Dánarvottorð o.fl.

Þriðjudaginn 24. febrúar 1998, kl. 18:29:33 (4189)

1998-02-24 18:29:33# 122. lþ. 74.10 fundur 464. mál: #A dánarvottorð# (heildarlög) frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 122. lþ.

[18:29]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um dánarvottorð o.fl. sem fjallar um hvernig bregðast skuli við þegar andlát ber að höndum og um ritun og meðferð dánarvottorða. Lög um dánarvottorð, sem sett voru fyrir tæpum fjórum áratugum, eða árið 1962 hafa nú verið í endurskoðun um alllangt skeið. Auk þeirra laga gilda á þessu sviði enn eldri reglur sem nauðsynlegt þótti að taka samhliða til endurskoðunar. Þar er annars vegar um að ræða tilskipun frá árinu 1819 um skyldu manna til að bjarga mönnum sem sýnast dánir og lög um mannskaðaskýrslur og rannsókn á fundnum líkum sem sett voru árið 1913.

Frá árinu 1995 hafa fulltrúar dóms- og kirkjumrn., Hagstofu Íslands, landlæknisembættis og heilbr.- og trmrn. unnið að endurskoðun framangreindra laga og reglna og frv. það sem hér er lagt fram byggir á tillögum þeirra. Nefndin aflaði sér gagna frá nágrannalöndum okkar um löggjöf á þessu sviði og varð niðurstaða hennar sú að byggja að meginatriðum á danskri fyrirmynd. Þá fékk nefndin til ráðuneytis við sig ýmsa sérfræðinga sem koma að þessum málum, bæði lækna er annast hafa krufningar og réttarkrufningar og fulltrúa rannsóknarlögreglu.

Frv. gerir ráð fyrir að sameinuð verði í ein lög löggjöf um dánarvottorð og um mannskaðaskýrslur og rannsókn á fundnum líkum. Með frv. er leitast við að setja skýrar reglur um þetta efni en síðan er gert ráð fyrir að ýmis atriði verði nánar útfærð í reglugerð.

Samhliða smíði frv. hefur staðið yfir endurskoðun á gildandi dánarvottorðum og þegar liggja fyrir drög að slíku eyðublaði þar sem mun verða vísað í viðeigandi lagagreinar verði frv. það sem hér er mælt fyrir að lögum. Afar mikilvægt er að hið nýja eyðublað komist sem fyrst í notkun þar sem það byggir á alþjóðlegum staðli. Skráning dánarmeina í dánarvottorð er mikilvæg fyrir margra hluta sakir, ekki einungis með tilliti til þess einstaklings sem í hlut á og aðstandenda hans heldur einnig í þágu rannsókna og hvers kyns samanburðar milli landa. Mikilvægt er að leiðbeiningar sem fylgja hinu nýja dánarvottorði verði ítarlegar og greinargóðar þannig að skráning verði samræmd og áreiðanleg og mun heilbr.- og trmrn. fylgja því eftir að svo verði.

Fyrirmynd að nýju dánarvottorði er einkum sótt til Danmerkur eins og fyrirmyndin að frv. því sem hér er til umfjöllunar. Áður en ég hef yfirferð yfir einstakar greinar frv. vil ég reifa lauslega meginefni þess.

Frv. fjallar um ritun dánarvottorðs, útgáfu þess og meðferð, hverjir skuli annast líkskoðun, við hvaða aðstæður skuli gera lögreglu viðvart, hvenær réttarlæknisfræðileg líkskoðun fari fram, hvenær framkvæma eigi krufningu, hvenær réttarkrufning skuli gerð, heimild til útfarar, tilkynningar vegna andvana fæddra barna og um flutning líka úr landi. Ég mun hér á eftir reifa efni einstakra greina en að öðru leyti vísast til greinargerðar með frv.

Í 1. gr. frv. segir að læknir skuli rita dánarvottorð fyrir hvern þann sem deyr hér á landi og nota til þess staðlað eyðublað sem landlæknir lætur útbúa. Eins og fyrr segir liggja nú fyrir drög að nýju dánarvottorði sem kynnt verður í hv. heilbr.- og trn. við meðferð málsins. Þá er í 14. gr. frv. gert ráð fyrir því að í reglugerð verði nánar kveðið á um ritun dánarvottorða, enda er afar mikilvægt að leiðbeiningar í því efni séu skýrar þannig að ávallt sé gætt samræmis við ritun dánarorsaka.

Í 11. gr. frv. er gert ráð fyrir þeirri undantekningu að dánarvottorð séu ekki rituð þegar barn fæðist andvana. Það skal hins vegar tilkynnt Hagstofu Íslands.

Í 2. gr. frv. er fjallað ítarlega um líkskoðun, hverjir annist hana eða beri ábyrgð á henni við mismunandi aðstæður. Læknar annast ávallt líkskoðanir en ef um er að ræða andlát á heilbrigðisstofnun þá ber sá læknir sem annast hinn látna eða yfirlæknir viðkomandi deildar ábyrgð á að líkskoðun sé gerð. Ef andlát ber að utan heilbrigðisstofnunar skal sá læknir sem stundaði hinn látna í banalegunni, annast líkskoðun en sé dauðsfall óvænt eða ef ekki næst til læknis sem stundaði hinn látna, þá skal andlát tilkynnt viðkomandi héraðslækni sem ber þá ábyrgð á að lík verði skoðað.

