Dánarvottorð o.fl.

Þriðjudaginn 24. febrúar 1998, kl. 19:05:28 (4194)

1998-02-24 19:05:28# 122. lþ. 74.10 fundur 464. mál: #A dánarvottorð# (heildarlög) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 122. lþ.

[19:05]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni fyrir að fara yfir þessi mál sem hér liggja fyrir. Hann kom fyrst inn á nefndarskipan, þ.e. hvernig hún hafi verið á sínum tíma og bendir réttilega á að nefnd sem átti að endurskoða frv. sem hér er til umfjöllunar var skipuð fyrst í mars 1993. Það starf lá niðri þar til í mars 1995 en síðan hafa margir komið að þessu máli og ég tel að hér sé um mjög vandað frv. að ræða.

Hv. þm. ræddi um sálusorgun og tilkynningu andláts og hann saknaði þess jafnvel úr þessu frv. að ekki skuli vera kveðið á um það. Þetta frv. kveður fyrst og fremst á um form. En það sem hv. þm. minntist á er kveðið á um í lögum um réttindi sjúklinga að nokkru leyti en að öðru leyti er ávallt höfðað til skynsemi heilbrigðisstarfsmanna, skynsemi presta og þeirra sem standa frammi fyrir því að tilkynna að lát hafi borið að höndum. Það er mjög erfitt að setja nákvæma löggjöf um þessi efni því það er ávallt undir þeim komið sem ber þá ábyrgð að standa í þeim sporum að gera það skynsamlega. Ég veit að það er rétt sem hv. þm. sagði áðan að oft hafa þessir hlutir mátt fara betur. En ég held að það sé sama hvað standi í lögum og reglum ef einstaklingurinn sem stendur í þessum sporum hefur ekki tilfinningu fyrir því.

Hv. þm. kom inn á að slökkviliðsmenn hafi haft samband við hann og sýnt mikinn áhuga á því að efla áfallahjálp. Ráðuneytið hefur einmitt styrkt slökkviliðsmenn til þess og þeir gáfu út mjög vandaðan bækling ekki alls fyrir löngu sem fleiri en slökkviliðsmenn hafa síðan notið. Ég held einmitt að reynsla manna sé besta veganestið og það að fólk geti tekið þátt í sorg þeirra sem þeir þurfa að tilkynna þannig að ég treysti því ekki að föst lög og fastar reglur um það hvernig beri að haga sér varðandi syrgjendur mundu fullnægja þeirri þörf sem er í þeim efnum.

Ég þakka hv. þm. fyrir þær athugasemdir sem hann gerði og ég held að þær séu ágætisveganesti inn til heilbr.- og trn.