Hollustuhættir

Þriðjudaginn 24. febrúar 1998, kl. 18:26:26 (4188)

1998-02-24 18:26:26# 122. lþ. 74.9 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 122. lþ.

[18:26]

Frsm. meiri hluta umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að við framlagningu frv. gefst kærkomið tækifæri að ræða þessi mál þó svo að nokkuð sé liðið á dag og þingmönnum hafi nokkuð fækkað í þingsal. Við glímum við grundvallaratriðin, verndun umhverfisins, rétt almennings og uppbyggingu atvinnulífsins. Að sjálfsögðu er ekki til ein lína eða ein setning eða ein niðurstaða sem er hin rétta. Hér erum við eins og við höfum sagt, í hröðum breytingum og með mörg álitamál.

Ég vil þó minna á eitt aðalatriði, eina aðallínu sem við getum fikrað okkur eftir. Við höfum að undanförnu verið að setja lög um áhrif almennings á umhverfismál og ég vil nefna mat á umhverfisáhrifum sem væntanlegt er inn í þingið, bygginga- og skipulagsmál og núna um starfsleyfi. Í öllum þessum lögum er gert ráð fyrir að almenningur komi að með umsagnarrétti, tillögurétti og afskiptum þannig að áður en til starfsleyfis kemur hafa hin stærri mál og mjög mengandi atvinnurekstur eða þar sem grunur er um mjög mengandi atvinnurekstur, þurft að fara í gegnum þrenns konar ferli þar sem okkur gefst tækifæri, almennum borgurum, til að taka á þessum málum. Þetta er þó verulegur réttur sem við skulum ekki gleyma. Við höfum reynt í starfi okkar að tryggja þennan rétt því þegar við erum farin héðan, hvort sem við erum ráðherrar eða almennir þingmenn þá standa lögin eftir og öllum er okkur kær réttur borgaranna til að móta það umhverfi sem við teljum best í landinu, bæði í umhverfismálum og í atvinnumálum.