Oftast leikur ekki vafi á því að andlát eigi sér eðlilegan aðdraganda jafnvel þótt dánarorsök sé óljós. Í 3. gr. frv. er hins vegar kveðið á um tilteknar aðstæður sem taldar eru krefjast þess að lögregla verði kvödd til. Er það fyrst og fremst til þess að koma í veg fyrir að efasemdir eða spurningar vakni um orsök andláts jafnvel þegar fram líða stundir. Þær aðstæður eru ef ætla má að andlát tengist refsiverðu athæfi, sjálfsvígi eða andláti af völdum slyss, ef maður hefur fundist látinn, ef dauðsfall er óvænt, ef maður andast í fangelsi eða öðrum áþekkum stað eða ef ætla má að dauðfall megi rekja til mistaka, vanrækslu eða óhappatilviks við læknismeðferð. Með fangelsi eða öðrum áþekkum stað er átt við hverja þá staði sem menn kunna að vera viðstaddir á grundvelli valdboðs. Í framangreindum tilvikum er gert ráð fyrir að sá læknir sem skoðar lík tilkynni lögreglu undantekningarlaust um andlát. Gert er ráð fyrir að í samráði við dómsmrn. verði settar reglur um viðbrögð lögreglu við slíkum tilkynningum. Þess má geta í þessu sambandi að í heilbr.- og trmrn. eru nú til umfjöllunar reglur um það hvernig heilbrigðisstofnanir skuli tilkynna atvik þegar talið er að átt hafi sér stað mistök, vanræksla eða óhappatilvik innan heilbrigðisstofnunar og verður það væntanlega kynnt Alþingi á næstu vikum.

Í 4. gr. frv. eru nánari fyrirmæli um viðbrögð lögreglu þegar henni berst tilkynning um andlát á grundvelli þeirra aðstæðna sem getið er um í 3. gr. frv. Ákvæðið gerir ráð fyrir því að meginreglan sé sú að lögreglan skoði lík réttarlæknisfræðilega þegar svo ber undir. Leggja ber áherslu á að með réttarlæknisfræðilegri líkskoðun er átt við líkskoðun sem er sambærileg almennri líkskoðun. Meginmunurinn felst í því að réttarlæknisfræðileg líkskoðun er gerð af lækni og lögreglu í sameiningu en almenn líkskoðun einungis af lækni.

Réttarlæknisfræðileg líkskoðun er ekki talin nauðsynleg ef svo langur tími líður milli slyss og andláts að lögregla telji slíka skoðun óþarfa með hliðsjón af þeim upplýsingum sem fyrir liggja eða ef lögregla og læknir eru sammála um að dauðdaginn hafi verið eðlilegur. Rétt er að taka fram að við frágang frv. til prentunar var setningunni ,,réttarlæknisfræðileg líkskoðun er gerð af lögreglu og lækni í sameiningu`` ranglega sett undir 3. tölul. en um er að ræða sjálfstæða málsgrein sem á að vísa til ákvæðisins í heild og verða 2. mgr. Lagt er til að heilbr.- og trn. leiðrétti þetta við umfjöllun sína um frv.

Í 5. gr. frv. er kveðið á um hvenær framkvæma megi krufningu í læknisfræðilegum tilgangi, þ.e. þegar læknir telur nauðsynlegt að rannsaka lík nánar til að staðfesta dánarorsök. Slík krufning er einungis heimil ef hinn látni hefur eftir að hann varð sjálfráða, það er nú 18 ára, samþykkt krufningu skriflega eða ef nánasti venslamaður samþykkir hana og sannað þykir að hinn látni hafi ekki verið mótfallinn krufningu.

Í 6. og 7. gr. er fjallað um réttarkrufningar. Með réttarkrufningu er átt við gjörkrufningu sem gerð er að beiðni lögregluyfirvalda annaðhvort með samþykki nánasta venslamanns eða á grundvelli dómsúrskurðar. Tilgangur með slíkri réttarkrufningu er að skýra dauðsfallið. Að lokinni slíkri réttarkrufningu er skýrsla skráð þar sem fram kemur efnisleg úttekt á krufningunni ásamt álitsgerð þar sem niðurstaða krufningar er felld inn í það sem þekkt er um aðdraganda dauðsfallsins en réttarkrufning skal gerð þegar dauðsfall verður rakið til refsiverðrar háttsemi ef ekki reynist unnt að útiloka slíkt með fullnægjandi hætti eða þegar slík krufning er talin nauðsynleg til að koma í veg fyrir að síðar vakni grunsemdir um að dauðsfall megi rekja til refsiverðs verknaðar.

Réttarkrufningu skal einnig gera ef dánarorsök verður ekki með viðeigandi hætti ákvörðuð með réttarfræðilegri líkskoðun eða í öðrum tilvikum þar sem lögregla telur réttarkrufningu nauðsynlega.

