Hollustuhættir

Þriðjudaginn 24. febrúar 1998, kl. 15:10:03 (4174)

1998-02-24 15:10:03# 122. lþ. 74.9 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 122. lþ.

[15:10]

Frsm. minni hluta umhvn. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég mundi kjósa að hafa oft í minni sveit hv. þm. Tómas Inga Olrich sem er mjög gegn þingmaður sem leggur hér oft gott til mála og ég tek undir það að hv. þm. gerði það að því er þessi efni snertir. Ég tel að það hafi raunar komið fram strax í umsagnarþáttum sem bárust nefndinni og var full ástæða til þess. Auðvitað er alveg ljóst að þarna er teflt á nokkuð tæpt vað um þetta efni. Ég tek undir með hv. þm. um það atriði. Því betra verður sem menn geta stillt betur saman strengi og á það átti að reyna í nefndinni hvað þetta mál snertir varðandi marga fleiri þætti því að að mínu mati var meiri hlutinn smám saman að átta sig á ýmsum verulegum grundvallarveilum í þessu máli og brást við að nokkru.