Vörugjald

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 15:29:26 (4211)

1998-02-25 15:29:26# 122. lþ. 75.12 fundur 277. mál: #A vörugjald# (byssur, skot o.fl.) frv., Flm. KPál (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[15:29]

Flm. (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Tómas Ingi Olrich, Einar K. Guðfinnsson, Einar Oddur Kristjánsson og Siv Friðleifsdóttir.

1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

Tollskrárnúmer 9303.2000, 9303.3000, 9306.2900, 9306.\-3009 í F-lið í viðauka I við lögin falla brott.

2. gr. Lög þessi taka þegar gildi.

[15:30]

Herra forseti. Eins og fram kemur í greinargerð er hér verið að leiðrétta mismun sem skapast með núgildandi lögum um vörugjöld. Hér er átt við stöðu frístundahópa í landinu sem eru ekki meðhöndlaðir með sama hætti eftir því hvort þeir stunda frístundaveiði með byssum eða með stöng, svo dæmi sé tekið. Með frv. er lagt til að þessari mismunun verði hætt og tollskrárnúmer sem talin eru upp í frv. verði felld niður. Þau ná yfir byssur og skotfæri sem notuð eru til frístundaveiða enda vart um aðra notkun á skotvopnum að ræða hér á landi, að undanskildum ákveðnum deildum innan lögreglu og svo hjá varnarliðinu sem heyra undir önnur lög og þessu máli óviðkomandi.

Það hefur lengi verið baráttumál Skotvíss, félags skotveiðimanna, að fá þessu breytt og eru fjölmörg bréf til fjmrn. því til staðfestingar. Framsögumaður, sá sem hér stendur, hefur einnig tekið þetta mál upp í hv. Alþingi í fyrirspurnarformi til hæstv. fjmrh. á 121. löggjafarþingi. Í framhaldi af þeirri fyrirspurn er þetta frv. flutt.

Vörugjöld á byssur og skotfæri eru í dag 25% og skiluðu í ríkissjóð árið 1995 13,5 millj. kr. Þetta er það gjald sem sá frístundahópur greiðir í ríkissjóð fyrir utan það að vera eini frístundahópur landsins sem stendur straum af rannsóknum og eftirliti með þeim fuglastofnum sem helst eru nýttir í formi gjalds fyrir veiðikort. Veiðikortagjaldið fyrir árið 1998--1999 mun skila veiðistjóraembættinu um 20 millj. kr. á því tímabili. Frístundaveiðimenn eru því að skila um 33 millj. kr. á þessu ári í ríkissjóð umfram það sem aðrir sambærilegir hópar í þjóðfélaginu þurfa að gera til að geta stundað frístundaiðju sína.

Það var með samþykki skotveiðimanna sjálfra að lagt var á veiðigjald sem sýnir, herra forseti, ábyrgð af þeirra hálfu og skilning á því að ávallt þurfi að liggja fyrir sem nákvæmastar upplýsingar um ástand veiðistofnanna. Fram að þessu hefur ekki verið mikill skilningur á því ábyrga starfi sem Skotvís og veiðimenn yfirleitt hafa sýnt að þessu leyti. Hér er nefnilega ekki um að ræða veiðar í atvinnuskyni heldur eru langflestir sem stunda skotveiðar að njóta útivistar sér til heilsubótar.

Til marks um ábyrga afstöðu skotveiðimanna hafa þeir stofnað félag sem ég nefndi áðan og heitir Skotvís. Stjórn þess félags hefur frá stofnun unnið markvisst að því að beina augum skotveiðimanna að þeirri ábyrgð sem fylgir því að vera með byssu eða hafa byssu um hönd og hvernig beri að haga sér sem veiðimaður með slík verkfæri undir höndum. Í þeim tilgangi hafa félagsmenn samþykkt siðareglur sem gefnar eru út af Skotveiðifélagi Íslands. Þær hljóða svo, með leyfi forseta, og tek ég helstu atriði út úr þeim:

,,Skotveiðimaður stundar veiði á villibráð sér til ánægju og heilsubótar. Hann virðir landslög og vegna byssunnar ber hann sérstaka ábyrgð gagnvart samborgurum sínum og lífríki landsins í heild. Þess vegna temur hann sér eftirfarandi siðareglur.