Í 8. gr. er fjallað um hvaða læknir skuli rita dánarvottorð. Meginreglan er sú að það sé annaðhvort gert af þeim lækni sem skoðar lík eða þeim sem ber ábyrgð á að lík sé skoðað. Ef fram fer réttarlæknisfræðileg líkskoðun skal dánarvottorð ritað af þeim lækni sem tók þátt í skoðuninni og ef réttarkrufning hefur farið fram þá ritar dánarvottorð sá læknir sem hana hefur framkvæmt.

Í 9. gr. er fjallað um umönnun líks. Þar er kveðið á um að ekki megi flytja lík í líkhús fyrr en læknir hefur staðfest dauðaskilmerki og að óheimilt sé að leggja lík í kistu fyrr en það hefur verið skoðað og dánarvottorð ritað. Með dauðaskilmerkjum er átt við ýmis einkenni andláts en nánar er fjallað um dauðaskilmerki í reglugerð nr. 430/1994.

Í 10. gr. frv. er fjallað um eina meginbreytingu á gildandi framkvæmd. Gert er ráð fyrir að sýslumenn taki við dánarvottorðum og beri ábyrgð á skilum þeirra til Hagstofu Íslands. Nú annast prestar og forstöðumenn skráðra trúfélaga þessi skil. Markmið með þessari breytingu er fyrst og fremst að fækka þeim aðilum sem standa Hagstofunni skil á dánarvottorðum auk þess sem leitast er við að tryggja að vottorðin berist fyrr til skráningar en nú er. Í dag sjá hátt á annað hundrað prestar og forstöðumenn trúfélaga um að skila dánarvottorðum en verði frv. að lögum munu tæplega 30 sýslumenn annast þessi skil jafnóðum. Prestar munu áfram standa Hagstofunni skil á dánarskýrslum. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni verður því ekki breyting á greiðslum til presta. Þeir munu fá greitt fyrir að skila dánarskýrslum. Með þessari breytingu telur Hagstofan að bæta megi úr ýmsum vanköntum sem nú eru á skráningu látinna. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni eru þess dæmi að látnir einstaklingar séu ranglega skráðir í þjóðskrá með ýmsum óþægindum fyrir aðstandendur og töfum á réttindum sem tengist andláti.

Hið breytta fyrirkomulag gerir ráð fyrir þeirri meginreglu að þegar læknir hefur ritað dánarvottorð þá afhendir hann það venslamanni hins látna. Venslamaður afhendir vottorðið síðan sýslumanni í því umdæmi þar sem hinn látni átti lögheimili eða þar sem ætla má að dánarbúi verði skipt hafi hinn látni ekki átt lögheimili hér á landi. Þegar hvorugt það tilvik á við er gert ráð fyrir að dánarvottorð afhendist sýslumanni í því umdæmi þar sem útför er gerð. Sýslumaður afhendir venslamanni staðfestingu á því að andlát hafi verið tilkynnt. Í 4. mgr. 10. gr. er mikilvægt ákvæði þess efnis að óheimilt sé að gera útför manns fyrr en sá sem annast útför hefur fengið staðfestingu sýslumanns á því að andlát hafi verið tilkynnt.

Í 12. gr. frv. er fjallað sérstaklega um það hvernig standa skuli að flutningi líka úr landi og er það samhljóða ákvæði núgildandi laga um dánarvottorð. Hið sama má segja um 13. gr. þar sem kveðið er á um refsingar við brotum gegn lögum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim.

Í 14. gr. er annars vegar kveðið á um almenna heimild ráðherra til að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna og hins vegar kveðið á um fjögur atriði sem ráðherra er skylt að kveða nánar á um í reglugerð. Er þar um að ræða reglur um ritun dánarvottorða, réttarlæknisfræðilega líkskoðun, réttarkrufningu og tilkynningu til Hagstofu Íslands um andvana fædd börn.

Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. júlí á þessu ári en nauðsynlegt er talið að hafa nokkurn aðdraganda m.a. vegna frágangs nýs dánarvottorðs og leiðbeininga með því. Á hinn bóginn er lögð rík áhersla á að framkvæmd á grundvelli nýrra reglna hefjist sem fyrst þannig að Íslendingar geti unnið að skráningum á grundvelli hins alþjóðlega staðals um ritun dánarvottorða sem fyrr er getið.

Loks er í frv. kveðið á um brottnám laga og tilskipana sem fyrr er getið og breytingar sem nauðsynlegt er að gera á öðrum lögum til samræmis.

Virðulegi forseti. Það frv. sem lagt er fram er afrakstur ítarlegrar endurskoðunar sem var löngu tímabær og er gerð á grundvelli tillagna þeirra sem starfa á þessum vettvangi.

Virðulegi forseti. Ég veit að frv. mun hljóta vandaða meðferð hjá hv. heilbr.- og trn. og vænti þess að umsagnir, athugasemdir og umfjöllun nefndarinnar muni verða okkur gott veganesti til frekari vinnslu málsins. Ég leyfi mér því að óska eftir því að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.