Vörugjald

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 15:47:04 (4214)

1998-02-25 15:47:04# 122. lþ. 75.12 fundur 277. mál: #A vörugjald# (byssur, skot o.fl.) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[15:47]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég á kannski ekki að öllu leyti skilið það hrós sem mátti skynja um mig í fyrri hluta ræðu hv. þm. Stundum greindi mig á við skotveiðimenn. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þeir hafi að mörgu leyti borið skarðan hlut frá borði.

Hér er dæmi um það. Hér er hv. þm. að reyna að leiðrétta ákveðið misræmi þar sem hallar á þá. Þeir eru látnir borga gjöld sem aðrir útivistarmenn þurfa ekki að greiða til þess að geta iðkað sína íþrótt. Það er ekki rétt. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það eigi eftir því sem kostur er að draga úr gjöldum á þann búnað sem menn þurfa til þess að geta stundað útivist og notið náttúru. Ég held líka að ef það dæmi væri reiknað út í hörgul, mundi koma í ljós að mikill þjóðhagslegur sparnaður væri að því. En það er önnur saga. Það er ekki alltaf hið rökræni ferli sem er leiðarhnoða hugsunar þeirra sem fara með valdið innan hins opinbera kerfis. Við verðum bara að sætta okkur við það.

Hins vegar er gott að heyra að hv. þm. hefur rutt þessu máli braut að miklu leyti innan stjórnarliðsins. Málið er flutt með fulltingi þingflokks sjálfstæðismanna. Hér er náttúrlega enginn framsóknarmaður í salnum sem er afskaplega slæmt. Annars væri hægt að ganga eftir því hvort þetta þarfa mál hefði líka hlotið svipað brautargengi innan hins stjórnarflokksins vegna þess að það er flutt af einum hv. þm. Framsfl. líka, Siv Friðleifsdóttur.

Þó að málið sé ekki endilega flutt með beinu samþykki hæstv. fjmrh., þá er það ekki flutt í andstöðu við hann. Hann veit af því. Því má gera því skóna að þetta mál muni hljóta náð fyrir augum þingsins og verða samþykkt. Ég tel að þá sé búið að stíga eitt skref til þess að leiðrétta hlut skotveiðimanna. Það er líka ánægjulegt að horfa til þess að á öðru sviði, nákvæmlega þessa dagana, er verið að rétta hlut þeirra í öðru máli. Það varðar einmitt mál sem hefur tengst mjög mínum flokki, þ.e. almannarétturinn, réttur manna til þess að njóta landsins. Núna er það gamla baráttumál að komast í höfn að skotveiðimenn muni geta stundað sína íþrótt með því að fara með byssur sínar og skotfæri til veiða á ósetnum ríkisjörðum. Þetta er gamalt baráttumál sem mér finnst að skipti mjög miklu. Þarna er um að ræða jarðir sem eru í eigu okkar allra og þess vegna eigum við öll að fá að nota þær.

Barist hefur verið fyrir þessu árum saman. Ég reyndi að hreyfa málinu þegar ég var umhvrh. Það tókst ekki þá m.a. vegna andstöðu tiltekinna ráðherra Sjálfstfl. Nú er annar uppi og það má færa núv. hæstv. umhvrh. sérstakar þakkir fyrir það að hann hefur tekið á þessu máli með nokkurri röggsemd, reyndar fyrir tilstuðlan tveggja ágætra flokksbræðra sinna, annars vegar hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar og Sigmars B. Haukssonar sem er núverandi formaður Skotvíss. Mér sýnist því að hérna sé verið að hnika málum þeirra.

Nú hefur hv. þm. Kristján Pálsson lagt fram frv. sem hann hefur upplýst að nýtur að líkindum góðs stuðnings innan stjórnarliðsins og mun áreiðanlega njóta mikils stuðnings innan stjórnarandstöðunnar og það miðar líka að því að bæta hlut skotveiðimanna. Ég held þess vegna að við séum að stíga skref sem væntanlega er til hagsbótar þeim sem vilja njóta náttúrunnar á þennan hátt. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Pálssyni fyrir frumkvæði hans í þessu máli.