Öryggismiðstöð barna

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 14:37:16 (4205)

1998-02-25 14:37:16# 122. lþ. 75.7 fundur 37. mál: #A öryggismiðstöð barna# þál., Frsm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[14:37]

Frsm. heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti heilbr.- og trn. um till. til þál. um öryggismiðstöð barna.

Nefndin fjallaði ítarlega um málið og fékk til sín álit fjölmargra aðila. Álit næstum allra var það að hér væri hið þarfasta mál.

Í tillögunni er lagt til að komið verði á fót öryggismiðstöð barna sem miðli til foreldra, kennara og annarra sem tengjast með einhverjum hætti uppeldi og umönnun barna hvers konar fræðslu um öryggi og öryggisbúnað sem er líklegur til að fækka slysum á meðal barna. Jafnframt er lagt til að samræmd tölvuskráning á barnaslysum verði tekin upp og hún verði vistuð á vettvangi þessarar miðstöðvar sem er meginefni tillögunnar.

Frá því er skemmst að segja, herra forseti, að allar þær umsagnir sem bárust nefndinni voru jákvæðar, flestar mjög jákvæðar. Nefndin er þeirrar skoðunar eftir að hafa brotið þetta mál til mergjar að brýnt sé að ná fram þeim markmiðum sem eru sett fram í tillögunni. Í umsögn heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis kom fram að ríkisstjórnin hefði ákveðið þann 8. október sl. að hrinda af stað átaki til að fækka slysum á börnum. Þar var frá því greint að skipuð hefði verið sérstök verkefnisstjórn sem á að vinna í tengslum við ýmsar stofnanir, sveitarfélög, félagasamtök og faghópa. Átak ríkisstjórnarinnar, sem ráðgert er að standi í þrjú ár, gerir ekki ráð fyrir að komið verði á fót sérstakri stofnun heldur að samhæfðar verði og efldar aðgerðir allra þeirra sem nú þegar vinna að slysavörnum barna. Þar er hins vegar tekið mjög skýrt fram, herra forseti, að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið telur eigi að síður að ekki sé útilokað að niðurstaðan kunni að verða sú að best sé að koma á fót sérstakri miðstöð til að sinna öryggismálum barna. Með öðrum orðum, þarna er óbeint tekið undir þá megintillögu sem er að finna í þáltill. Ráðuneytið telur enn fremur mikinn feng í þeim upplýsingum sem fram koma í greinargerð með tillögunni.

Með hliðsjón af þessu, að ríkisstjórnin er að vinna að svipuðu máli og telur ekki útilokað að niðurstaðan kunni að verða sú sem lögð er til í þessari þáltill., er nefndin sammála um að leggja til að best og farsælust afdrif þessa máls yrði að vísa tillögunni til ríkisstjórnar.

Undir þetta álit skrifa ég, formaður og framsögumaður málsins, jafnframt hv. þingmenn Siv Friðleifsdóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Guðni Ágústsson, Sólveig Pétursdóttir og Lára Margrét Ragnarsdóttir.