Ríkisreikningur 1996

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 14:14:18 (4201)

1998-02-25 14:14:18# 122. lþ. 75.4 fundur 97. mál: #A ríkisreikningur 1996# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[14:14]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Því miður gat ég ekki verið við 2. umr. Ég hef reyndar gert fyrirspurn um hvort ágreiningur væri um málið og fengið þau svör að svo væri ekki enda skrifa allir hv. nefndarmenn fjárln. undir nál. Ég nota tækifærið til að þakka þeim starf þeirra.

Við 2. umr. komu fram nokkrar fyrirspurnir og þá fyrst og fremst frá hv. þm. Gísla Einarssyni. Þar sem ég var ekki við umræðuna tel ég ástæðu til þess að fara nokkrum orðum um það sem hann sagði. Skal ég þó reyna að vera stuttorður við 3. umr. málsins.

[14:15]

Í ræðu sinni vitnar hv. þm. til umfjöllunar um ársreikningsskil ríkisaðila til Ríkisbókhalds í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 1996, þetta er að finna á bls. 9. í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Sú umfjöllun var tekin fyrir í skýrslunni að beiðni Ríkisbókhalds og sýnir kannski góða samvinnu þessara tveggja aðila. Í þessu yfirliti kemur mjög skýrt fram hve seint ársreikningar hafa skilað sér. Almennt má segja að heilsugæslan og sjúkrastofnanir hafi skorið sig úr hvað varðar slæm skil og ég held að ástæða sé til að það komi sérstaklega fram.

Í því yfirliti sem vitnað var til kemur fram að í lok mars 1997, þ.e. mánuði eftir að skilafresti Ríkisbókhalds lauk, höfðu aðeins 66% af A-hluta aðilum skilað ársreikningum sínum. Þetta vekur að sjálfsögðu spurningar og kannski sérstaklega þá spurningu hvort bókhald og reikningshald stofnana sé notað sem stjórntæki í rekstrinum. Ég er alveg sannfærður um að ef við litum til markaðarins og skoðuðum hjá einkafyrirtækjum og spyrðum þá hvenær þeir gætu skilað inn reikningum og það væri ekki hægt á þessum tíma þá væri það almennt talið bera vott um það að menn notuðu reikningshaldið, bókhaldið, ekki sem stjórntæki í rekstri sínum. Ég hygg að gagnrýni hv. þm. eða ábending hans um þetta hafi beinst m.a. að þessu, þ.e. hvernig þessi lélegu skil bentu til þess að menn nýttu ekki bókhaldið í rekstri sínum.

Satt best að segja hafa slæm skil ríkisaðila, og ég nota hugtakið ríkisaðili, virðulegi forseti, vegna þess að þetta er orðalag fjárreiðulaganna, en slæm skil þeirra á ársreikningum valda oft miklum erfiðleikum og hafa tafið útgáfu ríkisreiknings nokkuð. Síðustu þrjú ár hefur Ríkisbókhald lagt hart að þessum aðilum að virða lögbundinn skilafrest á ársreikningum, miklum tíma hefur þurft að verja í þessu skyni en ávallt er lögð áhersla á að allir reikningar skili sér inn í ríkisreikninginn. Vissulega hafa þessar aðgerðir skilað sér í bættum skilum ríkisstofnana á ársreikningum sínum og hefur tekist að flýta útgáfu ríkisreikningsins. Ríkisreikningur 1994 kom t.d. út í september 1995, ríkisreikningur 1995 kom í ágúst 1996 og ríkisreikningur 1996 í júlí 1997. En betur má ef duga skal og stefnt er að því að koma reikningnum fyrir árið 1997 út enn fyrr, þ.e. fyrr á þessu ári.

Þetta er stórkostleg breyting frá fyrri árum þegar ríkisreikningur vegna tiltekins árs var ekki gefinn út fyrr en mörgum árum síðar.

Ég tel að fyllsta ástæða sé til að vekja athygli á þessu og ég tel að það sé full ástæða bæði fyrir Ríkisendurskoðun og fyrir hv. Alþingi að gera athugasemdir við þetta sleifarlag sem kemur fram hjá ákveðnum stofnunum og fyrirtækjum ríkisins vegna þess og það er kannski aðalatriði málsins að þegar við störfum núna eftir nýjum fjárreiðulögum er samanburður á milli ríkisreiknings og fjárlaga allt annar en hann var áður og tiltölulega auðvelt að nota ríkisreikninginn sem stjórntæki. Þess vegna verður mikilvægi ríkisreikningsins í fjármálastjórninni miklu meiri en áður og til þess að hægt sé að nýta ríkisreikninginn fyrir hv. Alþingi og aðra sem þurfa að nota hann sem stjórntæki við fjármálastjórnina þurfa ríkisstofnanir að virða lögboðna skilafresti á ársreikningum sínum.

