa þrýstihópa og reyndar fulltrúa annarra samataka sem ekki falla undir þá nafngift á sama hátt.

Í sjötta lagi er staða Hollustuverndar ríkisins sem aðalstofnunar í þessum málaflokki undir ráðuneytinu, fyrir utan heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna sem hefur auðvitað afar þýðingarmiklu hlutverki að gegna, ekkert bætt með þessu frv. Stofnunin hefur verið leikin þannig í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar að hrópar í himininn. Stjórnskipaðar nefndir hafa með þátttöku ráðuneytisins, og að mati fulltrúa umhvrn., komist að því eftir nákvæma skoðun að þarna þyrfti að setja 60 stöðugildi ef vel ætti að vera, jafnvel hefur verið talað um 80, en stóð eftir að rúm 20 ársverk þyrftu að koma til. Tuttugu ársverk stóðu eftir að búið var að hreinsa út allt að því sem kallað er svartalágmark. Engan nýjan boðskap er að finna í þessum efnum samanber samantekt og álit fjárlagaskrifstofu fjmrn. sem fylgir frv. og höfð er til hliðsjónar við samningu umhvrn. á frv. Hinn slæmi aðbúnaður Hollustuverndar ríkisins er því samur og áður.

[14:15]

Í sjöunda lagi ber að nefna að sett eru upp stór eftirlitssvæði sem fara víðast hvar eftir mörkun kjördæma og falla að kjördæmum nema í Reykjaneskjördæmi þar sem eftirlitssvæðin eru þrjú. Upphaflega var sett í frv. að a.m.k. skuli starfa tveir heilbrigðisfulltrúar á hverju eftirlitssvæði en þegar málið barst inn í þingið til 2. umr. hefur meiri hluti nefndarinnar séð ástæðu til að verða að kröfu Vinnuveitendasambandsins og stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga að færa þetta lágmark niður í einn heilbrigðisfulltrúa á eftirlitssvæði. Það er því deilt með tveimur í heilbrigðiseftirlit eftirlitssvæðanna miðað við að tveir heilbrigðisfulltrúar starfi á hverju svæði og lágmarkið fært niður í einn. Ég vil leyfa mér að vekja athygli á að í 9. tölul. í áliti meiri hluta umhvn. segir um þetta atriði, með leyfi forseta:

,,Lagðar eru til nokkrar breytingar á 15. gr. Í fyrsta lagi er lögð til breyting sem snýr að því að ekki verði skylt að hafa tvo heilbrigðisfulltrúa í fullu starfi á hverju eftirlitssvæði eins og kveðið er á um í frumvarpinu. Þykir ljóst að ekki er alls staðar þörf fyrir fleiri en einn heilbrigðisfulltrúa og því óheppilegt að festa slíkt ákvæði í lög.``

Þetta er boðskapurinn til heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna á Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi og um land allt. Ekki er víst að þörf sé fyrir nema einn. Tekið er undir kröfu Vinnuveitendasambandsins og stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga um þetta atriði. Þetta eru kaldar kveðjur, virðulegur forseti, varðandi einn undirstöðuþátt þess að um sé að ræða virkt heilbrigðiseftirlit úti í eftirlitssvæðunum á landinu og tillaga sem tengdist auðvitað eins og málið var lagt fyrir þeirri miklu stækkun á eftirlitssvæðum, heilbrigðissvæðum sem er um að ræða samkvæmt frv. Í stað margra í hverju kjördæmi er hvert kjördæmi nú orðið eftirlitssvæði víðast hvar á landinu og opnað er fyrir að aðeins einn heilbrigðisfulltrúi gegni verkum á þessum svæðum. Ég teldi æskilegt að hæstv. ráðherra tjáði sig einnig um hvað veldur því að þannig er haldið á málum og hver þau svæði eru þar sem að mati meiri hlutans er hugsanlega ekki þörf á nema einum heilbrigðisfulltrúa. Það væri ágætt að fá vísbendingu um það. Fá eitthvert kjöt á þau bein sem sýnd eru í áliti meiri hluta umhvn. um þetta efni.

