Hollustuhættir

Þriðjudaginn 24. febrúar 1998, kl. 15:03:59 (4171)

1998-02-24 15:03:59# 122. lþ. 74.9 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 122. lþ.

[15:03]

Frsm. meiri hluta umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich sagði áðan að til umræðu kom í nefndinni hvernig bregðast mætti við hugsanlegri misskiptingu á kostnaði sem fælist í heilbrigðiseftirliti, en slík misskipting gæti komið fram þar sem svæði væru ólík innbyrðis. M.a. var bent á að sum svæði væru þétt setin og þéttbýli sterkt með mikilli atvinnustarfsemi á annan veginn og á hinn veginn dreifbýli og að þarna væri um ólíkar aðstæður að ræða og ólíkan kostnað við heilbrigðiseftirlit. Eftir nokkra umræðu í nefndinni var vikið frá því að koma að þessu með lagasetningu eða tillögu meiri hlutans.

Hins vegar vil ég nýta þetta tækifæri til að taka undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm., að við framkvæmd laganna verði haft glöggt auga á hugsanlegri misskiptingu, annars vegar innan svæða vegna mismunandi búsetu eins og ég gat um hér áðan og eins gæti slíkur mismunur komið upp vegna ólíkra atvinnufyrirtækja á svæðinu. Minnug skulum við vera þess að kostnaður er mikill við eftirlit af ýmsu tagi hjá atvinnulífinu og mjög eðlilegt þegar horft er til samkeppnissjónarmiða og réttlætissjónarmiða að ekki sé mismunað á neinn hátt.