Réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 16:32:04 (4220)

1998-02-25 16:32:04# 122. lþ. 75.13 fundur 284. mál: #A réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[16:32]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki viss um að hv. flutningsmaður hafi gert sér grein fyrir þeim harða áfellisdómi sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson flutti yfir núverandi kerfi og ekki síst yfir núv. hæstv. heilbrrh. Hann sagði að það væri til vansa að hæstv. ráðherra og Tryggingastofnun hefðu ekki þegar og fyrir löngu gert úttekt á þeirri þjónustu sem er veitt á þessum stofnunum. (GHall: ... alþýðuflokksmaður þar líka.)

Herra forseti. Mér finnst þetta vera mjög þörf umræða og málefnarík og að henni hafa einungis komið menn og konur sem hafa mikið vit á þessum málum. Ég er hálfgerður ,,analfabet`` í þessum málum en ég lít allt öðruvísi á þetta. Ég tók þátt í því ásamt öðrum þingmönnum að breyta stjórnarskránni. Þá var tekið á mannréttindakafla þar sem m.a. var kveðið alveg skýrt á um það --- sú túlkun kom fram í umræðum --- að það mætti ekki mismuna mönnum eftir til að mynda sjúkleika þeirra eða hvers konar sjúkleika þeir ættu við að stríða. Þetta er spurning um jafnræði, herra forseti. Þetta er spurning um það að þeir sem eru aldraðir og fatlaðir og búa á sólarhringsstofnunum njóti sömu aðstöðu og réttinda og þeir sem búa t.d. sjálfstætt. Spurningin er: Er það rétt eða rangt?

Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson dró í efa að um væri að ræða alvarlega mismunun á þessu sviði. En það er eigi að síður staðreynd, held ég, að þeir sem búa á sólarhringsstofnunum fá ekki að njóta bóta úr almannatryggingakerfinu. Þeir standa eftir með 11 þús. kr. á meðan fólk í svipaðri stöðu, sem býr jafnvel innan vébanda þeirrar stofnunar en í vernduðu húsnæði eða sambýli, hefur meira en tvöfalt meira til umráða. Það kalla ég alvarlega mismunun. Ég segi fyrir sjálfan mig, ef ég lendi einhvern tíma sjálfur í þessu, þá vildi ég ekki sæta henni.

Ég spyr hv. þm. Guðmund Hallvarðsson: Telur hann ekki að þetta sé alvarleg mismunun? Ef svarið er já, finnst honum þá ekki að hann hafi farið eilítið offari í sinni að öðru leyti málefnalegu ræðu áðan?