Þingvallaurriðinn

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 14:44:31 (4207)

1998-02-25 14:44:31# 122. lþ. 75.8 fundur 17. mál: #A Þingvallaurriðinn# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[14:44]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég kem upp til að þakka hv. landbn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli. Ég flutti þá tillögu sem hér er verið að leggja til að verði samþykkt ásamt tveimur öðrum þm., hv. þm. Árna M. Mathiesen og Guðna Ágústssyni.

Ég tel afskaplega mikilvægt að Alþingi hefur tekið þessa ákvörðun. Í henni felst að verið er að taka fyrsta skrefið til að leita leiða til að byggja upp þessa merku stofna sem hafa mjög látið undan síga sökum yfirgangs, leyfi ég mér að segja, mannsins. Ég tel að það skref sem hér hefur verið ákveðið að stíga sé í sjálfu sér ekki mjög stórt. Það felur einungis í sér að sett verður á stofn nefnd en það er eigi að síður mikilvægt skref.

[14:45]

Ég er þeirrar skoðunar að þegar hinir færustu sérfræðingar leggjast yfir þetta komist þeir að því að við svo búið má ekki una. Menn munu líka komast að því að hægt er að hugsa sér ýmsar leiðir til að koma aftur upp þessum stofni. Ein af þeim væri t.d. sú sem ég tel farsælasta, eins og ég sagði við fyrri umræðu þessarar tillögu, að leggja niður stífluna sem þvergirðir farveg Efra-Sogsins. En ég geri mér hins vegar vel grein fyrir því að það er umdeild ákvörðun og nýtur ekki nægilegs stuðnings að svo komnu máli. En það eru líka ýmsar aðrar leiðir eigi að síður færar til að hlaða aftur undir þessa stofna sem kosta miklu minna og munu ekki hafa jafnafdrifríkar afleiðingar. Ég held það væri í sjálfu sér hægt að benda á þrjár til fjórar leiðir sem væru farsælar. Það sem skiptir mestu máli er að menn dragi saman upplýsingar um þá möguleika sem eru fyrir hendi, leiti upplýsinga t.d. erlendis frá í Svíþjóð, í Noregi og þar sem menn hafa staðið frammi fyrir svipaðri stöðu þar sem merkir stórurriðastofnar hafa látið undan síga sökum framkvæmda af mannsins hálfu. Ég held að þegar því er lokið þá liggi fyrir safn upplýsinga sem hægt er að byggja ýmsar tillögur á, mismunandi miklar, afdrifaríkar og róttækar, en sem munu allar, hver þeirra sem verður svo valin til framkvæmdar, hníga að því að stofnarnir í vatninu muni verða sterkari. Þetta skiptir máli, ekki bara fyrir þessa fiska sem um er að ræða heldur líka fyrir lífríki vatnsins allt. Það er nefnilega hægt að færa mjög sterk vísindaleg rök að því að þessi staða urriðans í Þingvallavatni hafi m.a. leitt til þess aflabrests sem hefur orðið á öðrum silungum og sér í lagi murtunni sem á sínum tíma var afskaplega mikilsverð hlunnindi fyrir bændur við Þingvallavatn en sem Landsvirkjun hefur aldrei bætt. Ég tel þess vegna, herra forseti, að hér hafi landbn. staðið vel að verki og þakka henni fyrir þá tillögu sem hér liggur fyrir um samþykkt þáltill. okkar þremenninganna.