Í áttunda lagi, virðulegur forseti, nefnum við í minni hluti umhvn. í áliti okkar að grunnur undir gjaldskrár er ótraustur samkvæmt frv. að teknu tilliti til brtt. Gert er ráð fyrir að hæstv. umhvrh. geti sett eins konar viðmiðunargjaldskrá. En málið er í rauninni á afar ótraustum grunni og alveg ljóst að fram munu koma fyrr en varir algerlega andstæð sjónarmið og kröfur að því er snertir gjaldtökumál, annars vegar sjónarmið þeirra sem er ætlað að reka heilbrigðiseftirlit á sértekjum að talsverðu leyti og afla tekna fyrir veitta þjónustu samkvæmt sannanlegum kostnaði svo sem heimildir eru til um og hins vegar þeirra og þá fulltrúa atvinnufyrirtækja sem segja: Við eigum að sjálfsögðu ekki að greiða meira fyrir þjónustuna austur á landi eða vestur á fjörðum en gert er á Reykjavíkursvæðinu út frá jafnræðissjónarmiðum og samkeppnissjónarmiðum fyrir atvinnureksturinn. Þessi sjónarmið er erfitt að sætta og undir þennan leka er í raun ekki sett með þeim ákvæðum sem er að finna í frv. um setningu á gjaldskrá.

Virðulegur forseti. Í níunda lagi er sá þáttur sem hefur kannski verið hvað mestur höfuðverkur í umhvrn. um nokkurt skeið og áreiðanlega í hugum meiri hluta umhvn. í sambandi við umfjöllun um frv. og gildir raunar um nefndina alla sem ræddi þessi mál mikið. Þar hefur heldur betur orðið kollsteypa frá gildandi lögum og alveg sérstaklega að teknu tilliti til þess lagafrv. sem hæstv. umhvrh. lagði fyrir þingið í október sl. Hvernig var þar búið um hnútana? Þannig var haldið á málum að í frv. var tillaga um að taka fjárfestingar þar sem um væri að ræða stofnkostnað yfir 950 millj. kr. alveg út úr því meginferli sem gert var ráð fyrir í frv. og hafa það í vasa hæstv. umhvrh. Stinga því í vasa hæstv. umhvrh. til að gefa út starfsleyfin og til að taka afstöðu til kærumála, á einni og sömu hendi. Margt fleira mætti segja um þá stöðu sem kom fram í 6. gr. frv. eins og það lá fyrir og var að sjálfsögðu gagnrýnt mjög harðlega bæði þegar frv. var til 1. umr. og ekki síður í sambandi við þá hugmynd að lögfesta hluta þess fyrir áramótin, á jólaföstunni.

Menn geta prísað sig sæla fyrir að þetta mál var þó til frekari skoðunar og hér koma fram tillögur sem endurspegla að mörgu leyti þá stefnu sem við, talsmenn minni hlutans og talsmenn stjórnarandstöðunnar í þinginu, höfum mælt fyrir um lengri tíma, þ.e. að hætta þeirri stefnu sem er í núgildandi löggjöf að umhvrn. gefi út starfsleyfi og færa það í hendur heilbrigðisnefnda og Hollustuverndar ríkisins. Vissulega ber að fagna því --- og kannski mál til komið, virðulegur forseti, að eitthvað komi sem er glaðlegra varðandi þetta mál sem við ræðum hér en það sem ég hef þegar fjallað um --- að samkvæmt tillögu meiri hlutans er fallist á þetta sjónarmið okkar í stjórnarandstöðunni eftir miklar hremmingar og miklar vangaveltur. Raunar þurfti leiðsögn löglærðra manna að koma til í hv. þingnefnd til að menn færu að reyna sig á stafrófinu í þessum efnum, virðulegur forseti. Niðurstaðan varð sú á síðasta fundi nefndarinnar, þeim sama og málið var tekið út, að kominn var botn í þetta stóra mál og linaðist væntanlega þessi mikli höfuðverkur meiri hlutans með því að leggja til að útgáfa starfsleyfa yrði færð í hendur heilbrigðisnefnda og Hollustuverndar ríkisins. Þetta er sannarlega stefna sem er auðvelt fyrir minni hluta nefndarinnar að styðja og við munum fylgja því eftir í atkvæðagreiðslum um þennan þátt þegar hann verður að líkindum borinn upp til atkvæða þótt við höfum aðra tillögu um málsmeðferð.