Þetta fannst mér kannski vera stærsta atriðið sem hv. þm. nefndi í ræðu sinni. Mér þykir leitt að ég hafði skilið það svo að ekki yrðu umræður um málið og ég var þess vegna ekki viðstaddur. Hv. þm. nefnir að vísu önnur mál, þar á meðal vörsluskatta og bendir á vanskil þeirra, og segir í ræðu sinni að fjöldi gjaldenda sem er í vanskilum sé um 480, og það er áreiðanlega rétt, enda úr opinberum gögnum, og kröfurnar séu 2,6 milljarðar kr. Það sem hins vegar veki áhyggjur, að áliti hv. þm., sé það að aðeins hefur tekist að afgreiða 30--40 vanskilamál á ári. Ég hygg í fljóti bragði, án þess að ég hafi kynnt mér það sérstaklega, að smámisskilningur sé á ferðinni því að annars vegar erum við með vanskil vörslufjárskatta þar sem um er að ræða kröfur sem ríkið telur sig eiga, í mjög mörgum tilvikum eru það kröfur á aðila sem eru hættir rekstri, hafa svikist um að telja fram virðisaukaskatt sinn eða eru farnir á hausinn og fá þess vegna áætlunarálagningu. Stór hluti af þessum kröfum eru því ekki raunverulegar kröfur. Hins vegar heldur ríkið úti innheimtu með mjög ákveðnum og föstum hætti á þessum kröfum. Þessu má hins vegar ekki rugla saman við störf skattrannsóknarstjórans, þar sem sakamál eru send þangað, og það má vel vera að talan 30--40 eigi við afgreiðslur skattrannsóknastjóra á málum sem fara venjulega til lögregluyfirvalda og lenda síðan í því að fara í gegnum dómskerfið með þeim hætti. Langstærstur hluti þessara krafna er hins vegar þess eðlis að reynt er að ná því sem hægt er að ná en í mörgum tilvikum er í raun og veru ekki neinn rekstur að baki kröfunum. Þetta eru fyrirtæki sem eru farin á hausinn eða hafa hætt störfum en vegna þess að þau skila ekki inn framtali fá þau áætlaða álagningu. Álagningin er síðan grunnur frekari krafna og síðan er haldið áfram. Á einhverju stigi málsins kemur kannski í ljós að fyrirtækið er ekki til, farið á hausinn o.s.frv. Þetta eru ekki endilega fjármunir sem hafa verið teknir í rekstrinum. Ég býst við því án þess að ég hafi skoðað þetta nákvæmlega að lægri talan sé til komin sem tala sem skattrannsóknarstjóri hefur verið að vinna með á hverju ári. Ég get ekki fullyrt þetta en mér þykir það líklegt af þeim tölum sem þarna eru nefndar eða voru nefndar í ræðu hv. þm.

Almennt held ég að alveg óhætt sé að slá því föstu að ríkið, fjmrn. og stofnanir þess auk innheimtuaðilanna gangi mjög fast eftir því að kröfur séu innheimtar. Það síðasta sem við höfum gert í þessum málum er að tollstjórinn í Reykjavík hefur tekið að sér samræmingu á þessum störfum. Tollstjórinn í Reykjavík er starfsmaður sem heyrir undir fjmrn., hann er skipaður af fjmrh. Gjaldheimtan í Reykjavík hefur verið lögð niður þannig að tollstjórinn hefur meira umleikis en áður. Þótt nafnið sé enn þá tollstjórinn í Reykjavík er starfið orðið allt annað en það var og við búumst við því að með öflugu starfi tollstjórans í Reykjavík verði innheimtan enn betri en hún hefur verið og einnig sé þá lagður grunnur að betri samræmingu á milli sýslumannaumdæmanna yfir landið. En tollstjórinn í Reykjavík gegnir sama hlutverki hér á þessu svæði og sýslumennirnir úti á landi.

Ég veit, virðulegi forseti, og varð sérstaklega var við það í umræðunni um daginn um Ríkisendurskoðun, að erfitt er að átta sig á þessu kerfi því að lögreglustjórinn annast sektarinnheimtu en sýslumennirnir innheimta skattkröfur fyrir ríkissjóð. En í langflestum tilvikum er þetta einn og sami maðurinn og síðan mætir hann líka fyrir hönd beggja aðila við allar gerðir þar sem hann er kominn í þrefalt hlutverk. Auðvitað ber honum lögum samkvæmt einnig að gæta réttar þess sem er gerðarþoli í hvert skipti þannig að þar er fjórða hlutverkinu bætt við. Þess vegna er eðlilegt að menn ruglist stundum í ríminu þegar þessi mál ber á góma.

Að allra síðustu, virðulegi forseti, án þess að ég ætli að ræða það sérstaklega hér, ítreka ég það sem svo margoft hefur verið sagt að breytingar á lögum um Lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna munu í framtíðinni gjörbreyta lífeyrisskuldbindingum ríkisins. Það má gera ráð fyrir því að á næstu árum --- ég get giskað á kannski næstu tíu árum eða svo --- muni skuldbindingarnar aukast eitthvað þrátt fyrir að mynduð hafi verið A-deild fyrir alla nýja starfsmenn og þá sem fluttu sig yfir í nýju deildina, þar sem kjörin eru nokkuð önnur, þar sem ríkið leggur fram sem launagreiðandi alla þá fjármuni strax sem duga fyrir eftirlaunaréttinum. En eftir u.þ.b. tíu ár og næstu þrjátíu árin þar á eftir munu þessar skuldbindingar dragast saman sem er stórkostlegt framfaraspor frá því sem verið hefur.

Ég vænti þess, virðulegi forseti, að þær upplýsingar sem hér koma fram séu nægilegar til að hægt sé að afgreiða frv. áfram.