1. Eykur stöðugt þekkingu sína á skotveiðum.

2. Æfir skotfimi.

3. Gætir fyllsta öryggis í meðferð skotvopna.

4. Beitir ekki veiðiaðferðum sem valda bráðinni óþarfa kvölum.

5. Telur fjölda veiddra dýra ekki mælikvarða á góðan veiðimann eða vel heppnaðan veiðidag.

6. Fer vel með veiðibráð.

7. Færir veiðibækur af kostgæfni og tekur virkan þátt í verndun veiðidýra.

8. Er góður veiðifélagi.

9. Sýnir öðrum veiðimönnum háttvísi.

10. Virðir rétt landeigenda.

11. Sýnir almenningi tillitssemi.

12. Gengur vel um landið`` --- sem er síðasti liður í siðareglugerð þeirra skotveiðimanna, en 12. gr. skiptist í þrjá liði sem hljóða svo:

,,a. Góður veiðimaður gerir greinarmun á bráð og öðrum dýrum þótt skjóta megi. Bráð er veidd, vargi er eytt en önnur dýr látin í friði.

b. Veiðimaður spillir hvergi landi. Þess gætir hann við akstur, í tjaldstað og við meðferð elds.

c. Góður veiðimaður skilur ekki annað eftir sig en sporin sín``.

Þetta er það helsta sem kemur fram í siðareglum Skotvíss og segir margt um það hvernig siðferði er byggt upp meðal skotveiðimanna.

Skotvís hefur einnig rekið skóla sem heldur uppi námskeiðahaldi fyrir áhugasama skotveiðimenn og hef ég hér undir höndum námskeiðaröð skólans á komandi vori og vil ég, með leyfi forseta, fá að vitna lítillega í dagskrá sem þeir hafa auglýst sérstaklega fyrir sína félaga. 16. maí er t.d. námskeið í skotfimi og verður þá fyrirlestur og verklegar æfingar. Þeir kenna einnig meðferð á bráð eins og svartfugli. Það verður námskeið um vistfræði, vopn, skot og öryggismál, veiðar á báti og matreiðsla. Sama á við um gæsir o.s.frv. Það er því ekki hægt að segja annað, herra forseti, en að mjög mikil vinna sé lögð í það af hálfu forsvarsmanna skotveiðimanna að kunna að umgangast og bera virðingu fyrir því sem þeir afla með tækjum sínum.

Herra forseti. Eins og af þessu má sjá sýna skotveiðimenn mikla ábyrgð við þessa tómstundaiðju og tel ég það geta orðið mörgum til eftirbreytni. Ég vonast til að í ljósi þess skoði hv. efh.- og viðskn. af fyllstu sanngirni þær réttlætiskröfur sem felast í þessu lagafrv. svo þessi frístundaiðjuhópur landsins, skotveiðimenn, sitji við sama borð af hálfu löggjafarvaldsins hvað skattlagningu varðar.

Ég vil einnig beina því til hæstv. efh.- og viðskn. að hún skoði um leið, þar sem það er ekki í frv., sérstakt erindi frá Skotfélagi Reykjavíkur. Skotfélag Reykjavíkur er eingöngu með markskot sem eru með loftrifflum og loftskammbyssum. Flutningsmenn þessa frv. höfðu ekki gert sér grein fyrir að til væri einhver hópur sem stundaði þetta að einhverju marki, en þessi iðja fellur undir önnur númer í vörugjaldaflokknum en ég taldi upp í upphafi máls míns og er meginefni þessa frv. Ég vil því biðja hv. efh.- og viðskn. að taka það bréf til skoðunar um leið og frv. þannig að málið í heild sinni fái þá meðferð sem eðlileg má teljast. Að lokum, herra forseti, vil ég vísa þessu máli til efh.- og viðskn.