Þá er komið að hinum þættinum sem varðar kæruferlið. Þar er hins vegar ekki farið eftir ráðum okkar í þessum efnum þótt þar sé hins vegar margt skýrara en verið hefur hvað snertir kæruferli og veitti nú ekki af, ekki síst eftir þær stílæfingar sem umhvrn. hefur tíðkað um reglugerðarsetningu um þessi efni á undanförnum árum, virðulegur forseti, hæstv. ráðherra mætti gjarnan leggja við hlustir --- ég sé ekki hæstv. ráðherra í þingsal --- sem hefur leitt til þess að undanfarið ár eða svo, eða frá því reglugerð var sett, ætli það hafi ekki verið 22. janúar 1997 sem síðasti stíllinn kom frá ráðuneytinu í setningu reglugerða um þessi efni, að almenningur í landinu hefur staðið uppi gersamlega réttlaus og stjórnvöld ráðþrota í sambandi við kæruferli að því er varðar starfsleyfi. Það er sá verkur sem varð til þess að rekið var svo fast á eftir afgreiðslu þessa máls að fá einhvern botn í endileysuna og það varð til þess að krafa af hálfu ráðuneytisins kom upp um að lögfesta hluta af þessu frv. í hasti fyrir áramót.

Hins vegar þegar tillögur koma fram af hálfu meiri hluta nefndarinnar er reynt að leysa úr þessu efni með því að setja hluta af kæruferlinu, þ.e. að því er snertir útgáfu starfsleyfa af hálfu Hollustuverndar ríkisins samkvæmt lista sem á að vera hluti af lögunum og er að finna í fylgiskjali að kærur sem varða slík starfsleyfi, útgefin af Hollustuvernd ríkisins, geti hlotið kærumeðferð hjá umhvrn., sé í höndum hæstv. umhvrh. Hins vegar verði allir aðrir þættir varðandi framkvæmd laganna, reglugerðir og fleira, samanber 31. og 32. gr. sem fjalla um þessi efni, þessa kærumeðferð, að þar er gert ráð fyrir að úrskurðarnefnd, ekki ósvipað og nú er við lýði og hefur verið skilin eftir í algjöru tómarúmi að undanförnu, fjalli um kærumál að öðru leyti að því er starfsleyfi varðar.

[14:30]

Hvað er um þessa aðferð að segja, virðulegur forseti? Hún er skiljanleg og hún tekur fram þeirri pattstöðu sem nú ríkir, en hún er samt ekki til þess fallin að losa menn undan réttaróvissu í þessum mikilvægu málum vegna þess að svo sem augljóst má verða er úrskurðarréttur í kærumálum varðandi efnisatriði um framkvæmd laganna, reglugerðir o.fl., í höndum sérstakrar úrskurðarnefndar sem kveður upp fullnaðarúrskurði. Hins vegar á ráðuneytið að kveða upp úr um deiluefni varðandi starfsleyfin sem auðvitað eru reist á settum reglugerðum sem umdeilanlegar geta verið og geta leitt til kærumála. Hér getur þess vegna skapast réttaróvissa.

Tillaga okkar í minni hlutanum var að sameina þetta ferli, hafa þetta ferli aðeins eitt og óskipt. Okkar mat er að skynsamlegt sé að hafa úrskurðarnefnd sem fjalli um alla þessa þætti og búa vel að slíkri nefnd jafnhliða því sem reglur séu sem skýrast mótaðar varðandi útgáfu starfsleyfanna sjálfra og allt sem varðar efni þessa máls og hafa úrskurðaraðilann aðeins einn og eyða þar með þeirri óvissu og tortryggni sem gera má ráð fyrir að verði áfram að því er þetta snertir, þó margt hafi verið fært til betri vegar að því er snertir útgáfu starfsleyfa til atvinnureksturs sem veldur mengun.

Síðan nefnum við í minni hluta umhvn. ýmsa fleiri þætti undir 10. lið okkar yfirlits varðandi efni sem við erum ósammála. Undir þeim lið er safnað saman ýmsum atriðum, smáum og stórum, en aðallega kannski miðlungsstórum þó sem hefði þurft að athuga betur og falla ekki að okkar sjónarmiðum.

Þetta er stutt yfirferð, virðulegur forseti, varðandi meginávirðingar þessa frv. og breytingartillagna meiri hlutans af hálfu okkar í minni hluta umhvn.

Ég ætla að taka nokkra þætti frekar til umræðu svo sem nauðsynlegt er og koma fyrst af öllu að því hvers vegna þetta óðagot sé á þessari málsmeðferð. Af hverju gefur framkvæmdarvaldið og hæstv. ráðherra þinginu ekki eðlilegt svigrúm til þess að vinna að mótun löggjafar á þessu þýðingarmikla sviði þannig að menn geti staðið upp sæmilega sáttir og sagt: Það er búið að fara vandlega yfir málasviðið og reyna að skera úr um flesta óvissuþætti, einangra það sem er pólitískur ágreiningur um og málið er fært til lögfestingar í þinginu. Það hefði verið mjög eðlilegt að þingið hefði allan sinn tíma á þessum vetri til að fara yfir þetta mál. Við sem enduðum í því hlutverki að vera fulltrúar minni hluta í nefndinni höfum verið þeirrar skoðunar í umhvn. og látið það koma fram að vinnu að þessu máli hefði mátt ljúka bærilega fyrir lok þessa þings. Við komum þessu sjónarmiði ítrekað á framfæri í nefndinni. En svipa eftirrekstrarins sveif yfir nefndinni allan tímann, má segja. Ég held að það hafi verið strax þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir þessu máli að eins og oft áður hafi komið fram ósk um að ljúka lögfestingu fyrir áramót. Síðan kom eftirreksturinn á jólaföstunni með sérstökum hætti sem ég ræði ekki sérstaklega frekar og síðan samkomulag sem gert var þá rétt fyrir jólahlé þingsins þess efnis að ljúka afgreiðslu málsins úr nefnd og lögfesta það um mánaðamót febrúar/mars. Það er þessi rammi sem veldur því að málið er langt frá því að vera komið í það horf sem þörf væri á og málið verðskuldar í þinginu vegna þessa eftirrekstrar framkvæmdarvaldsins sem fulltrúar stjórnarflokkanna hafa látið hafa sig til að lúta.

Við í minni hluta umhvn. töldum okkur skylt vegna þess samkomulags sem gert var fyrir jólahlé að láta okkur hafa það að málið færi út úr þingnefnd á þessum tíma sem gerðist og höfum þá ekki önnur ráð en lýsa okkar sjónarmiðum og koma fram með tillögur okkar við 2. umr. í tvískiptri nefnd hvað nál. snertir. Þetta ber að harma, virðulegur forseti, og þetta er ekki til fyrirmyndar um lagasetningu. Það er mjög langt frá því. Ég er sannfærður um það og við í minni hluta nefndarinnar að unnt hefði verið að ljúka sæmilegri yfirferð á þessu þingi, kannski með því að bæta haustþinginu við. En ég held að þess hefði ekki þurft ef eðlilega hefði verið á máli haldið þannig að tryggt væri að hægt væri að lögfesta málið á þessu ári. Ég skil afar vel að þörf er á því að skýra löggjöf á þessu sviði og setja góða löggjöf um þennan málaflokk.

Virðulegur forseti. Ég ætla að fara örfáum orðum frekar um það stóra álitamál og ágreiningsefni að setja fulltrúa atvinnurekenda í heilbrigðisnefndir. Ég vil vekja athygli á þeim óvenjulega þungu og víðtæku andmælum sem fram komu í umsögnum umsagnaraðila til umhvn. um þetta efni sérstaklega. Við leyfðum okkur að taka saman skrá --- hún er kannski ekki alveg tæmandi en hún er eftir þeim gögnum sem við unnum eftir --- yfir umsagnaraðila sem allir lögðust á þá sveif mjög ákveðið að í heilbrigðisnefndum sætu aðeins fulltrúar kjörnir af sveitarstjórnum og ekki aðrir og þá um leið að fulltrúar samtaka atvinnurekenda fengju þar ekki sæti.

Ég held að þetta sé einsdæmi í löggjöf af þessum toga og alveg sérstaklega forkastanlegt í ljósi nútímalegra viðhorfa til stjórnsýslu því að það er alveg deginum ljósara að þær aðstæður sem hér er verið að skapa munu leiða meira og minna til uppnáms í starfi heilbrigðisnefnda vítt og breitt um landið. Hvaða vit er í því, virðulegur forseti, að setja þarna inn fulltrúa atvinnurekenda sem eru þeir sem á að veita aðhaldið ekki síst og eru þannig málsaðilar í rauninni ef til ágreinings kemur og þolendur þeirra reglna ef má að orða það þannig, taka við þeim reglum hlutlaust sagt, sem settar eru og eru ákvarðanir sem heilbrigðisnefndir taka. En að gera þá að hluta nefndarinnar, þó að þeir hafi nú ekki atkvæðisrétt sem breytt var að tillögu meiri hlutans, er með öllu óskiljanleg málafylgja og við hljótum að koma sterkum aðvörunum á framfæri um það efni. Þar fyrir utan kemur eftirfarandi spurning upp fyrr en varir: Hver eru þessi samtök atvinnurekenda á eftirlitssvæðum? Hver eru þau? Hefur verið farið yfir það hver samtök atvinnurekenda á Austurlandi eru, svo að ég taki dæmi af kjördæmi þar sem ég kannast við stöðu mála? Mér er ekki kunnugt um að nokkuð sé til í þá átt að vera heildarsamtök atvinnurekenda á Austurlandi. Það er mjög takmarkað að finna af félagsskap sem þeir standa saman um. Jú, útgerðarmenn eiga sitt félag og vísir er að öðrum slíkum. En heildarsamtök atvinnurekenda á svæðinu eru engin og þannig hugsa ég að hátti til víðar á þessum eftirlitssvæðum. Hvernig á þá að halda á máli? Og hvor verður það af hinum tvíhöfða, Vinnuveitendasambandið eða Vinnumálasambandið sem hlýtur þann heiður hugsanlega að tilnefna í heilbrigðisnefndina austur á landi eða vestur á fjörðum? Það væri fróðlegt að vita um það og betra að hafa plástrana nærri þegar til átakanna kemur milli stjórnarflokkanna um þetta heilaga mál, að báðir fái haldið sínum, Vinnuveitendasambandið og Vinnumálasambandið, sem eru tákn þeirrar ríkisstjórnar. Ef hún á sér einhvern samnefnara þá er það í þessum tvíhöfða. (Gripið fram í: Þeir þurfa nú að fara að endurskipuleggja sig.) Já. (Gripið fram í: Héraðsdóminn.)

Síðan mætti margt segja um hollustuháttaráðið, virðulegur forseti, og það ráðslag að leggja af stjórn yfir Hollustuvernd ríkisins, bregða á það ráð og fara að búa til þetta samsafn þrýstihópa í formi hollustuháttaráðs sem mun hafa sitt vökula auga yfir öxl hæstv. ráðherra hverju sinni. Hvaða stefna er hér uppi af hálfu meiri hlutans? Hvaða stefna er uppi hér af hálfu umhvrh.? Umhvrn. hefur stundað það nú um árabil síðan það var stofnað að setja stjórn yfir hverja stofnunina á fætur annarri. Stjórn var sett yfir Náttúrufræðistofnun Íslands þegar ný lög voru sett um hana 1992 og núv. hæstv. ráðherra stóð fyrir því að sett var sérstök stjórn yfir Náttúruvernd ríkisins þegar hún var sett á fót 1996. Og alveg nýverið, fyrir fáum mánuðum, setti hæstv. ráðherra á fót stjórn yfir Landmælingar Íslands sem er nú ekki mjög stór stofnun en á að fara að flytja hreppaflutningi upp á Skaga. Það er kannski til að hjálpa til við flutninginn sem hæstv. ráðherra setti á fót sérstaka stjórn. En nú kemur frv. þar sem stjórnin skal burt og búinn er til þessi óskapnaður í formi svokallaðs hollustuháttaráðs sem hefur ekki á sér mjög faglegt yfirbragð, virðulegur forseti. Og þegar farið var að leita að fulltrúum náttúruverndar var ekki horft til Náttúruverndarráðs sem á þó að vera ráðgjafi ráðuneytisins í þessum málum. Það var ekki talið nógu tryggt. Ég vil að taka það með. Þetta stefnuleysi sem hér birtist er með öllu óskiljanlegt.

Auðvitað er þörf á því að taka stjórnarform ríkisstofnana til almennrar skoðunar og ætti að vera búið að fara ofan í saumana á því fyrir löngu. Auðvitað kalla ný lög um starfsmannahald ríkisins á ákveðnar breytingar á stöðu stjórna. En það á að gera þetta með samræmdum hætti. Það þarf ekki að þýða að stjórnir verði lagðar niður eða stjórnum yfir stofnunum verði ýtt til hliðar þó það sé alveg ljóst að stöðu þeirra verður breytt eins og mál standa nú.

Virðulegur forseti. Þetta stefnuleysi og hringlandaháttur af hálfu framkvæmdarvaldsins og meiri hlutans á þingi sem kemur fram með þessar tillögur er ekki í réttu horfi.

[14:45]

Nefndarálit okkar, sem skipum minni hluta umhvn., er á þingskjali sem liggur fyrir á níundu síðu. Þar er vikið að mörgum atriðum sem við töldum skylt að koma á framfæri við þingið. Ég ætla ekki að fara yfir alla þætti þegar ég geri grein fyrir sjónarmiðum okkar en ég hef reynt að staldra við stærri atriðin í þessu safni. Ég hef vísað til þess að í þingskjalinu er að finna margar ábendingar sem við teldum að kalli á breytingar á lögunum. Sumt er farið yfir undir 10. tölulið á bls. 8, undir yfirskriftinni: Ýmsir fleiri agnúar á frv., og leyfi ég mér að benda á það.

Virðulegur forseti. Meðal annars er vikið að réttaróvissu sem er vegna þess að tilvísun í sérlög, t.d. eiturefnalöggjöf og matvælalöggjöf er ekki traust. Það hlýtur að vera sérstakt áhyggjuefni framkvæmdarvaldsins þegar þannig er um hnútana búið, t.d. er ekki að finna tilvísanir í lögum um eiturefni og hættuleg efni þar sem vísað er í lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Það er nokkuð óljóst hvernig á að setja gjaldskrár sem sem snerta þessa málaflokka. Þetta er eitt dæmi, ekki efnislega mjög stórt dæmi, sem á auðvitað að fara yfir í þingnefnd og skila í tryggu formi til þingsins.

Ég á eftir að sjá það, virðulegur forseti, og vek athygli hæstv. ráðherra á því, að búið verði að ganga frá hnútum varðandi eftirlitskerfi heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga 1. ágúst nk. Þá verði búið að skipa nefndirnar og koma þeim af stað. Mér finnst mjög óvarlegt að ætla svo nauman tíma til þess. Við bendum á að tveggja vikna kærufrestur sem er ætlaður almenningi vegna útgáfu starfsleyfa þar sem ráðherra fer með úrskurðarvald er ótrúlega naumt skorinn. Við bendum á að í Noregi eru þrjár vikur í stað tveggja eins og hér er gert ráð fyrir, og í Danmörku, sem er ekki stórt land landfræðilega, hafa menn fjórar vikur til að undirbúa mál sitt gagnvart úrskurðarvaldinu. Þannig má vísa til stórra atriða og smárra sem einkenna flausturslega afgreiðslu og ekki nógu vel grundaða um málið.

Við segjum eftirfarandi í lok nál. okkar, með leyfi forseta:

,,Óvandaður undirbúningur setur mark sitt á þetta frumvarp og óskiljanlegt óðagot hefur einkennt meðferð þess allt frá því málið kom til umræðu 23. okt. 1997 þar til frumvarpið var afgreitt úr nefnd 20. febr. 1998. Minni hluti umhverfisnefndar lýsti áhuga sínum á að vinna áfram að frumvarpinu í nefndinni í von um að samkomulag gæti tekist um frekari breytingar og helst samstaða um afgreiðslu málsins í heild. Yfir störfum nefndarinnar hvíldi skuggi þess samkomulags sem umhverfisráðherra bauð upp á og fallist var á rétt fyrir jólahlé þingsins um að málið yrði lögfest um mánaðamót ferbrúar/mars 1998. Minni hlutinn telur enn mikið vanta á að unnt sé að styðja frumvarpið eins og það lítur út að teknu tilliti til breytingartillagna meiri hlutans og leggur því til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Er þá haft í huga að endurbætt og vel unnið frumvarp verði lagt fyrir Alþingi strax og haustþing kemur saman og það lögfest fyrir lok ársins 1998.``

Undir þetta álit er ritað af þeim sem hér talar og þeim sem mynda minni hlutann ásamt mér, hv. þingmönnum Ástu B. Þorsteinsdóttur og Kristínu Halldórsdóttur.

Ég ætla þá senn að ljúka mínu máli, virðulegur forseti. Ég vil geta þess að athugasemdir og bókanir komu fram af hálfu tveggja stjórnarmanna í Hollustuvernd ríkisinsvarðandi undirbúning málsins og frumvarpið og komu til umræðu í þinginu þar sem ég átti hlut að því að þeim ábendingum og aðfinnslum var komið á framfæri við þingið. Svo vildi til að hæstv. ráðherra var þá ekki á þingi en mér var ekki kunnugt um það þegar ég hafði dreift gögnum til þingmanna um þetta efni. Umhvn. fór ofan í nokkur atriði málsins og hlýddi á málsaðila sem komu fyrir hv. umhvn., Ingimar Sigurðsson, deildarstjóra í umhvrn., og Ingunni Svavarsdóttur, stjórnarformann Hollustuverndar ríkisins, sem átti sæti í hinni stjórnskipuðu nefnd sem undirbjó málið. Þessum aðilum bar ekki saman um hvernig hefði verið gengið frá hnútum varðandi kynningu á málinu á vinnslustigi, því frumvarpi sem lagt var fram á sl. hausti, og lá sú niðurstaða fyrir í umhvn., að óljóst var hvernig á því var haldið af hálfu þessara aðila. En eftir stendur sú aðfinnsla sem fram kom af hálfu tveggja stjórnarmanna í stjórn Hollustuverndar ríkisins sem komu á framfæri athugasemdum við nefndina í umsögnum og við þingið sérstaklega í framhaldi af því að þeir fundu að því að málið var ekki eðlilega til kynningar á undirbúningsstigi.

Að öðru leyti, virðulegur forseti, má segja að margt athyglisvert hafi komið fram um málið á vinnsluferlinu. Af hálfu meiri hlutans var ákveðinn vilji til þess að skoða þá hnökra og agnúa sem voru stærstir eða mjög stórir í þessu máli, og brtt. meiri hlutans bera þess vissulega vott að vilji var til þess að reyna að bæta þar úr að nokkru. Við í minni hlutanum munum taka afstöðu til einstakra þátta þegar kemur til afgreiðslu í þinginu á brtt. meiri hlutans, verði ekki orðið við megintillögu okkar að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar til þess að það fái þá umfjöllun sem ber í svo stóru og þýðingarmiklu máli þannig að menn hafi í höndum, að meðferð lokinni, góða löggjöf um þann stóra þátt sem er afar gildur í sambandi við umhverfi okkar og reyndar umhverfi umheimsins sem við erum hluti af.